141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[05:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég endaði síðustu ræðu mína einhvers staðar á þeim slóðum að ræða áhrif fjárlagafrumvarpsins á atvinnustarfsemi og verðmætasköpun í landinu. Ég rakti það í nokkuð einfölduðu máli miðað við þann skamma tíma sem var til ráðstöfunar að jafnvel þó að í ákveðnum tillögum meiri hlutans í fjárlaganefnd væri gert ráð fyrir fjárfestingarverkefnum, verkefnum sem væri ætlað að ýta undir fjárfestingu, þá væri á öðrum stöðum verið að taka inn til ríkisins hærri upphæðir en sem því næmi þannig að heildaráhrifin væru neikvæð að því leyti.

Hæstv. forseti. Svo er það auðvitað sérstakt vandamál að þeir aðilar sem taka ákvarðanir í samfélaginu um hina og þessa þætti, kjarasamninga, fjárfestingarverkefni og fleira, eiga í sérstökum vandræðum með að átta sig á því hvað ríkisstjórnin vill, hvort þær ákvarðanir sem hún tekur eru til lengri eða skemmri tíma og hvort þær standa eða hvort forsendunum verði breytt eins og gerist í svo mörgum tilvikum.

Dæmi um það er þegar skattar sem sagt er að séu lagðir á tímabundið vegna sérstakra aðstæðna eru framlengdir og síðan gerðir varanlegir. Það er verið að gera í tengslum við þetta fjárlagaferli. Við fáum tækifæri til að ræða það nánar þegar við förum í umræður um bandorminn svokallaða, en þar sem þetta er hluti af fjárlagapakkanum er nauðsynlegt að geta þess hér líka. Aðilar sem hafa hugsanlega tekið ákvarðanir á þeirri forsendu að einhverjir skattar sem ríkið hefur lagt á, tilgreindir skattar, séu tímabundnir til eins, tveggja, þriggja ára, standa skyndilega frammi fyrir því að ætlunin er að gera þá varanlega. Það getur breytt forsendum. Það getur skipt heilmiklu máli.

Í öðrum tilvikum er um það að ræða að kjarasamningar eru undirritaðir með tiltekin fyrirheit í huga, þ.e. ríkið kemur að gerð kjarasamninga með því að gefa fyrirheit um ákveðnar aðgerðir og að beita sér fyrir því að aðstæður verði með tilteknum hætti. Nærtækasta dæmið er að nefna skattaþáttinn sem lýtur að tryggingagjaldinu sem ég kom inn á áðan en það má líka nefna væntingar sem skapaðar voru varðandi framkvæmdir og fjárfestingar, einkum á sviði stóriðju og orkuvinnslu sem hafa af ýmsum ástæðum lent í sífelldri seinkun.

Menn hafa töluvert talað um framkvæmdir á Norðausturlandi sem alltaf eru rétt handan við hornið og hafa verið rétt handan við hornið allt þetta kjörtímabil. Við þekkjum ákveðna sorgarsögu á Suðurnesjum varðandi það hvernig verkefni hafa frestast, hvernig mikill blaðamannafundur í víkingaskipi breyttist í eitt stöðugildi á herminjasafni eða herseturssafni eða hvað það heitir þegar lofað var miklu átaki í atvinnuuppbyggingu fyrir Suðurnesjamenn. Svona má lengi telja.

Ég hygg að forsvarsmenn samtaka aldraðra og öryrkja telji sig ekki hafa komið vel út úr samskiptum sínum við ríkisvaldið hvað varðar fyrirheit í þessum efnum. Alþýðusambandið hefur lýst því yfir að ríkisstjórnin hafi svikið fyrirheit varðandi bótagreiðslur úr almannatryggingakerfinu hvað varðar þá hópa og auðvitað hafa þau samtök mótmælt.

