141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[04:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki alveg gagnslaust hjá okkur stjórnarandstæðingunum að ræða þessi mál. Ég ber þá von í brjósti að virðulegur forseti sem hefur setið hér og hlýtt á umræðuna beri skilaboð inn í þingflokk sinn næst þegar þingflokksfundur verður haldinn.

(Forseti (ÁÞS): Forseti mun taka það til vinsamlegrar athugunar.)

Það þykir mér vænt um. Ef ég má þá í framhaldi, með leyfi forseta, vekja athygli á nokkrum atriðum sem ég tel að vera ættu til umhugsunar fyrir þingflokk Vinstri grænna. Ég er viss um að virðulegur forseti getur sett málið í þann búning að það megi til árangurs horfa að benda á eins og hér var gert og gert hefur verið að forgangsröðunin í frumvarpinu er ekki rétt. Ekki er verið að forgangsraða þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum til skiptanna. Það eru verkefni sem við þurfum svo augljóslega að setja meiri fjármuni í, það eru önnur verkefni sem svo augljóslega mega bíða.

Við þurfum einkum og sér í lagi að endurskoða á sviði heilbrigðismálanna og heilsugæslunnar en einnig á sviði menntamála. Síðan eru fjölmörg verkefni sem hér hafa verið rakin sem má svo auðveldlega bíða með og ráðast í síðar. Mörg þeirra eru reyndar ágætisverkefni en það er skynsamlegra að forgangsraða. Ég er afskaplega ánægður að heyra að virðulegur forseti er tilbúinn að fara með þau skilaboð inn í þingflokk sinn. Ég held reyndar að mikilvægt sé að vekja athygli hv. þingmanna Vinstri grænna á ummælum og athugasemdum forseta Alþýðusambandsins sem ég hef alloft gert að umræðuefni, því miður fyrir tómum sal vegna þess að ég hef í raun og sann verulegar áhyggjur af því að ef frumvarpið verður að lögum. Ef áhrifin eru þau sem forustumenn Alþýðusambandsins og Samtök atvinnulífsins hafa lýst lendum við út af eina ferðina enn í þessu öllu saman. Þá rætist það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur spáð og bent á, þá fer af stað víxlverkan launa og verðlags, þ.e. við reynum að bæta okkur upp verðbólguþróunina með launahækkunum sem ýta undir verðbólgu sem kalla aftur á launahækkanir. Þannig keyrum við beint út af. Það má ekki gerast. Því er enn hægt að afstýra, það er hægt að breyta því. Það er ekki þannig að fjárlagafrumvarpið sé svo greypt í stein að ekki megi hreyfa neitt við því. Það er vel hægt og við höfum nægan tíma á næstu dögum og vikum til að endurskipuleggja það þannig að við komumst hjá því að lenda í slíkum vanda. Því bið ég yður, virðulegi forseti, lengstra orða að færa þessi skilaboð inn í þingflokk Vinstri grænna úr því að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa ekki séð sér fært að vera með okkur í umræðunni.

Það sem er kannski verst er að við Íslendingar höfðum mjög gott tækifæri til að vinna okkur út úr vandanum sem við vorum komin í, með allt öðrum hætti en raun varð á. Þannig er með flestar Evrópuþjóðirnar. Þær eru of skuldsettar, ríkissjóðir þeirra eru of skuldsettir. Á sama tíma er aldurssamsetning þessara þjóða þannig að sífellt verður erfiðara að standa við lífeyrisskuldbindingar o.s.frv. Við þekkjum umræðuna um stöðu margra Evrópuríkjanna og einkum og sér í lagi evruríkjanna við Miðjarðarhafið. Ríkissjóðir þessara landa eru neyddir til að skera niður. Ekki verður undan því vikist vegna þess að vaxtabyrðin er of þung. Menn hafa haft af því áhyggjur að sá niðurskurður mundi valda auknum og harkalegri samdrætti á meðan það gengi yfir. Fyrir því hafa verið færð ágæt rök.

Þegar fjármálaóveðrið skall á okkur var staðan sú á Íslandi að ríkissjóður var allt að því skuldlaus og við vorum með öflugt lífeyrissjóðakerfi. Við vorum jú ein af fyrstu þjóðunum sem lentu í þessu. En í framhaldinu, eftir að höggið féll á okkur og samdráttur varð í tekjum og skuldirnar uxu áttum við þó ákveðinn leik. Það var leikur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn benti strax á, það var leikur sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ bentu strax á. Hver var hann? Það var hagvaxtarleikurinn. Það var sá leikur sem íslenska þjóðin átti og gat leikið, þ.e. að vinna sig út úr vandanum með því að hagvöxtur yrði hér mjög myndarlegur. Hvers vegna var það mögulegt? Vegna þess að við búum svo vel að aldurssamsetning þjóðarinnar er afar heppileg og auk þess höfum við miklar náttúrulegar auðlindir sem við getum nýtt, alveg sérstaklega hvað orkuna varðar þar sem við getum bætt í nýtinguna. Á sama tíma er sú staða uppi að við erum með gjaldmiðil sem endurspeglar ástand gjaldeyrismála og gefur þar með útflutningsgreinunum meiri möguleika. Það þýðir að hægt hefði verið að koma allt öðruvísi að uppbyggingu efnahagsmála hér. Ef gripið hefði verið til réttra aðgerða, og þær aðgerðir lágu á borðinu, hefði verið hægt að ná þeim hagvexti sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn benti sannarlega á að ætti að vera mögulegt að ná og þá hefði verið hægt að ná þeim hagvexti sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ sögðu að nauðsynlegt og mögulegt væri með undirritun kjarasamninga. Þar með hefðu tekjur ríkissjóðs vaxið verulega. Er á það slegið að hefðu spár um hagvöxt sem gerðar voru í upphafi gengið eftir miðað við það sem stefnir í hefði íslenska hagkerfið verið 100 milljörðum stærra við árslok 2013.

Ef það hefði orðið raunin hefði ríkissjóður fengið tugi milljarða í tekjur umfram það sem annars er og það án skattahækkana. Það eru tekjur sem komið hefðu til vegna þess að hagkerfið hefði verið stærra og þannig hefðum við getað unnið okkur út úr þessu. Þannig hefðum við getað komið í veg fyrir að skuldirnar hefðu hrannast upp eins og raun ber vitni. Skuldirnar máttu ekki aukast svona mikið. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þar með verður miklu erfiðara að afnema gjaldeyrishöftin af því að þegar skuldirnar eru orðnar þetta miklar liggur fyrir að vaxtakostnaðurinn mun aukast þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt.

Með öðrum orðum: Efnahagsstefnan er röng. Áherslurnar eru rangar. Þess vegna er fjárlagafrumvarpið líka rangt. Þess vegna náum við ekki þeim markmiðum sem við þurfum að ná og urðum að ná, og það sem meira er, sem við gátum náð. Þá stöndum við eftir með fjárlagafrumvarp sem er verðbólguhvetjandi, sem hækkar lán heimilanna, sem dregur úr möguleikum okkar til að auka atvinnu í landinu, sem stefnir kjarasamningum í voða. Það er fjárlagafrumvarp sem hæstv. atvinnumálaráðherra segir að sé glæsilegt. Ég býð ekki í það ef hæstv. ráðherra þætti frumvarpið frekar slæmt. Ég veit ekki hver staða okkar væri þá. En ég ítreka að við höfum tíma til að breyta og ég treysti á að virðulegur forseti beri skilaboð inn í þingflokk sinn um það.