141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[05:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég saknaði þess mjög að heyra ekki sjónarmið þingmanna stjórnarliðsins og ráðherra, og svör þeirra við ábendingum, gagnrýni og spurningum sem við sem höfum tekið þátt í umræðunni í dag höfum lagt fram. Það eru spurningar af fjölmörgum toga.

Það var ekki nægilega nákvæmt hjá mér þegar ég sagði að engir stjórnarliðar hefðu tekið þátt í umræðunni á þessum degi. Það var ekki nákvæmt vegna þess að hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi hæstv. ráðherra, tók sannarlega þátt í umræðunni. Ég hafði vikið að því í máli mínu að mjög margt ámælisvert væri að finna í fjárlagafrumvarpinu sem sneri að þremur háskólum í Norðvesturkjördæmi: Háskólanum á Bifröst, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Háskólanum á Hólum. Hæstv. fyrrverandi ráðherra og hv. þm. Jón Bjarnason svaraði því svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég harma að þær tillögur sem nú liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu varðandi þessar stofnanir eru með öllu óviðunandi og sýna fádæma fávisku um þá starfsemi sem þarna á sér stað, með þeim niðurskurði sem þar er viðhaldið.“

Þetta er það síðasta sem hefur heyrst til stjórnarliða í dag. Það er sá mikli áfellisdómur sem hv. þm. Jón Bjarnason fellir yfir ríkisstjórninni, sem hann þó styður, og er auðvitað til marks um stöðuna sem fjárlagafrumvarpið er komið í. Hér er ekkert verið að klípa utan af hlutunum og ekki verið að skafa utan af neinu. Það er sagt umbúðalaust og undanbragðalaust hver ástæðan sé fyrir því að fjárlagafrumvarpið er þannig úr garði gert eins og við sjáum það núna, eftir að hv. fjárlaganefnd og meiri hluti hennar hafa birt sínar tillögur. Þær tillögur lýsa hvorki meira né minna en hreinni fávisku. Það er í raun og veru það sem hv. þm. Jón Bjarnason er að segja.

Ég lít þannig á að með þögn sinni í dag hafi stjórnarliðar í rauninni verið að samþykkja þennan mikla palladóm sem hv. þingmaður, og fyrrverandi hæstv. ráðherra, fellir yfir fjárlagafrumvarpinu í mjög veigamiklum atriðum.

Mér finnst ástæða til að undirstrika það og vekja athygli á þeim ummælum hæstv. fyrrverandi ráðherra vegna þess að hann er meðal annars að fjalla um málaflokka sem hann er mjög kunnugur og getur þess vegna trútt um talað.

Það eru auðvitað fjölda margir þættir sem fróðlegt væri fyrir okkur að fjalla aðeins um í umræðunni um fjárlagafrumvarpið og á vissan hátt er ég að því leytinu þakklátur stjórnarliðum fyrir að hafa ekki verið mikið að trufla okkur í umræðunni um þau mál. Þótt ræðutíminn hafi verið 40 mínútur, 20 mínútur og nú 10 mínútur, þá hefur svo sannarlega ekki veitt af honum til að fara yfir ýmsa efnisþætti sem fjárlagafrumvarpið hefur að geyma. Líka núna eftir meðhöndlun meiri hluta fjárlaganefndar í umboði ríkisstjórnarinnar.

Eitt af þeim atriðum er mál sem mér hefur verið mjög hugleikið og það er húshitunarkostnaðurinn. Ég vil setja það í samhengi við þá umræðu sem ég hóf aðeins áðan um hugmyndir ríkisstjórnarinnar um arðgreiðslur ríkisfyrirtækja inn í ríkissjóð. Ég vek athygli á því að tveimur orkufyrirtækjum, Orkubúi Vestfjarða og Rarik, er ætlað að borga um 370 millj. kr. inn í ríkissjóð á þessu ári í formi arðgreiðslna. Orkubú Vestfjarða borgaði í fyrra 46 millj. kr. af 2 milljarða kr. tekjum. 46 millj. kr. af 277 milljón kr. hagnaði og næsta ár er sem sagt áætlað að þær greiðslur muni nema 60 millj. kr., það er að segja rúmlega 100 millj. kr. á tveimur árum sem er þá í kringum 40% af árlegum hagnaði þess fyrirtækis miðað við hagnaðinn sem varð á árinu 2011.

Rarik á að borga 310 millj. kr. á næsta ári og þetta er gert þrátt fyrir að á vegum beggja fyrirtækjanna blasi við gríðarleg verkefni. Ég fékk til dæmis svar við fyrirspurn á dögunum, sem ég lagði fyrir hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um þau áform sem uppi væru um þrífösun rafmagns í landinu. Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir hinar dreifðu byggðir og ljóst mál að kostnaðurinn við þrífösunina sem ætlunin er að ráðast í fram til ársins 2035 nemur kannski um 15 millj. kr.

