141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[02:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Mig langar í því sambandi að lesa um stefnu og horfur í frumvarpi til fjárlaga 2013 þar sem stendur á bls. 14:

„Ein alvarlegustu áhrif bankahrunsins tengdust gengisfalli krónunnar. Kaupmáttur almennings skertist til muna og vísitölutryggð lán hækkuðu mjög.“

Svo stendur enn fremur, með leyfi forseta:

„Langstærstan hluta kjaraskerðingar hjá þorra almennings í kjölfar hrunsins má rekja til verðlagshækkana vegna gengisfalls krónunnar.“

Hvernig hyggst ríkisstjórnin, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar sem kennt hefur sjálfa sig við og kallað hina norrænu velferðarstjórn, í þessu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 að styrkja fólkið í landinu, draga úr rýrnun ráðstöfunartekna og draga úr hækkun vísitölutryggðra lána? Við skulum kíkja á það aðeins nánar, virðulegur forseti.

Fjármálaráðherra sem leggur þetta fjárlagafrumvarp fram í nafni norrænu velferðarstjórnarinnar ætlar sér að festa í sessi skatta sem áttu að vera tímabundnir. Stjórnin ætlar að hækka vörugjald af ökutækjum og eldsneyti þar sem meðal annars vörugjald af bensíni hækkar um rúma krónu og hún ætlar að hækka gjald á áfengi og tóbak sem væri í sjálfu sér allt í lagi ef það hefði ekki bein áhrif á vísitölutryggð lán fólksins í landinu. Tekjuöflun þessa fjárlagafrumvarps sem við ræðum nú við 2. umr. hefur bein áhrif til hækkunar verðtryggðra lána hjá fólkinu í landinu. Þetta er í hnotskurn hin norræna velferðarstjórn. Og það er ekki nóg með það, heldur hækkar hún líka bifreiðagjöld. Flestar fjölskyldur í landinu eiga bifreiðar þannig að þar er enn komin rýrnun þeirra ráðstöfunartekna sem fólkið hefur. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra á að hækka. Útvarpsgjaldið mun hækka um rúmar þúsund krónur á hvern einstakling 16 ára og eldri, fyrir utan lögaðila.

Enn seilist ríkisstjórnin í vasa almennings í þessu fjárlagafrumvarpi til að geta síðan útdeilt fjármunum í gæluverkefni á kosningavetri. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu fjárlagafrumvarpi. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra getur haldið áfram að mæra það sem besta frumvarp þessarar ríkisstjórnar, hinnar norrænu velferðarstjórnar, sem hér leggur fram á síðasta ári þessa kjörtímabils fjárlagafrumvarp sem byggir tekjuhlið sína á að hækka gjöld á almenning í landinu og hækka þannig lánin hjá almenningi í landinu. (Gripið fram í.)

Svo segja menn með fyrirlitningu við þá sem hafa áhuga á að ræða þetta fjárlagafrumvarp að við gætum betur setið heima og gert ekki neitt en að flytja hér lítt innihaldsríkar ræður. Þetta eru þó staðreyndir, virðulegur forseti, og er mér slétt sama um hvort ræðan er innihaldsrík eða ekki. Það eru staðreyndir sem hér eru lagðar fram.

Þar að auki ræddi hæstv. velferðarráðherra og að mig minnir forsætisráðherra sjálfur um það að í október kæmi frumvarp frá ríkisstjórninni um tillögur til afnáms stimpilgjalda vegna þess að ríkisstjórnin hefur fengið hverja athugasemdina á fætur annarri vegna þess. Ekkert bólar á því. Ef eitthvað er kemur stimpilgjaldið inn aftur óbreytt.

Virðulegur forseti. Menn hafa barið sér á brjóst og sagt að enginn niðurskurður sé til heilbrigðismála heldur haldi menn sig við núllgrunninn þar. Hvernig ætla menn að bregðast við þeim heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið sem hafa farið út í banka til að taka yfirdráttarlán vegna rekstrarins? Þess sér ekki stað, virðulegur forseti, að þar taki menn á nema það komi á milli 2. og 3. umr. Svo kann að verða.

Það verður fróðlegt að hlusta á þegar hæstv. fjármálaráðherra talar hér fyrir ráðstöfunum í ríkisfjármálum, þeirri tekjuhlið sem býr að baki því frumvarpi sem við nú ræðum, frumvarpi sem kom fram eftir að 2. umr. um frumvarp til fjárlaga hófst hér á fimmtudaginn í síðustu viku.

Maður veltir líka fyrir sér þegar stofnkostnaður er færður yfir á rekstrarhlið hvort það hefði ekki einhvern tímann þótt slæmur gjörningur. Einhvern tímann hefði þótt slæmur gjörningur að fjárlögum væri breytt með því að stofnframlag væri fært inn til rekstrar. Það er þó gert hér í fjarskiptasjóði þar sem 236,6 milljónir af stofnkostnaðarviðfangi eru gerðar að rekstrarviðfangi til að mæta þjónustusamningi við fjarskiptafyrirtækið Farice.

Það er víða, virðulegur forseti, í þessu frumvarpi sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kallar það besta sem hægt væri að hnýta í enn frekar.

Virðulegur forseti. Forgangsröðunin í þessu frumvarpi segir að taka eigi arð af bankastofnunum, Landsvirkjun og fleiri ríkisstofnunum, að selja eigi eignir og að þeir fjármunir verði síðan að hluta til veittir í fjárfestingaráætlunina 2013–2015 og að hluti af þeim umframhagnaði í sjávarútvegi sem menn óska eftir að verði fari sömu leið í stað þess, eins og ég hef sagt áður, og ítreka, að verði til arður í fyrirtækjum og verði eignir seldar eigi að nota þá fjármuni í að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Þegar maður horfir til þess að menn sjá nú að þeir geti tekið allt að 9,6 milljarða út úr Landsbankanum en huga jafnframt að því að selja hann virðist sem um hafi verið að ræða einskiptisaðgerð takist að selja Landsbankann á árinu 2013.

Virðulegur forseti. Það mætti margt gera með öðrum hætti en hér er gert. Það er þannig í pólitík að menn greinir á um leiðir að markmiðum. Þessu fjárlagafrumvarpi og því sem þar stendur er ég ósammála eiginlega frá A til Ö.