141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[05:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði gert mér ákveðnar væntingar um að þeir hv. þingmenn sem ég hef kallað eftir kæmu í andsvör við mig og rökræður um þau mál sem ég hef vakið athygli á í umræðunni hvað eftir annað. Að þeir kæmu hingað í þingsalinn í augnablik í dag til að greiða atkvæði um lengd þingfundar. Það væri til að tryggja að þeir kæmust í andsvör og umræðu á þeim tíma sem við erum að funda núna, kl. að verða 6 að morgni, vegna þess að hv. þingmenn eru jafnvel uppteknir við eitthvað annað á daginn. Maður mundi ætla að þeir hefðu tíma til að koma og ræða málin sem ég hef bent á hér.

Ég er margbúinn að nefna lokun Heilsugæslustöðvarinnar í Snæfellsbæ aðra hverja helgi. Íbúum þessa tæplega 1.800 manna sveitarfélags er gert að sækja heilsugæsluþjónustu, sem er auðvitað lágmarksgrunnþjónusta í hverju byggðarlagi, til Grundarfjarðar. Það er ekki eins og verið sé að loka einni deild á sjúkrahúsi heldur er heilsugæslustöðinni lokað aðra hverja helgi, væntanlega til að spara laun læknis því hún er að öllum jafnaði ekki opin um helgar. Fólkinu er gert að sækja heilsugæsluþjónustu til Grundarfjarðar. Þar er starfandi fín stofnun en því miður er oft ófært á milli þessara staða.

Ég kallaði eftir því að hingað kæmu þeir hv. þingmenn stjórnarliðsins sem hyggjast styðja það. Ég kalla eftir svörum um hvort þeir hafi gert athugasemdir þegar frumvarpið var afgreitt og þær tillögur voru afgreiddar. Það er bersýnilega að koma í ljós þegar svona er komið fyrir niðurskurði á heilbrigðisstofnunum að farið er að skapa botninn, ef ég má nota það orðalag. Þeir hafa ekki verið að spara háar upphæðir. Þetta eru ekki háar upphæðir heldur lágar. Ég man þegar þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, lagði til blóðugan niðurskurð um allt land og boðað var til stórra, fjölmennra funda til að mótmæla honum. Þá runnu tvær grímur á marga hv. þingmenn stjórnarliðsins og þeir byrjuðu strax að draga í land. (Gripið fram í.) Nei, ekki allir, hv. þm. Björn Valur Gíslason, það gerðu ekki allir en það gerðu sumir og ég varð vitni að því.

Það mátti helst skilja það þannig að það hefði eiginlega komið þeim sjálfum mest á óvart. Það var líka bent á það í umræðunni og ég held meira að segja að það hafi verið hæstv. forseti og hv. þm. Björn Valur Gíslason sem situr hér, formaður fjárlaganefndar, sem einmitt gerðu athugasemdir við að þeir hv. þingmenn hefðu ekki sagt mikið þegar frumvarpið var lagt fram og ekki gert neinar athugasemdir við það en síðan hlaupist undan merkjum þegar á reyndi. Það er auðvitað umhugsunarvert. Á maður þá von á því að það fjármagn verði tryggt sem nauðsynlega þarf í reksturinn á heilbrigðisstofnunum Vesturlands til að hægt sé að opna heilsugæslustöðina sem er núna lokuð aðra hverja helgi? Við áttum okkur auðvitað á því, og það er einmitt bent á það í áliti 1. minni hluta, að stofnanirnar hafa verið að ganga á ónýttar fjárveitingar. Það kom fram í ríkisreikningi, það hefur sennilega verið 2011, að þetta er ein af þeim heilbrigðisstofnunum sem var búin að vera að ganga á ónýttar heimildir og fór meira að segja yfir í mínus og frystur hali var geymdur, eins og sagt er. Það segir okkur að í raun og veru hafa umsvif rekstursins verið meiri en því nemur en nú er því miður búið að ganga á flestar hlöður, það ég best veit, þar sem menn áttu ónýttar heimildir til að halda uppi rekstrinum.

