141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[03:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Í síðustu ræðu minni benti ég á þætti í fjárlagafrumvarpinu sem vekja mér furðu. Þeir varða þjóðgarð á Þingvöllum og tengjast þeirri nefnd sem ég sit í, fyrir utan allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. Þingvallanefnd. Ég fór yfir tillögu sem ekki hefur verið rædd í Þingvallanefnd, um 59,5 millj. kr.

Ég fór einnig yfir 6. gr. heimildina varðandi St. Jósefsspítala. Ég vek sérstaka athygli á ákveðnum þáttum í frumvarpinu sem tengjast þeirri nefnd sem ég sit alla jafna í, þ.e. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég sé að nú er annar hæstv. forseti mættur í stólinn en ég hef beðið ítrekað um að fá hér annars vegar velferðarráðherra og hins vegar innanríkisráðherra til að svara spurningum í tengslum við fjárlög og vinnu nefndarinnar. Þeim skilaboðum hefur verið komið áleiðis til ráðherra og vil ég gjarnan fá að vita hvaða svör þingið hefur fengið varðandi þá viðleitni okkar. Það er alsiða hér í tengslum við fjárlagaumræðuna að kalla ráðherra til umræðu. Væri hægt að fá svör við því?

(Forseti (ÁÞS): Eftir því sem forseti veit best er ekki von á hæstv. innanríkisráðherra eða hæstv. velferðarráðherra í þessa umræðu.)

Það eru nokkur tíðindi ef það er rétt. Það er kannski bara sú taktík sem þessi ríkisstjórn, sem vonandi verður einsdæmi í þingsögu þjóðarinnar, ætlar að beita í málinu og það tefur málið enn frekar. Þessar upplýsingar undirstrika að menn ætla að lengja umræðuna fram á morgundaginn og ræða frekar málefni fjárlaga á morgun og hugsanlega lengur þar sem ráðherrar ætla ekki að vera viðstaddir og svara spurningum eins og tíðkast hefur til að liðka fyrir umræðunni. Það er ágætt að vita það, en ég hvet hæstv. forseta, eins og ég hvatti þann forseta til sem var áðan í stólnum, til að taka þessi mál upp innan forsætisnefndar. Er þetta hin nýja tíska að fagráðherrar ætli ekki að koma í þingsal og svara spurningum þingmanna um þá stóru málaflokka sem um ræðir? Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða hvort sem er á sviði menntamála, sjávarútvegsmála eða landbúnaðarmála. Það vita náttúrlega allir sem í húsinu eru að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra er í húsi, hann vill bara ekki vera hér inni og svara, það er rétt að draga það fram. Hann er í húsinu en ætlar ekki að svara spurningum okkar, hvað þá að taka þátt í umræðum. Eins og við vitum sem fylgst höfum með málum í þinginu í dag talaði hæstv. ráðherra eingöngu undir liðnum störf þingsins um þessi mál, svo mikil er virðing hans gagnvart þinginu. Það væri ágætt að fá að vita það af hálfu þá hv. forsætisnefndar hvort það eigi að líðast og þetta eigi að vera hin nýja tíska hjá þessari ríkisstjórn og því framkvæmdarvaldi sem nú ræður. Gott og vel.

Ég bendi sérstaklega á þau málefni sem skipta okkur gríðarlega miklu máli og margoft hefur verið komið inn á í þingsal. Þau tengjast málefnum sem heyra undir innanríkisráðherra. Ég vek sérstaklega athygli á því að á þessu ári og á því síðasta skiluðu tveir starfshópar niðurstöðu til hæstv. innanríkisráðherra varðandi millidómstigið. Ég undirstrika það líka að það er stefna okkar sjálfstæðismanna og hefur verið samþykkt á landsfundum flokksins míns að koma á millidómstigi í réttarkerfinu því að í því felast gríðarlegar réttarbætur fyrir almenning bæði á sviði einkamála og á sviði sakamála. Undir það hafa tekið sérfræðingar í hinum ýmsu starfshópum og má segja að innanríkisráðherra hafi líka verið jákvæður í garð millidómstigsins.

En hvernig birtist forgangsröðunin okkur þingmönnum síðan í fjárlögunum og í stefnumálum ríkisstjórnarinnar? Það á ekki að setja á laggirnar millidómstig, síður en svo. Þess vegna hefði ég viljað koma eftirfarandi spurningu á framfæri við hæstv. innanríkisráðherra: Munum við sjá svipaðar tillögur og varðandi ýmis mál sem ríkisstjórnin leggur fram? Ætlar ríkisstjórnin að halda að sér spilunum fram að 3. umr.? Ætlar hæstv. innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að forgangsraða, eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins bendir oft á, innan málaflokksins og forgangsraða þá í þágu millidómstigs?

