141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

uppsagnir í sjávarútvegi.

[15:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Sanngjörn og eðlileg gjaldtaka, segir hæstv. forsætisráðherra, og bætir því við að það hljóti að vera aðrar skýringar. Já, það eru vissulega aðrar skýringar. Við vitum að staðan á erlendum mörkuðum er slæm vegna efnahagsástandsins sem er víða erfitt alveg eins og hér, verðlækkanir á mörkuðum. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja segja að þeir hefðu getað ráðið við þetta og komist í gegnum þetta ef ekki væri fyrir aðför stjórnvalda að sjávarútveginum.

En það merkilega er að varað var við þessu öllu. Allir sérfræðingar og allir hagsmunaaðilar sögðu einmitt að þetta mundi gerast, að litlu og meðalstóru fyrirtækin, eins og þessi fyrirtæki eru dæmi um, Siglunes, Auðbjörgin, Ögurvík — þetta eru lítil og meðalstór fyrirtæki, burðarásar í sínum samfélögum. Þessu var varað við. Þetta kallaði hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) og hennar ríkisstjórn hræðsluáróður. Þetta er ekki hræðsluáróður, frú forseti, þetta er staðreynd, þetta er veruleikinn sem þetta fólk býr við. (Forseti hringir.) Og það er ömurlegt að hlusta á hæstv. forsætisráðherra kalla það sanngjarna og eðlilega gjaldtöku.