141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[04:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur út af fyrir sig verið fróðlegt að verða vitni að þeirri umræðu sem hefur staðið núna inn í nóttina og við sem höfum tekið þátt í henni höfum gert nokkrar tilraunir til að kalla eftir viðhorfum einstakra ráðherra til þeirra umfjöllunarefna sem við höfum haft uppi um tiltekna málaflokka. Við höfum líka kallað eftir því að hv. þingmenn stjórnarliðsins segðu hug sinn til þessara mála sem við höfum verið að fjalla um. Þá hefur verið bent á að málið sé ekki lengur í höndum framkvæmdarvaldsins, núna sé það komið inn til þingsins og þess vegna sé algjörlega óeðlilegt að kalla eftir viðhorfum hæstv. ráðherra til þeirra mála sem við höfum verið að bera hér upp og kalla eftir svörum við spurningum sem við höfum lagt fyrir í umræðunni og vakið upp með umfjöllun okkar um einstök mál.

Það má kannski strangt til tekið segja sem svo að rétt sé að málið sé á forræði þingsins eftir að því hefur verið vísað til fjárlaganefndar og síðan til 2. umr. Engu að síður er það þannig — og við skulum vera hreinskiptin í þeim efnum — að þær breytingartillögur sem bornar eru fram af meiri hluta fjárlaganefndar eru í langflestum tilvikum þannig til komnar að þær eiga uppruna sinn við ríkisstjórnarborðið.

Ákvarðanir voru teknar um þær tillögur sem leggja ætti fram og meiri hluti hv. fjárlaganefndar var bara í hlutverki handlangarans, að koma málunum í þinglegum búningi úr fjárlaganefnd og til 2. umr. Fjárlaganefndin og meiri hluti hennar var þess vegna í meginatriðum í hlutverki stimpilpúðans því að tillögurnar áttu rætur sínar að rekja til ríkisstjórnarinnar sem hafði farið yfir málin eftir að umsagnir höfðu borist frá fjöldamörgum aðilum. Eftir að ríkisstjórninni hafði verið gert kunnugt um athugasemdir sem höfðu borist frá til dæmis stofnunum, frá sveitarfélögum, frá fjöldamörgum aðilum sem höfðu sett fram efnislegar athugasemdir við fjárlagafrumvarpið eins og það lá fyrir þegar því var dreift á fyrsta degi þingsins.

Það er auðvitað dálítill útúrsnúningur þegar hv. þingmenn reyna að verja sig með þeim hætti að ríkisstjórnin sé nánast orðin stikkfrí í málinu. Sé eins konar hlutlaus áhorfandi sem fylgist bara með því þegar fjárlaganefndin vinnur sína vinnu, skilar henni og afrakstri hennar hér inn í þingið til 2. umr. og þar með fari hin efnislega umræða fram nokkurn veginn án þess að hæstv. ráðherrar skipti sér af henni, hvað þá taki þátt í henni.

Það vekur auðvitað mikla athygli að hæstv. ráðherrar skuli kjósa að vera svo fjarverandi þessa umræðu. Ég minnist þess að árum saman þegar við vorum að ræða fjárlögin, líka við 2. umr., þá var gerð sú eðlilega krafa til hæstv. ráðherra að þeir ræddu þessi mál. Einfaldlega vegna þess í fyrsta lagi að þeir eru auðvitað þingmenn og bera þess vegna þá skyldu að taka þátt í umræðum og vera að minnsta kosti viðstaddir og sitja þingfundi eins og kveðið er á um í þingskapalögunum og í öðru lagi því það er hlutverk ráðherranna að fylgja niðurstöðu Alþingis eftir. Einnig þeim fjárhagslega ramma sem settur er utan um einstök viðfangsefni og einstök verkefni sem ráðuneytunum er svo ætlað að framfylgja.

Þannig að það er ekki svo, eins og menn eru að reyna að halda hér fram, að ráðherrarnir geti staðið hjá eins og áhorfendur í áhorfendastúku og ekki einu sinni tekið þátt í því að klappa upp sína menn, sem taka ómakið af ráðherrunum og fjalla um málið. Ráðherrarnir hafa auðvitað skyldu og ráðherrunum ber að taka þátt í þessari umræðu ef þeir hafa þá döngun til þess, en nú virðist vera svo komið fyrir hæstv. ríkisstjórn að hún er ekki bara búin að glata allri virðingu út á við, það er líka orðið þannig að hæstv. ríkisstjórn er búin að tapa sinni eigin sjálfsvirðingu. Þá er náttúrlega mjög fátt eftir, þegar sjálfsvirðingin er horfin, þegar viljinn og áhuginn er horfinn fyrir því að reyna að tala fyrir því máli sem hæstv. ríkisstjórn hefur borið fram.

Er það kannski þannig orðið að hæstv. ríkisstjórn er búin að koma sér í þá stöðu að hún treystir sér ekki til að taka þessa efnislegu umræðu? Er það þannig orðið að hæstv. ríkisstjórn hefur enga sannfæringu lengur í einu einasta máli sem verið er að bera hér inn í þingið? Leggur hæstv. ríkisstjórn ekki í að taka þessa umræðu? Það er margoft búið að benda á mjög margar alvarlegar veilur í þessu fjárlagafrumvarpi og það er margoft búið að kalla eftir því hvort ríkisstjórnin hafi sagt sitt síðasta í þessum efnum.

