141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[03:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkrir þættir sem ég vil ítreka á þessum stað í umræðunni. Fyrst vildi ég nefna það sem ég hef reyndar vikið að áður en ekki fengið svör við. Það varðar þá ákvörðun eða fyrirheit sem lesa mátti út úr greinargerð með fjárlagafrumvarpinu í haust um að við 2. umr. fjárlaga mundu birtast tölur miðaðar við hin nýju ráðuneyti sem nú hafa tekið til starfa eftir þær breytingar á Stjórnarráði Íslands sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir.

Það er rökstutt í fjárlagafrumvarpinu að með því að setja málin svona fram náist betri yfirsýn yfir ráðstöfun fjármuna ríkisins. Hins vegar var haldið við hina eldri ráðuneytaskipan í frumvarpinu sjálfu eins og það var lagt fram í september þar sem breytingin hafði ekki gengið í gegn á undirbúningstímanum. Það var boðað að við 2. umr. kæmi það fram í nýju formi og ég sakna þess nokkuð að sjá það ekki. Ég held að mikið gagn væri að því ef unnt væri að leiða þannig fram tölur málsins. Þá mundum við kannski líka eiga nokkuð auðveldara með að átta okkur á því hver kostnaðurinn við ráðuneytið verður eða gæti orðið á næsta ári miðað við hina nýju ráðuneytaskiptingu. Það er öllu erfiðara að átta sig á því miðað við skipan hinna eldri ráðuneyta eða fyrirkomulagið að halda sig við hin eldri ráðuneyti þegar nýtt form er ekki komið fram. Eins og ég benti á einhvern tíma fyrr í umræðunni vekur það athygli að enn á ný eru til peningar til að setja í aðalskrifstofu ráðuneytanna þegar erfitt er að finna peninga til að fjármagna hinar ýmsu undirstofnanir.

Mér sýnist í fljótu bragði, án þess að ég hafi gert úttekt á því, að í langflestum tilvikum sé um að ræða útgjaldaaukningu vegna aðalskrifstofu ráðuneyta með kannski þeirri undantekningu að velferðarráðuneytið sé að spara eitthvað. Það er atriði sem hefur vakið athygli mína á undanförnum árum vegna þess að hin almenna sparnaðarkrafa sem sagt er að lögð hafi verið á stjórnsýslustofnanir hefur ekki komið mikið niður á aðalskrifstofum ráðuneyta. Hennar hefur þó vissulega gætt víða í stofnunum á vegum þessara ráðuneyta en því hefur verið nokkuð misskipt. Það hefur verið svigrúm til að bæta í víða á ráðuneytisvettvangi þótt fjármuni hafi skort til að halda úti ýmissi starfsemi sem kannski stendur fólkinu nær.