Með þeim arðskröfum sem verið er að gera til þessara tveggja fyrirtækja er auðvitað augljóst mál að öllum áformum um uppbyggingu á því sviði mun seinka. Það er einfaldlega þannig að menn geta ekki notað sömu krónuna nema einu sinni. Þegar búið er að taka svo stóran hluta af hagnaði fyrirtækjanna og ráðstafa honum inn í ríkissjóð mun það auðvitað koma niður á fjárfestingargetu þeirra og möguleikum til að takast á við á þau verkefni sem blasa við, t.d. í endurnýjun á raflínum og í því að byggja upp innviði í raforkuframleiðslu um landið. Það mun fyrir vikið síðan tefja alla atvinnulega uppbyggingu á þeim svæðum sem Orkubú Vestfjarða annars vegar og Rarik hins vegar þjóna og er meira og minna allt svæðið utan höfuðborgarsvæðisins.

Það segir okkur auðvitað að þarna er eins og menn geti aldrei skoðað heildarhagsmuni. Þær hugmyndir um stórkostlegar arðgreiðslur þessara tveggja fyrirtækja munu því hafa veruleg áhrif á möguleika þeirra til að standa fyrir nauðsynlegri fjárfestingu sem þarf að eiga sér stað á allra næstu árum og þörfin kallar á hvarvetna. Það hefur líka önnur áhrif. Við vitum að húshitunarkostnaður hefur sligað um það bil 10% þjóðarinnar. Um það bil 30 þúsund manns búa við húshitunarkostnað sem er kannski þrefaldur, fjórfaldur miðað við það sem gerist til að mynda á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur. Í þeim efnum hefur ríkisstjórnin staðið sig afar illa, svo ekki sé nú meira sagt, því að sá húshitunarkostnaður hefur hækkað verulega á undanförnum árum og fyrir því eru þrjár meginástæður.

Í fyrsta lagi sú að búið er að draga úr niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar, frá árinu 2008 og fram á þennan dag, um 530 millj. kr. að núvirði. 530 millj. kr. meira var varið til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði á árinu 2008 en gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi. Jafnvel þótt eitthvað sé verið að bæta í núna milli 1. og 2. umr. mun það ekki vega upp á móti nema litlu broti af þeirri skerðingu sem hefur átt sér stað í niðurgreiðslunum á þeim tíma.

Í annan stað hafa auðvitað orðið verðlagshækkanir sem þessi fyrirtæki eins og önnur hafa orðið að bera og hafa því orðið að hækka sína taxta. Það hefur að sjálfsögðu með beinum hætti að bitnað annars vegar á fjárhagsstöðu atvinnulífsins á þeim svæðum og hins vegar á pyngju heimilanna sem hafa orðið að bera þyngri byrðar bæði vegna rafmagnskaupa almennt og síðan vegna húshitunarkostnaðarins.

Í þriðja lagi er það hitt að ríkið hefur tekið ákvörðun um að leggja sérstaka nýja skatta á þau fyrirtæki eins og önnur orkufyrirtæki í landinu. Það hefur líka stuðlað að því að gjaldskrár fyrirtækjanna hafa hækkað í kjölfarið og enn aukið þann kostnaðarlið, þann sára kostnaðarlið, sem bæði fyrirtæki og almenningur á þeim svæðum hafa þurft að bera. Ekki nóg með það, til viðbótar við allt þetta er líka verið að fleyta fram, í samræmi við það sem gert hefur verið á undanförnum árum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, sérstökum arðgreiðslum sem fyrirtækjunum er ætlað að inna af hendi. Fyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða og Rarik eiga að borga á næsta ári 370 millj. kr. í arðgreiðslur til ríkissjóðs, til eigenda sinna, sem auðvitað mun hafa sömu áhrif og skattahækkanirnar, lækkun niðurgreiðslna og verðlagshækkanirnar hafa haft í för með sér.

Þannig að hér eru fjórar aðgerðir sem ríkisstjórnin ber að nokkru leyti ábyrgð á. Auðvitað ekki á verðlagshækkunum eingöngu, þótt hún hafi stuðlað að þeim, en hún ber fulla ábyrgð á lækkun niðurgreiðslnanna, hækkun skattanna og á því að verið er (Forseti hringir.) að auka arðgreiðslurnar. Allt það vindur upp á sig og (Forseti hringir.) veldur því auðvitað að sá kostnaðarliður fer hækkandi ár frá ári.