Það er eins og í sjónvarpsþættinum Útsvari að stjórnendur þáttarins spyrja gjarnan: Er þetta lokasvar? Nú spyr ég: Er þetta lokasvar? Hefur ríkisstjórnin sagt sitt síðasta til að mynda varðandi stofnanir á borð við háskólana? Ég hef gert þá að nokkru umtalsefni. Er það þannig að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt árar sínar í bát og treysti sér ekki lengur til að koma hér inn í þingsalinn og ræða þessi mál? Mál sem við höfum svo sannarlega verið að gagnrýna og benda á veilur í málflutningi og benda á veilurnar í þeim tillögum sem þegar liggja fyrir í formi álits meiri hluta hv. fjárlaganefndar og þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur fram. Þessar breytingartillögur, eins og ég nefndi áðan, eru í raun og veru ekki breytingartillögur meiri hlutans nema að forminu til. Þetta eru breytingartillögur þær sem ríkisstjórnin kom sér saman um, sem ráðherrarnir gátu komið sér saman um við ríkisstjórnarborðið að hægt væri að leggja hérna fram.

Þetta er auðvitað allt saman tilraun til mikillar blekkingar. Menn eru að reyna í þykjustunni að skila einhverju fjárlagafrumvarpi með tiltekinni niðurstöðu þegar allir sem skoða þessi mál vita að þessi niðurstaða mun ekki geta gengið. Eða dettur einhverjum heilvita manni í hug að það eigi til dæmis að afgreiða Háskólann á Hólum með þeim hætti að hann hafi rekstrarfé til þess að reka skólann til septemberloka á næsta ári? Er þá gert ráð fyrir því þannig, er það vilji hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að það eigi að loka öllum dyrum við Háskólann á Hólum í septemberlok? Svona rétt eftir göngur og réttir. Þá eigi að loka dyrunum í þessum gamla landbúnaðarháskóla, Háskólanum á Hólum, sem gegnir svo miklu hlutverki.

Þögn hæstv. ráðherra og þögn hv. þingmanna stjórnarliðsins er auðvitað orðin himinhrópandi og hún talar sínu máli og vitaskuld er það rétt að þetta er ekki mál ráðherranna einna. Fjárlagafrumvarpið er borið fram með tilstyrk meiri hluta Alþingis, þann meiri hluta skipa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar og það eru ekki síður þeir sem bera þessa ábyrgð. Þingmenn til að mynda Norðvesturkjördæmis eru aðilar að því samsæri sem núna er verið að drýgja gagnvart Háskólanum á Hólum og öðrum háskólum eins og á Bifröst og Hvanneyri. Það á greinilega að ljúka því máli — ef marka má tillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem bornar eru fram að frumkvæði ríkisstjórnarinnar og með tilstyrk meirihlutaflokkanna. Það er greinilegt að ríkisstjórnin hefur ákveðið með þessum tillögum sínum að ganga fram eins og ég var að segja frá.

Ég rakti það í ræðu fyrr í dag hvernig til dæmis Háskólinn á Bifröst er staddur ef sú niðurstaða verður sem allt stefnir í. Þá er það þannig að Háskólinn á Bifröst mun þurfa að bera mikinn niðurskurð sem mun ekki bara hafa áhrif á starfsemi skólans heldur líka á starfsemi nærumhverfisins í Borgarbyggð í Borgarfirði. Skólinn hefur verið að útskrifa mun fleiri nemendur en hann hefur fengið greitt fyrir. Þetta nemur um 200 millj. kr. að núvirði, eftir að tekið hefur verið tillit til nemendafækkunar síðustu tveggja ára. Háskólinn á Bifröst hefur ekki fengið neina umbun fyrir þann niðurskurð sem hann hefur tekið á sig og það er greinilegt að þarna er í raun og veru verið að hafna málatilbúnaði Háskólans á Bifröst. Það er verið að segja, með öðrum orðum, að viðvörunarorðin sem hafa komið frá stjórnendum þess skóla þau séu marklaus, þau séu ómagaorð, það eigi ekki að taka mark á þeim.

Sama er verið að segja gagnvart Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Sá skóli hefur tekið á sig 130 millj. kr. niðurskurð, það komu inn fjárveitingar 2007 upp á 70 millj. kr. samkvæmt minnisblaði sem ég hef hér frá stjórnendum skólans og var kynnt á fundi með þingmönnum (Forseti hringir.) Norðvesturkjördæmis 16. október. Þetta er þá sá veruleiki sem þessum skóla verður (Forseti hringir.) búinn og hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðar bera ábyrgð á því sameiginlega (Forseti hringir.) og það er undarlegt að þeir skuli ekki hafa í sér (Forseti hringir.) döngun eða vilja eða getu eða þor (Forseti hringir.) til að taka þátt í þessari umræðu.