141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við uppsögnum hjúkrunarfræðinga.

[15:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra út í sömu mál og hv. þm. Bjarni Benediktsson spurði út í áðan og mér sýnist ekki vera vanþörf á því vegna þess að ekki kom svar frá hæstv ráðherra við aðalspurningunni: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í stöðunni?

Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir hver staðan væri, hverjar kröfurnar og úrlausnarefnin væru, en ekkert um með hvaða hætti hæstv. velferðarráðherra ætlaði að beita sér í málinu. Þegar hafa á þriðja hundrað hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum og ljóst er, eins og komið hefur fram í viðtölum við stjórnendur Landspítalans, að ef það gengur eftir mun skapast neyðarástand á sjúkrahúsinu og þar verður í rauninni óstarfhæft. Slík staða hlýtur að kalla á einhver viðbrögð frá ráðherra málaflokksins. Því spyr ég hæstv. velferðarráðherra: Með hvaða hætti ætlar ráðherrann að beita sér í málinu?