141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[06:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega glaður að sjá að hv. formaður fjárlaganefndar er í salnum. Ég ætla að sjá hvort hann geti aðstoðað mig við að skilja ákveðnar forsendur sem eru settar fram í ritinu Stefna og horfur í frumvarpi til fjárlaga fyrir þetta ár. Það skiptir nokkru að við náum einhverjum skilningi á þeim. Það er verið að tala um vaxtakostnað ríkissjóðs sem skiptir verulega miklu máli varðandi möguleika okkar til að afnema hér gjaldeyrishöft. Ég gríp niður í textann á bls. 54. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að verðbólga fari lækkandi frá árinu 2012 en að innlendir sem og erlendir vextir hækki og að gengi krónunnar muni veikjast frá fyrra ári.“

Þetta er uppsetning ríkisstjórnarinnar í málinu. Hún er sem sagt þessi: Verðbólgan lækkar á árinu, vextirnir munu samt sem áður hækka. Viðbrögð Seðlabankans við lækkandi verðbólgu eru sem sagt vaxtahækkanir samkvæmt þeim sem skrifa þennan texta. Einnig er gert ráð fyrir að ekki bara innlendir vextir hækki heldur líka erlendir, en jafnframt veikist gengið við það að verðbólga fer lækkandi.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason er formaður fjárlaganefndar og hefur því væntanlega djúpan skilning á því sem þarna er verið að segja. Ég játa að ég átta mig ekki á þessu. Mér þætti gagn að því ef hv. formaður fjárlaganefndar gæti komið hingað upp á eftir og útskýrt þetta. Svo ég fari nú aftur yfir málið, af því að ég skil það ekki alveg: Verðbólgan lækkar, þá hækkar Seðlabankinn vexti sína samkvæmt því og ekki er bara reiknað með að íslenski seðlabankinn hækki vexti heldur muni erlendir seðlabankar líka hækka sína vexti, ég kem að því hér á eftir. Við þessar aðstæður muni líka gengið gefa eftir. Þetta er svona „senaríóið“.

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að það sé eitthvert samhengi í þessu en ég sé það ekki núna. Ég er ekki að fullyrða að þetta sé útilokuð atburðarás. Ég átta mig ekki alveg á þessu og það væri ágætt að fá útskýringu á málinu.

Ástæðan fyrir því að þetta skiptir máli kemur fram aðeins neðar á síðunni. Það er mat okkar á því hver nettóvaxtagreiðslustaða okkar er. Hér segir aftur, með leyfi virðulegs forseta:

„Hækkun vaxtatekna á árinu 2013 er aðallega vegna áætlana um hærra vaxtastig erlendis …“

Ég hefði hug á því að fá að sjá hvaða áætlanir og spár þetta eru. Nú er það svo að Seðlabanki Bandaríkjanna hefur gefið út þá yfirlýsingu, sem reyndar er sjaldgæft að sé gert með þessum hætti en gerist vegna aðstæðna á fjármálamarkaði, að vextir verði ekki hækkaðir fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2015. Við erum að tala um 2013. Það er gert ráð fyrir því í forsendum fyrir fjárlagafrumvarpinu að vextir erlendis munu hækka og að það muni styrkja vaxtatekjuhliðina. Á sama tíma liggur þessi yfirlýsing bandaríska seðlabankans fyrir. Úr því að það er ekki bandaríski seðlabankinn sem er að fara að hækka vextina, reikna þeir sem settu þetta saman þá með því að Seðlabanki Evrópu sé að fara að hækka vextina við þær aðstæður sem eru núna á evrusvæðinu? Í það minnsta mundi ég segja að það væri frekar ólíklegt.

Þetta samhengi: Lækkandi verðbólga ásamt fallandi gengi og hækkandi vöxtum við þær aðstæður að vextir erlendis eigi að hækka þrátt fyrir yfirlýsingu Seðlabanka Bandaríkjanna og þrátt fyrir aðstæður á evrusvæðinu. Það er svolítið erfitt að átta sig nákvæmlega á hvernig það er hugsað. Úr því að formaður nefndarinnar er hérna inni með okkur þá vona ég að hann komi hingað upp á eftir og útskýri þetta samhengi fyrir okkur, af því að ég er sannfærður um að þetta er ekki sett hugsunarlaust inn. Það er einhver hugsun sem skýrir þetta en ég átta mig ekki á henni. Það væri vont við 2. umr. um fjárlög ef það væri erfitt að koma heim og saman nákvæmlega hvernig jafnmikilvægur þáttur í þessu öllu saman eins og sá sem snýr að skuldastöðunni og vaxtastöðunni og vaxtabyrðinni væri hugsaður. Við skulum sjá til hvort það fáist einhver svör við þessu, virðulegi forseti.

Ég vil þá í síðari hluta þessarar ræðu taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa bent á að ástæða er til að vekja athygli stjórnarliða á þeirri forgangsröðun sem birtist í frumvarpinu. Ég skil ekki alveg þá ríkisstjórn sem nú situr sem telur mikilvægara að ráðast í, ég leyfi mér að segja, röð af gæluverkefnum þegar liggur fyrir að hlutar af grunnþjónustunni eru þannig staddir og þeim þannig fyrir komið að víða um land séu íbúar sem njóti ekki nægjanlegrar þjónustu þegar kemur t.d. að heilbrigðismálum, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson rakti svo ágætlega áðan. Það er enn og aftur nægur tími fyrir þingið og fyrir fjárlaganefndina til að bregðast við þessu.

Það er sjálfsagt að rifja það aftur upp, úr því að formaður fjárlaganefndarinnar hér í salnum, að ef við skoðum hvenær 2. umr. hefur lokið um fjárlög á undanförnum árum þá eru dagsetningarnar þessar: 8. desember, 14. desember og 15. desember. Með öðrum orðum, við höfum tíma og við eigum að nota tímann. Ef það færi svo að hv. þm. Björn Valur Gíslason kæmi hingað upp og útskýrði fyrir mér sérstaklega þennan þátt varðandi hækkun vaxta erlendis í ljósi yfirlýsingar bandaríska seðlabankans og ástandsins á evrusvæðinu þá væri líka akkur að því, a.m.k. fyrir okkur sem erum að taka þátt í þessari umræðu, að heyra afstöðu hv. formanns fjárlaganefndar til margræddra yfirlýsinga forseta Alþýðusambandsins um verðlagsáhrif og áhrif á kjarasamninga. Maður skyldi ætla að hin svokallaða velferðarstjórn hefði nokkurn áhuga á því hvað forseti launþegasamtakanna á Íslandi hefur að segja um fjárlagafrumvarpið. Hið glæsilega fjárlagafrumvarp með glæsilegum niðurstöðum. Dómur og mat forseta Alþýðusambandsins er að kjarasamningar fari í uppnám, verðbólgan og þar með lánin fari upp og kaupmátturinn niður. Okkur vantar skýringar og viðbrögð stjórnarliða við þessum ummælum. Það er enginn sem hlustar á þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra atvinnumála að þetta sé glæsileg niðurstaða. Það finnst engum glæsilegt þegar lánin hækka. Það finnst engum glæsilegt þegar kaupmátturinn minnkar og það finnst engum glæsilegt þegar kjarasamningar fara í uppnám. (Forseti hringir.) Það væri áhugavert að heyra afstöðu formanns fjárlaganefndar til þessa máls.