141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[05:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Ég verð að játa að mér þykir miður að geta ekki átt orðastað við stjórnarliða um hvaða skoðun þeir hafa almennt á fjárlagafrumvarpinu. Sárafáir þeirra hafa látið sér detta í hug að taka til máls um fjárlagafrumvarpið á þeim dögum sem það hefur verið til umræðu til að láta í ljós skoðanir sínar. Annaðhvort eru allir stjórnarliðar alveg hjartanlega sammála því sem stendur í fjárlagafrumvarpinu eða að fólk hefur ekki lesið það, veit ekki hvað í því stendur og tekur þar af leiðandi ekki til máls. Ekki veit ég hvort er, en hins vegar er hægt að telja á fingrum annarrar handar þá fulltrúa stjórnarinnar sem tekið hafa þátt í umræðu um frumvarp til fjárlaga.

Ég ætla að gera að umtalsefni varnaðarorð frá Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn varar við auknum útgjaldaþrýstingi í tengslum við komandi þingkosningar og segir að óvíst sé hver aðkoma stjórnvalda verði að kjarasamningum sem hugsanlega verða endurskoðaðir. Síðan varar Seðlabankinn einnig við því að ekki sé gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýs Landspítala eða Íbúðalánasjóðs. Einnig er bent á að óvissa ríki um þróun fjármagnskostnaðar hins opinbera vegna þess að ekki hafi tekist að ná tökum á verðbólgu og að eins sé óvissa um gjaldeyrishöft. Það hefði verið áhugavert að heyra skoðanir stjórnarliða almennt á varnaðarorðum Seðlabankans.

En varnaðarorð Seðlabankans ná til fleiri þátta. Bankinn telur að nokkur óvissa sé um forsendur fjárlaga og að hætt sé við að verr gangi við að ná jöfnuði í rekstri hins opinbera þar sem stjórnvöld hafi ekki innleitt formlega fjármálareglur. Ég undirstrika það. Seðlabankinn leggur áherslu á að þær verði að innleiða til að styrkja fjármálagerðina og efla aðhald og aga í rekstri hins opinbera.

Hins vegar kemur fram á bls. 16 í Stefnu og horfum, sem fylgir frumvarpi til fjárlaga, að fjármálaráðuneytið hafi um nokkurt skeið unnið að endurskoðun fjárreiðulaga, nr. 88/1997, og að haft hafi verið víðtækt samráð um það verkefni, ekki síst við fjárlaganefnd. En hins vegar er sagt að frumvarpið byggist í öllum meginatriðum á tillögum sem lagðar hafi verið fram af stýrinefnd sem skipuð var í nóvember 2011. Nú er desember 2012 og enn bólar ekki á því frumvarpi sem Seðlabankinn leggur þó áherslu á að lagt verði fram og að reglur til að styrkja fjárlagagerðina verði innleiddar.

Í Stefnu og horfum um fjárlagagerð stendur jafnframt að frá því að lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi hafi alþjóðlegar kröfur um stefnumörkun í opinberum fjármálum og áreiðanleika fjárhagslegra upplýsinga aukist til muna. Þar segir og að áætlun um lækkun fjárlagahalla á Vesturlöndum hafi ítrekað brugðist og að fjárlagahalli hafi reynst regla frekar en undantekning þróaðra ríkja undanfarin ár og jafnvel áratugi. Jafnframt segir, og ber mér að leggja áherslu á það, með leyfi forseta:

„Forsenda sjálfbærni opinberra fjármála er að settar verði skýrar reglur um öflun, meðferð og ráðstöfun opinberra fjármuna, sem nái bæði til ríkis og sveitarfélaga.“

Við sem hér stöndum, bæði þeir sem vinna innan fjárlaganefndar sem og aðrir þingmenn, hljótum að kalla eftir því að menn ljúki endurskoðun fjárreiðulaga, nr. 88/1997, með það að markmiði að styrkja fjárlagagerðina og efla aðhald og aga í rekstri hins opinbera. Þess er þörf nú sem aldrei fyrr því að það er nokkuð ljóst að hagkerfið hér á landi líður fyrir mjög skuldsettan ríkissjóð. Það er öllum ljóst þó að menn greini kannski á um hvaða leiðir fara á til draga á úr halla á skuldsetta ríkissjóði. Ríkisstjórnin setti sér ákveðin markmið um frumjöfnuð og heildarjöfnuð og við getum verið sammála um að það á að vera forgangsmál að ná jákvæðum heildarjöfnuði í ríkisfjármálum svo unnt sé að lækka skuldir ríkisins.

Til að svo megi verða eru tvær leiðir færar: Annars vegar þarf greiðsluafkoma ríkissjóðs að skila afgangi, sem hún gerir að mjög takmörkuðu leyti eða ekki og hefur ekki gert undanfarin ár, eða þá að verja þarf eignum ríkissjóðs, arði eða söluandvirði til uppgreiðslu skulda. Hvorugt þessara atriða birtist í fjárlögum ársins 2013, því miður. Það sýnir okkur enn aukna skuldasöfnun ríkissjóðs og þó eigum við eftir að taka inn í fjárlagafrumvarpið þegar framreidda 13 milljarða ríkisstjórnarinnar til að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs. Í náinni framtíð þarf að leggja enn frekar inn í þann sjóð. Einnig eigum við eftir að fá inn fjármuni vegna nýs Landspítala og samkvæmt síðustu fréttum, sem hafa reyndar ekki enn verið ræddar í þingsal eða í fjárlaganefnd, hefur verið horfið frá svokallaðri einkaframkvæmd sem menn veltu fyrir sér að fara í við byggingu nýs Landspítala. Þess í stað verður farið í hefðbundnar, opinberar framkvæmdir. Svo virðist sem skuldasöfnun ríkissjóðs muni enn aukast til lengri tíma litið nema menn hverfi frá þeim áætlunum sem lagt er upp með. Á ég bágt með að sjá að það gerist.

Það er margt í þá veru sem ég hefur kosið að eiga orðastað um við hinn almenna stjórnarliða sem ber að lokum ábyrgð á fjárlögunum og greiðir þeim væntanlega atkvæði sitt. Enn hafa þó sárafáir stjórnarliðar tjáð sig um fjárlögin og þá til þess eins að mæra þau.

Þá er spurningin: Af hverju eru skoðanir svona gerólíkar á því hvað stendur í fjárlagafrumvarpinu og hvað það mun hafa í för með sér? Er það enn og aftur það að í pólitík greinir menn á um leiðir að markmiðum? Erum við svo blind sem erum andsnúin frumvarpinu og teljum að það kalli á auknar skuldir ríkissjóðs og að fjárfestingaráætlunin kalli líka á aukin umsvif og rekstur ríkisins en hitt, eða er hér eitthvað sem hinir vilja ekki sjá?