141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir í sjávarútvegi.

[15:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í morgun bárust ömurlegar fréttir frá Þorlákshöfn þar sem útgerðarfyrirtækið Auðbjörg ehf. hefur sagt upp 27 starfsmönnum fyrirtækisins. Ármann Einarsson, framkvæmdastjóri Auðbjargar, sagði í samtali við fréttaveituna DFS á Suðurlandi, með leyfi forseta:

„Uppsagnirnar og salan á bátunum koma fyrst og fremst til vegna ástandsins í sjávarútvegnum, það er allt að fara til andskotans þar og útlitið því ekki bjart fram undan. Þorpinu hér í Þorlákshöfn er smátt og smátt að blæða út vegna ástandsins.“

Þessar fréttir koma í kjölfarið á fréttum sem bárust frá Siglufirði í lok síðasta mánaðar þar sem Siglunes og útgerðarfélagið Nes ehf. sögðu upp 35 manns. Ástæður uppsagnanna eru m.a. auknar álögur á fyrirtæki í sjávarútvegi sem eru auðlindagjald og sérstakt veiðigjald.

Í tilfelli Auðbjargar jukust skattgreiðslur með hinu nýja veiðigjaldi úr 15 millj. kr. í 52 millj. kr. Það fór sem sagt úr rúmlega millj. kr. á mánuði í millj. kr. á viku í skattgreiðslur. Menn sjá það í hendi sér að á meðan er fólki ekki greidd laun fyrir þessa sömu peninga. Þetta fyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, meðalstórt með rúmlega 30 ára sögu, á sömu kennitölunni, vel rekið fyrirtæki sem er burðarás atvinnulífs í Þorlákshöfn.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hver eru hennar skilaboð eru til þessara 27 einstaklinga og fjölskyldna þeirra í ljósi þessara fregna? Telur forsætisráðherra að þetta sé ásættanlegt? Er forsætisráðherra tilbúin að endurskoða álagningu veiðileyfagjalds og hætta þessari stöðugu aðför að grundvallaratvinnuveginum í þjóðfélaginu?