141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[02:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég mun halda mig á svipuðum slóðum og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Stóri vandinn og hið alvarlega við þetta frumvarp er það sem aðilar utan þings hafa ítrekað bent á, þ.e. líkurnar á því og eiginlega fullvissa um að verðbólga muni aukast verði frumvarpið að lögum. Það kemur úr tveimur áttum. Það er annars vegar gjaldskrárhækkanir og aðrar slíkar hækkanir, krónutöluhækkanir, sem fara beint inn í verðlagið. Þegar það gerist, virðulegi forseti, og er mikilvægt að hafa það í huga, hækka lán almennings í beinu hlutfalli þar við. Síðan er það líka að þegar álögur og skattar eru hækkaðir á fyrirtækin þurfa þau að bregðast við. Nokkrir möguleikar eru þar í boði. Einn er sá að fækka starfsfólki, draga úr starfseminni með þeim hætti. Síðan það sem fyrirtæki geta eða telja sig geta gert, þ.e. að bregðast við með því að hækka verð á vöru sinni og þjónustu, sem aftur fer út í verðlagið. Það er þetta og akkúrat þetta sem verið er að vara okkur við. Verið er að vara okkur við þeim áhrifum.

Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að það sé einhver ómöguleiki í því að búa til fjárlög þar sem þetta gerist ekki. Það er hægt. En þá þarf auðvitað að nálgast fjárlög og fjárlagavinnuna á allt annan hátt en ríkisstjórnin hefur gert. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, það þarf að liggja að baki einhver efnahagsstefna, einhver hugsun um það hvert menn eru að fara.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra og ráðherra nýsköpunar hefur haldið því fram að þetta sé besta fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar og það megi sæta furðu að stjórnarandstaðan yfir höfuð vilji ræða frumvarpið, svo gott sé það. Þetta er mjög umhugsunarvert hvernig hæstv. ráðherra nálgast málið.

Getur það verið, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hafi ekki tekið eftir orðum til dæmis forseta ASÍ? Getur verið að þau orð hafi fallið af hálfu forseta ASÍ með þeim hætti að hæstv. ráðherra hafi ekki heyrt þau, þau hafi ekki verið sögð nógu hátt, þeim hafi ekki verið veitt næg athygli í fjölmiðlum? Það er ekki mitt að dæma um það, en þó verð ég að segja eins og er að við í stjórnarandstöðunni höfum tekið eftir þessu. Hæstv. ráðherra er engin vorkunn að fylgjast það vel með að hann láti ekki fram hjá sér fara slíkar og þvílíkar yfirlýsingar forustumanna launþega á Íslandi. Og er mér nokkuð brugðið, virðulegi forseti, ef það er svo að vinstri ríkisstjórn í landinu lætur sig engu varða yfirlýsingar forseta Alþýðusambands Íslands. Má það ekki heita furðulegt? Og þegar sami forseti segir að fjárlagafrumvarpið valdi því að búið sé að éta upp svigrúm fyrirtækjanna til að standa undir launahækkunum, þá kemur hæstv. atvinnuvegaráðherra og segir: Þetta er glæsilegt fjárlagafrumvarp. Glæsilegt fyrir hvern? Glæsilegt fyrir hvern?

Virðulegi forseti. Við hljótum að spyrja. Er það glæsilegt fyrir félagsmenn í Alþýðusambandi Íslands sem nú horfa fram til kjarasamninga þegar þeir verða lausir og búið er að koma málum þannig fyrir samkvæmt mati Alþýðusambandsins að ekkert svigrúm sé fyrir launahækkanir? Er það virkilega svo að það sé glæsilegt frumvarp ríkisstjórnarinnar? Sér er þá hver glæsileikinn, virðulegi forseti.

Ég geri mér grein fyrir að þann boðskap geti ég sennilega endurtekið býsna oft án þess að fá nokkur viðbrögð frá stjórnarliðum. Það verður að hafa það. En ég óttast og vil hafa sagt það hér að þegar kemur að því að ná saman kjarasamningum muni margir líta til baka og segja: Við hefðum betur hlustað og gripið til aðgerða þegar við höfðum tíma til þess, þegar við höfðum tækifæri til þess.

Þess vegna skil ég ekki, virðulegi forseti, að ekki skuli fara fram ítarlegri rökræða um þetta. Ég skil ekki hvers vegna stjórnarliðar koma ekki í ræðustólinn til að útskýra hvernig til dæmis forseti Alþýðusambandsins hefur misskilið þetta frumvarp, misskilið það frá grunni og að áhyggjur hans séu óþarfar. Af því að ég neita að trúa því að það sé þannig og ég neita að trúa því, virðulegi forseti, að menn ætli sér þrátt fyrir viðvaranir að halda áfram með málið, þrátt fyrir að bent hafi verið á þennan vanda, af því að hægt er að laga þetta, virðulegi forseti. Það er hægt að setjast yfir frumvarpið og segja: Við verðum að draga úr útgjaldaaukningunni. Við verðum að neita okkur um mörg af þessum nýju verkefnum. Við verðum að endurskoða hina svokölluðu fjárfestingaráætlun svo að við getum dregið úr hækkunum, skattahækkunum og gjaldahækkunum þannig að verðlagsáhrif verði ekki.

Hvers vegna ekki að gera það, virðulegi forseti? Eða hver er efnahagsstefnan og hugsunin bak við frumvarpið? Er hún virkilega þannig að menn láti sér það í léttu rúmi liggja þegar allir þeir sem skoða þetta, Seðlabankinn, ASÍ og Samtök atvinnulífsins segja það sama: Þetta mun auka á verðbólguhættuna. Og er hún næg fyrir. Við sjáum hvernig Seðlabankanum hefur gengið að koma verðbólgunni undir þau mörk sem honum er ætlað að gera.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar alveg sérstaklega við því í úttekt sinni að víxlverkun launa og verðlags sé að verða meira vandamál en áður var. Það er alveg sérstaklega varað við því. Mitt í þeim aðvörunarröddum öllum, í þessum aðvörunarkór, heyrist rödd hæstv. atvinnuvegaráðherra sem segir: Þetta er glæsilegt frumvarp. Ekki er hægt að segja, virðulegi forseti, að sú rödd sé fögur og hrein.

Þess vegna eigum við að nota tímann og það er rangt að halda því fram að stjórnarandstaðan eigi ekki að taka þátt í umræðunni, eigi ekki einu sinni að ræða frumvarpið af því að það sé mat hæstv. atvinnuvegaráðherra að frumvarpið sé svo gott að stjórnarandstaðan eigi ekki að taka til máls, hún eigi bara að halda sig með stjórnarliðunum fjarri þingsalnum.

Ég hef þá trú, og ég vona að ég hafi rétt fyrir mér, að nægjanlega margir ábyrgir menn og konur í ríkisstjórnarliðinu séu tilbúin til að setjast yfir málið, endurskoða það og byggja frumvarpið á einhverri efnahagsstefnu þannig að við séum ekki að ýta undir verðbólgu og grafa undan kjarasamningum í landinu. Það er verkefnið, ekki öfugt. Það eiga ekki að koma fjárlög frá Alþingi Íslendinga sem augljóslega valda (Forseti hringir.) vandræðum á vinnumarkaði. Það er óábyrgt, virðulegi forseti.