Af hverju skyldi maður vera að vekja athygli á því eina ferðina enn? Þetta er auðvitað grafalvarleg staða og það hefur komið skýrt fram í umræðunni af minni hálfu og margra annarra hv. þingmanna að þegar þannig er komið fram við íbúa þessa sveitarfélags, að ekki er tryggð lágmarksgrunnþjónusta, þá spyr maður sig auðvitað að því hvaða þjónustu þeir íbúar þurfa. Það er þyngra en tárum taki að þurfa síðan að fara að skoða þau gæluverkefni ríkisstjórnarinnar sem kristallast í svokallaðri fjárfestingaráætlun. Þar er auðvitað fullt af verkefnum en maður staldrar við sum sem manni finnst svo mikil vitleysa og bruðl og ég veit eiginlega ekki hvaða orð ég á að nota yfir þau. Ég sagði fyrr að mér fyndist sum þeirra vera ákveðin veruleikafirring þegar horft er á þær staðreyndir plús svo margt annað sem hægt er að fara yfir. Þegar horft er á þann veruleika skal horft á að fara eigi að byggja hús íslenskra fræða fyrir 3,7 milljarða. Það er ekki hægt að hafa heilsugæslustöðina opna í þessu 1.800 manna byggðarlagi, eða þarf að loka henni aðra hverja helgi svo það komi skýrt fram, en þá á að fara í þetta.

Það þarf auðvitað að skoða það á milli umræðna, af því að það kemur ekkert fram hvernig það skuldbindur ríkissjóð inn í framtíðina, hvað reksturinn á húsinu kostar. Það kemur hvergi fram. Ég hef ekki upplýsingar um hvað áætlað er að reksturinn kosti og auðvitað er verið að skuldbinda ríkissjóð inn í framtíðina. Er það ekki óforsvaranlegt fyrir hv. Alþingi að afgreiða svona tillögu áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir? Ég tel það mjög mikilvægt því að þegar ráðstafað er í svona rekstur, það kæmi mér ekkert á óvart þótt þær tölur yrðu mjög háar, er ekki hægt að setja í önnur verkefni á meðan. Það segir sig auðvitað sjálft.

Síðan er áætlað að setja eins og 500 millj. kr. í uppsetningu á einni sýningu á Náttúruminjasafni Íslands. Ég er ekki að tala um verkefnin af því að ég er á móti þeim en þau eru auðvitað algerlega ótímabær. Þá kemur auðvitað það sem maður lítur á sem hálfgerðan brandara, skýringartextinn með tillögunni. Hann er að aðgangseyririnn að sýningunni eigi að standa undir leigu og rekstri. Hvað ætli margir hv. þingmenn trúi því svona innst inni að það gangi eftir? Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekkert annað en einhver veruleiki sem verið er að búa til og sem getur ekki staðist.

Ég ber auðvitað þær væntingar í brjósti að hv. þingmenn sem maður er búinn að kalla eftir svari. Það er líka dálítið athyglisvert að nú hefur hæstv. forseti sagt að hæstv. ráðherra ætli ekki að taka þátt í umræðunni og það hefur komið fram að sumir eigi ekki að vera að kalla eftir ráðherrunum því nú sé málið í meðförum þingsins. Einmitt þegar ákvörðunin, sem ég nefndi áðan, um að loka Heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ aðra hverja helgi er tekin með fullri vitund velferðarráðuneytisins, það veit að sú ákvörðun var tekin. Við hvern á maður að eiga orðastað um þau mál? Hvað þarf maður að gera til að opna augu stjórnarmeirihlutans? Ég er eiginlega að verða ráðþrota. Hvernig er hægt að kalla eftir því? Maður verður auðvitað að bera þá von í brjósti að þetta fólk gefi sér smátíma til að hlusta en ég er ekki viss um það. Þess vegna hef ég kallað ítrekað eftir hv. þingmönnum í því kjördæmi, sem þar eiga að þekkja vel til og hafa gengið hvað harðast fram í því að taka á sama tíma gjald af sjávarútveginum. Verið er að taka einhver hundruð milljóna úr sama byggðarlaginu, úr þessu eina litla byggðarlagi. Er fólkið sem þarna býr og skapar tekjur fyrir þjóðarbúið bara vinnudýr í augum stjórnvalda?