141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

áhrif hækkana í fjárlögum á skuldir heimilanna.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil fyrst segja það við hv. þingmann, sem hefur nú verið ráðherra, að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ýmis gjöld í fjárlögum taka eðlilegri verðlagshækkun og svo er auðvitað hægt að reikna skuldir heimilanna út frá því.

Þegar við horfum á fjárlögin sem slík þá hef ég heyrt úr þessum ræðustól að þau séu verðbólguhvetjandi. Það er nú samt einu sinni svo að verðbólgan, sem nú er 4,5%, sem er auðvitað of mikið, hefur lækkað mjög mikið á síðari hluta ársins og eftir að fjárlögin komu fram hafa hvorki Hagstofan né Seðlabankinn talið ástæðu til að breyta verðbólguspánni.

Það er líka ýmislegt í fjárlögunum sem kemur heimilunum mjög til góða sem þingmaðurinn ætti náttúrlega að hafa í huga líka. Við erum að tala um barnabætur. Við erum að tala um vaxtabætur. Við erum að tala um áframhald á útgreiðslu séreignarsparnaðar. Við erum að tala um viðhaldsframkvæmdir o.s.frv., kostnað sem er endurgreiddur. Það þarf því að horfa á málið í heild.

Það er auðvitað hægt að fara í svona leiki að fara að skoða einstakar gjaldtökur í fjárlögunum sem hv. þingmaður gerir og metur það út frá verðbólgunni. En það er verðbólgan sem skiptir máli í þessu. Hún hefur ekki hækkað á síðari hluta ársins og ekki hefur verið talin ástæða til að breyta verðbólguspánni eftir að fjárlögin komu fram. Það er það sem hlýtur að skipta máli.