141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[04:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hefjum við þá aftur umræðuna. Ég var að vonast til þess að hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, yrði hér, ég sá hann hér áðan, af því að ég ætlaði að sjá hvort hann hefði getað aðstoðað mig við að átta mig á ákveðnu samhengi í ritinu Stefna og horfur, sem er fylgirit með frumvarpi til fjárlaga. Ég hef reynt að fiska svör frá hæstv. fjármálaráðherra en orðið lítt ágengt og hefði svo gjarnan viljað ræða við hv. formann nefndarinnar um þessi mál, en ætla kannski að geyma það í þeirri von að hann eigi leið hjá þingsalnum, skjótist jafnvel inn. Mér þætti gott að fá að minnsta kosti skýringar á ákveðnu efnahagslegu samhengi sem birtist í ritinu og snýr að vaxtajöfnuði ríkissjóðs. Geymi það til aðeins betri tíma.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér að halda áfram þeirri umræðu sem var áðan og ég hef gert að meginefni í gagnrýni minni á fjárlagafrumvarpið. Mig langaði til að reyna að ramma það inn og reifa helstu drætti í þeim breytingum sem þarf að gera á frumvarpinu.

Í fyrsta lagi er það forgangsröðun. Nú hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar farið yfir það bæði í löngu og stuttu máli hvernig forgangsröðunin í frumvarpinu er ekki bara röng, hún er oft á tíðum óskiljanleg. Fjölmörg dæmi hafa verið nefnd, virðulegi forseti, þar sem annars vegar er um að ræða grunnþjónustu víðs vegar um land þar sem greinilega sárvantar framlög. Það má nefna aðstæður þar sem íbúarnir búa við skerta heilbrigðisþjónustu eins og til dæmis hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur farið vel yfir úr sinni heimabyggð. Hins vegar eru það ýmis gæluverkefni, ég ætla að leyfa mér að nota það orðalag, virðulegi forseti, sem ríkisstjórnin hefur sett í einhvers konar forgang. Þegar þetta er skoðað, farið yfir það og lesið saman blasir við að það er ýmist engin forgangsröðun eða hún er óskiljanleg.

Þessi ríkisstjórn hefur að minnsta kosti á tyllidögum viljað kalla sig velferðarstjórn og velferðaráherslan ætti að koma skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu, en það vantar töluvert upp á það. Það vantar líka upp á almenna skynsemi. Það er til dæmis engin skynsemi í því að skerða svo mjög heilbrigðisþjónustu úti á landi eins og raun ber vitni og hér hefur verið rætt á sama tíma og ráðist er í ýmiss konar ný verkefni. Það er engin skynsemi í því að ráðstafa hinum sameiginlegu sjóðum okkar þannig. Slík forgangsröðun er til þess fallin að skapa úlfúð í samfélaginu. Það er erfiðara fyrir fólk að sætta sig við sínar aðstæður ef á sama tíma kemur í ljós að fjármunir virðast vera til ýmissa verkefna sem ríkisstjórninni hugnast. Það held ég að sé fyrsti þáttur málsins sem þarf að fara yfir. Það þarf að endurskoða forgangsröðunina.

Virðulegi forseti. Númer tvö er að fara yfir — og þetta hef ég gert áður að umtalsefni — allar verðlagshækkanir í frumvarpinu, allt það sem veldur hækkun á verðbólgu. Fara yfir það, „ítemísera“ og horfa um leið á útgjaldahliðina og draga úr útgjöldunum þannig að við þurfum ekki að grípa til hækkana. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, vegna þess að það er ekki bara verðlagið sem hækkar heldur munu lánin hækka. Útgjöld heimilanna hækka auðvitað vegna verðlagsbreytinganna en lánin hækka líka. Og það sem ítrekað og aftur og aftur hefur verið bent á í framhaldinu: Svigrúm fyrirtækjanna til að mæta kauphækkunum hefur verið tekið í burtu. Þetta er ekki bara mat þess sem hér stendur. Ég veit að stjórnarliðar taka ekkert mark á okkur stjórnarandstæðingum, það er svo augljóst, en þetta er mat Alþýðusambands Íslands og mat Samtaka atvinnulífsins. Ég hefði haldið að ríkisstjórnin teldi það að minnsta kosti einnar messu virði að hlusta eftir því sem þar er sagt. Þetta er annar þáttur málsins sem þarf að fara yfir, verðlagsbreytingar, verðbólguáhrifin, áhrifin á kjarasamningana.

Í þriðja lagi þarf að fara vel og vandlega yfir það hvort við séum með fjárlagafrumvarpinu að stíga rétt skref í átt að afnámi hafta. Það sem ég hef auðvitað áhyggjur af, virðulegi forseti, er að það liggur í loftinu að á milli 2. og 3. umr. komi inn útgjaldaliðir sem annaðhvort auka á hallann eða kalla á enn frekari skatta- og gjaldahækkanir með þeim afleiðingum sem þekktar eru. Þetta er verkefnið og það er þríþætt.

Virðulegi forseti. Þessi mynd hefur verið að dragast upp í umræðunni hér um fjárlögin. Verkefni okkar þingmanna sem ekki sitjum í fjárlaganefnd, skylda okkar þegar fjárlaganefnd hefur skilað sínu verki, sinni nefndarvinnu til þingsins, er að ræða þetta, fara í gegnum forsendurnar og reyna að glöggva okkur á allri myndinni. Þá getum við síðan sent skilaboð til nefndarinnar um hvaða atriði það eru sem við teljum að nefndin þurfi að setjast yfir næst þegar hún fær málið til sín, áður en gengið verður til 3. umr. Þetta er verkefni okkar þingmanna.

Ég mótmæli því enn og aftur að við hv. alþingismenn eigum ekki að fara í gegnum þessa umræðu, að við eigum ekki að gefa okkur þennan tíma, að við eigum ekki að leggja á okkur vinnuna að fara í gegnum þetta. Að við eigum að láta frumvarpið meira og minna órætt, að einu hv. alþingismennirnir sem eigi að ræða það séu nefndarmenn í fjárlaganefnd og við öll hin eigum bara að sitja heima.

Sú mynd sem hefur verið að dragast upp er sú að þetta frumvarp er gallað, forgangsröðunin er röng, verðlagsáhrifin eru augljós, áhyggjur aðila vinnumarkaðarins eru augljósar og skýrar. Við þessu þurfum við að bregðast og það er tími til þess og reyndar alveg nægur tími, það er langur vegur frá að við séum í tímapressu með frumvarpið. Ég minni á hvenær 2. umr. um fjárlög hefur lokið á undanförnum árum. Við höfum nægan tíma og það er mikilvægt að fjárlaganefnd taki vel eftir því sem hér hefur verið sagt. Það er auðvitað verra sem hér hefur komið fram, m.a. annars í ræðum frá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, að vita til þess að hæstv. ráðherrar ætli sér ekki, og það skuli vera einhvers konar meðvituð ákvörðun, að taka þátt í (Forseti hringir.) í þessari umræðu. Það er auðvitað áhyggjuefni, virðulegi forseti.