Hæstv. forseti. Úti um allt eru hópar, samtök, almannasamtök, hagsmunasamtök, fyrirtæki, einstaklingar sem telja sig svikna af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Gengið er frá einhverju samkomulagi, það er eitthvað handsalað, gengið er út frá því að ríkið ætli að gera þetta eða gera hitt eða þá ekki neitt og einu, tveimur, þremur árum seinna stendur ekki steinn yfir steini af því sem lofað var. Þá koma menn, eins og núverandi hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og segja: Ja, ég hef ekki afsalað mér almennu skattlagningarvaldi. Eins og var í frægu dæmi þegar forsvarsmenn í orkufrekum iðnaði töldu, að því er virðist réttilega, að ríkisstjórnin hefði gengið á bak orða sinna þegar þeir voru fengnir með hálfgerðum þvingunum til að undirgangast ákveðið samkomulag við ríkisvaldið um skattamál fyrir tveimur árum sem nú á ekki að standa við miðað við þær tillögur sem liggja fyrir.

Hæstv. forseti. Þetta er sérstakt vandamál vegna þess að svona starfsumhverfi fyrir fyrirtæki er ekki til þess fallið að hvetja til fjárfestingar. Það er ekki til þess fallið að hvetja til verðmætasköpunar. Það er ekki til þess fallið að stækka kökuna sem er til ráðstöfunar, sem er til skiptanna. Þetta er skaðleg stefna, ekki bara skaðleg vegna þess að hún felur í sér ákveðið viðhorf gagnvart atvinnulífinu sem einkennist af fjandskap, ekki bara skaðleg vegna þess að verið sé að leggja háar álögur á atvinnulífið heldur ekki síst vegna þess að með þeim aðferðum er atvinnulífinu skapaðar svo ótraustar forsendur, svo ótraust skilyrði, svo óstöðug rekstrarskilyrði sem gerir það að verkum að menn eru einfaldlega hræddir við að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Menn eru hræddir við að taka ákvarðanir um nýsköpun, menn eru hræddir við að taka þá áhættu sem fylgir því að fara nýjar brautir í atvinnurekstri. Menn eru skíthræddir við þetta vegna þess að aldrei er að vita upp á hverju ríkisstjórnin getur tekið við næstu fjárlagagerð, við næstu breytingu á skattalögum eða í öðrum aðgerðum sínum. Þetta er vandamál, hæstv. forseti. Því miður felur þetta fjárlagafrumvarp ekki á neinn hátt í sér að horfið sé frá þeirri stefnu eða því vinnulagi sem ríkisstjórnin hefur haft uppi í þessum efnum á undanförnum árum. Þvert á móti er verið að auka við skatta, verið er að hækka skatta, verið er að gera tímabundna skatta varanlega og þar sem verið er að draga úr sköttum að litlu leyti er bætt í á öðrum sviðum þannig að niðurstaðan verður neikvæð fyrir þá sem þurfa að standa undir skattheimtunni.

Hæstv. forseti. Svo er það auðvitað sérkapítuli út af fyrir sig hvernig er með áhrifin á vísitölu og aðrir hv. þingmenn hafa nefnt í umræðunni. Það á eftir að koma betur í ljós í umræðum um skattamálaþáttinn en segja má að það sé hin hliðin á peningnum sem verið er að ræða hér. Í skattalagaþættinum hlýtur að koma fram raunhæft mat á því hvaða vísitöluáhrif koma fram, ekki bara vegna raunhækkana, þ.e. hækkana umfram verðlag, heldur líka vegna þeirra breytinga þar sem skatturinn er látinn elta verðlagsbreytingar en leiðir síðan af sér áframhaldandi vísitöluhækkanir sem, eins og við þekkjum, koma ekki bara beinlínis niður útgjöldum heimilanna, hvort sem um er að ræða bensíngjald, bifreiðagjald, áfengisgjald, útvarpsgjald eða hvað öll þessi gjöld heita sem verið er að hækka og sagt að sé aðeins verið að hækka til samræmis við verðlagsbreytingar. Þær verðlagsbreytingar sem látnar eru koma fram í þessum skattahækkunum hafa síðan keðjuverkandi áhrif áfram og hafa þar með áhrif meðal annars á skuldastöðu heimilanna sem hefur eins og við þekkjum verið eitt stærsta og kannski erfiðasta, raunverulega viðfangsefni Alþingis og stjórnvalda á kjörtímabilinu sem nú er að líða.