141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

áhrif hækkana í fjárlögum á skuldir heimilanna.

[15:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Um fátt hefur verið meira rætt í þingsal á þessu kjörtímabili en skuldamál þjóðarinnar og þá sérstaklega skuldamál heimilanna. Nú hefur ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp sem hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á heimilin í landinu. Ég ætla ekki annað en hæstv. forsætisráðherra hafi hugsað það mál út frá heimilunum, skárra væri það nú.

Hér eru samt sem áður á ferðinni margvíslegar hækkanir sem koma beint niður á fólkinu í landinu, þó misjafnlega eftir því hvernig neyslu þess er háttað. En eiginlega öll heimili í landinu eru með verðtryggðar skuldir, í það minnsta mjög stór hópur og það er sá hópur sem er í hvað mestum vanda.

Nú hefur þetta lítið verið rætt hér á vettvangi þingsins, þetta stóra mál, sem eru fjárlögin, og sérstaklega þá tekjuþáttur þess. Ég vona að okkur gefist tími til að ræða það þokkalega. Það hefur verið sérstaklega áberandi hvað hv. stjórnarþingmenn hafa lítið tekið þátt í umræðunni það sem af er.

Fram kom í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í morgun að hækkunin á tóbaksgjaldinu hækkar ein og sér lán heimilanna um 3 milljarða kr. Við eigum alveg eftir að skoða hækkun á vörugjöldunum, eldsneytissköttunum og áfengisgjaldinu og ýmislegt fleira. En tóbaksgjaldið eitt hækkar lánin um 3 milljarða.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra tveggja spurninga: Í fyrsta lagi: Hver verður hækkun á lánum heimilanna út af hækkunum ríkisstjórnarinnar? Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi þjóðina um það. Ég spyr líka: Af hverju reyna menn ekki að miða hækkanirnar út frá hagsmunum heimilanna?