Ég vek sérstaklega athygli á því af því að hæstv. innanríkisráðherra hefur sérstaklega talað um hugðarefni sitt og forgangsmál, sem er þá um leið forgangsmál ríkisstjórnarinnar, þ.e. að koma happdrættisstofu á laggirnar. Við vitum að nú hefur verið lagt fyrir þingið frumvarp um veðmálastarfsemi á Íslandi sem innanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir, en hlutverk þess og happdrættisstofu er að stemma stigu við fjárhættuspilum á netinu. Þar birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki. Hugsanlega felst einhver tilgangur með happdrættisstofu, en ég sé hann ekki. En ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. ráðherra um hvers vegna menn ætli frekar að skattleggja Íslenska getspá og Íslenskar getraunir, sem eru í eigu frjálsra félagasamtaka eins og Öryrkjabandalags Íslands, ÍSÍ og UMFÍ.

Það er dæmi um vitlausa forgangsröðun. Ég hefði viljað að skýrari afstaða hefði verið tekin varðandi millidómstigið enda hef ég hug á því að leggja fram þingsályktunartillögu varðandi millidómstigið til að undirstrika að það verður að hreyfa við því máli í þágu almennings, í þágu þess að efla réttarríkið sem vinstri stjórnin hefur reynt að höggva skarð í, ekki bara einu sinni heldur margoft. Við verðum að reyna að verja það og liður í því er að koma á millidómstigi í samfélaginu.

Ég vil einnig vekja athygli á framlögum til ríkissaksóknara. Það er þýðingarmikið að meiri hlutinn hefur lagt fram tillögu varðandi aukningu til ríkissaksóknara af því að álagið hjá ríkissaksóknara hefur verið sérstaklega mikið. Það hefur margoft komið fram, ekki einu sinni eða tvisvar heldur oft á fundum nefndarinnar, að álagið hjá ríkissaksóknara kemur niður á rannsóknum í kynferðisafbrotum í samfélaginu. Ég held því að rétt sé að taka það skref að auka framlög til ríkissaksóknara. Ég hefði þó viljað eiga orðastað við hæstv. ráðherra um hvort framlagið sé nægilegt því að meiri hluti fjárlaganefndar veit nú lítið um málið eins og virðist vera um ýmis önnur verkefni, ekki nema hún taki beint við skipunum frá ríkisstjórninni og fjalli ekkert efnislega um tillögurnar. En ég hefði viljað eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra um hvort hann sjái fram á að tillaga um aukin framlög til ríkissaksóknara muni þá bæta og efla rannsóknir á kynferðisbrotum sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur farið mjög gaumgæfilega yfir. Það hefði skipt miklu máli fyrir umræðuna þannig að maður áttaði sig á því hvort aukin framlegð á hinum ýmsu sviðum hefur raunverulega eitthvað að segja og nái því markmiði sem að er stefnt, eða er ef til vill ætlunin að setja féð í einhver önnur verkefni? Þess vegna hefði verið fróðlegt að fá innanríkisráðherra í þingsal, sem ég verð að segja að er alla jafna mjög liðlegur í allri umræðu. Hann hefur verið liðlegur í umræðum um ýmis málefni, líka þegar hann var í stjórnarandstöðu. Það er rétt að draga það fram að þegar hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu taldi hann mikilvægt að ekki ætti sér stað þöggun á þinginu, að menn yrðu að láta í sér heyra hvort sem þeir væru í stjórn eða stjórnarandstöðu, enda virti hæstv. ráðherra þennan ræðustól mjög mikils og eyddi miklum og drjúgum tíma hér, örugglega ekki að ástæðulausu eins og við gerum nú.

En þetta var það sem ég vildi ræða; millidómstigið og ríkissaksóknarinn. Ég sé að ég er búin með tímann minn að þessu sinni (Forseti hringir.) og óska eftir að ég verði sett aftur á mælendaskrá. Ég á eftir að koma að málefnum lögreglunnar (Forseti hringir.) og ýmsum öðrum þáttum er falla undir innanríkisráðuneytið. Ég er rétt að byrja á því efni.