Það er á því stigi þegar við erum að ræða fjárlagafrumvarpið við 2. umr. sem auðvitað er hægt að staldra við marga af hinum einstöku liðum og ræða þá nánar. Ég sakna þess kannski að við höfum ekki fengið nánari útskýringar á því eða upplýsingar um hvernig meiri hluti fjárlaganefndar, og þá hæstv. ríkisstjórn, hefur í huga að takast á við ýmsa liði sem frestað hefur verið milli 2. og 3. umr. frumvarpsins. Það segi ég ekki vegna þess að ég ætlist til að hv. meiri hluti fjárlaganefndar sé tilbúinn með breytingartillögur fyrr en málið hefur fengið meðferð milli 2. og 3. umr. Hins vegar er um að ræða það stóra og mikilvæga liði í samhengi ríkisfjármálanna að það hefði að mínu mati verið ávinningur að því við þessa umræðu að fá aðeins gleggri mynd af því hvaða hugmyndir eru uppi um þá þætti sem meðal annars hafa verið nefndir í umræðunni eða komið fram í fjölmiðlum. Við höfum auðvitað nefnt Íbúðalánasjóð, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, áform um byggingu nýs Landspítala o.fl. Ef við förum í smærri upphæðirnar eru ýmis mál þar óleyst. Ég hef áður vikið að löggæslumálum og átt í samtölum um það við hv. fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í fjárlaganefnd. Mér virðist hins vegar í fljótu bragði að þeir liðir sem eftir á að taka tillit til í fjárlagafrumvarpinu séu allir á útgjaldahliðina, ef svo má segja, eða til þess fallnir að gera stöðu ríkissjóðs og afkomu lakari heldur en birtist í frumvarpinu á þessu stigi. Ég velti fyrir mér hvort meiri hlutinn í fjárlaganefnd eða hæstv. ríkisstjórn hafa einhverjar vangaveltur eða hugmyndir um hvernig eigi að bregðast við. Ef útgjaldahliðin vex varðandi einstaka liði sem ég hef nefnt í því sambandi, verður þá brugðist við með einhverri frekari tekjuöflun eða með því að spara á einhverjum tilteknum sviðum? Ég lýsi mig alveg reiðubúinn til að koma að einhverjum hugmyndum í því sambandi. Verður niðurstöðutalan einfaldlega látin vera óhagstæðara verðlag? Verður kannski farin sú leið sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson minntist á áðan, að geyma að færa svona dýra og erfiða liði inn þangað til ríkisreikningurinn er frágenginn eftir tvö ár? Verður sú leið kannski farin? Ég veit það ekki.

Það væri gagn að því að fá nánari upplýsingar um það í umræðunni. Þar sem ég sé að hingað í salinn eru komnir ýmsir ágætir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna og þeir hlýða á mál mitt væri gott ef þeir gætu auðveldað okkur að átta okkur á stöðunni með því að upplýsa um áform sín í þeim efnum. Ég trúi ekki öðru en að einhverjar hugmyndir séu farnar að mótast í þeirra röðum hvað það varðar. Þarna er um það stór mál og mikla hagsmuni að ræða að einhver lína hlýtur að hafa verið mörkuð varðandi hvernig á því er tekið.

Ég ætla áður en ég lýk máli mínu í þessari ræðu að ítreka nokkrar aðrar spurningar sem ég tel rétt að beina til formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sem hér er staddur. Það hefði hugsanlega einnig mátt beina þeim til einstakra ráðherra en ég mun þá geyma mér það þar til síðar í umræðunni. Ef hv. formaður fjárlaganefndar getur svarað væri ágætt að fá aðeins gleggri mynd af nokkrum liðum sem vissulega eru ekki stærstu liðirnir í fjárlagafrumvarpinu en þó umtalsverðir.

Í fyrsta lagi ætla ég að nefna, án þess að fara um það mörgum orðum, að ég og fleiri hv. þingmenn höfum átt í vandræðum með að átta okkur á því nákvæmlega hvernig standi á því að jafnmikil bólga hefur hlaupið í svokallaða IPA-styrki milli 1. og 2. umr. fjárlaga. Það virðist vera að áætlaðir IPA-styrkir hafi meira en tvöfaldast milli 1. og 2. umr. Fyrir því kunna að vera ágæt og góð rök en það kemur hins vegar á óvart að ekki skuli hafa komið fram hver þau eru, af hverju styrkirnir og ráðstöfun þeirra var ekki klár þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram en hins vegar er hægt að gera tillögur um það í 2. umr.

Því til viðbótar vildi ég nefna ákveðna liði varðandi fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar þar sem greinargerð meiri hlutans með breytingartillögum sínum gefur harla óljósa mynd af því í hvað eigi að verja verulegum fjármunum sem eru tengdir fjárfestingaráætluninni. Sérstaklega þeir sem eru kenndir við hið svokallaða græna hagkerfi, 280 millj. á einum stað í græna hagkerfið, ýmis verkefni, 150 millj. í græn skref, vistvæn innkaup o.fl. Þarna (Forseti hringir.) óska ég eftir að frekari skýringar komi fram við umræðuna því að auðvitað (Forseti hringir.) hlýtur einhver hugsun að búa að baki þegar jafnháar fjárhæðir eru markaðar … (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég óska eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.