141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

áhrif hækkana í fjárlögum á skuldir heimilanna.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kippi mér lítið upp við það þó að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ráðist á mig úr ræðustól. Það er regla frekar en undantekning hjá hv. þingmanni að gera það. Hann er oft að leika sér hér í ræðustól og það er kannski það sem ég á við þegar ég er að tala um það.

Virðulegi forseti. Hefur hv. þingmaður haft fyrir því að reikna út gjaldtökuna hjá þeirri ríkisstjórn sem hann sat í sem var töluverð og hafði áhrif á verðbólguna? Ég er viss um að hv. þingmaður hefði ekki getað svarað því. En ég held að þingmaðurinn ætti að horfa á þá jákvæðu hluti sem eru í þessum fjárlögum fyrir heimilin í landinu. Þar er mjög margt jákvætt að koma fram, bæði varðandi stöðu heimilanna og ýmis verkefni sem við erum að hrinda í framkvæmd, fæðingarorlof, barnabætur, vaxtabætur o.fl., sem allt hefur jákvæð áhrif á heimilin.