141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það endurspeglaðist kannski ágætlega í umræðunni áðan í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, hvert vandamál okkar er þegar við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Vandamálið er auðvitað í grunninn sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið á sínum starfsferli. Það að gæta ekki að eðlilegri tekjuöflun ríkissjóðs sem byggðist á auknum umsvifum í atvinnulífinu, auknum gjöldum sem mundu skila sér í gegnum aukin umsvif, minna atvinnuleysi og meiri tekjuöflunartækifærum fyrir heimilin í landinu. Það eru í raun þau grundvallarmistök sem hafa verið gerð. Hér hefur verið farin sú leið að hækka gjöld, hækka skatta á atvinnulíf og á heimili til að ná saman í rekstri ríkissjóðs. Þá hefur látið á sér standa sú nauðsyn aukinna fjárfestinga sem allir kalla eftir með þeirri framleiðsluaukningu, m.a. á verðmætum útflutningsafurðum, sem slíkt mundi hafa í för með sér.

Við horfum á það núna að fyrir fjárlög á næsta ári eiga að koma mörg gjöld til hækkunar. Það hafa verið nefnd bensíngjöld, útvarpsgjald, tóbaksgjald, vörugjöld á bílaleigubíla og á ferðaþjónustuna, hækkaður virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna og tryggingagjöld. Það á að framlengja raforkuskattinn á stóriðjuna, kolefnisgjaldið á að koma til og gjald á sölu á heitu vatni, svo einhver dæmi séu tekin. Allt mun það með einum eða öðrum hætti hafa mjög letjandi áhrif á þær atvinnugreinar sem í því lenda og það mun hafa bein áhrif á skuldasöfnun heimilanna í landinu, sem er ærin fyrir.

Það var komið inn á áðan að bara hækkun á tóbaksgjaldi mun hækka skuldir heimila í landinu um 3 milljarða. Hæstv. forsætisráðherra gat engan veginn svarað því hver heildaráhrifin af frumvarpi fyrir næsta ár væru á heimilin í landinu. (Forsrh.: Það eru nú ekki nema 2% …) Hún nefndi að hér kæmi til aukning í fæðingarorlofi, barnabótum og vaxtabótum. Það er það sem þetta snýst um hjá þessari ríkisstjórn. Það er sú hugsanaskekkja sem er í gegnum alla þá mynd og í gegnum þeirra ferli. Það á að hækka bætur og reyna að lyfta þeim í stað þess að búa til tekjur og gera fyrirtækjunum kleift að auka tekjumöguleika sína.

Við getum horft á hvaða afleiðingar það hefur til dæmis í ferðaþjónustunni, sú stórkostlega hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu sem er að kollvarpa öllum þeim áætlunum sem þar voru í myndinni fyrir næsta ár. Við höfum heyrt af því að menn dragi við sig að fara í fjárfestingar sem voru fyrirhugaðar og voru jafnvel komnar af stað eða höfðu verið settar á stofn. Viðskipti við erlend ferðaþjónustufyrirtæki voru sett í uppnám og að öllu leyti er verið að gera greininni mjög erfitt að standa við og undir þeim fjárfestingum sem var lagt af stað með. Óvissan er algjör. Það kemur í kjölfar markaðsátaks sem stjórnvöld hafa staðið ágætlega að með ferðaþjónustunni og á þeim tíma þegar greinin er í vexti og miklar væntingar bundnar við að hér gæti orðið að minnsta kosti einhver frekari vöxtur. Í það minnsta gætum við haldið fengnum hlut. Það hefur verið mikilvægt innlegg í okkar verðmætasköpun á erfiðum tímum en þá er farið í að gera þar alvarlega atlögu, eins og raunar að öðrum atvinnugreinum í landinu.

Við sjáum líka þær álögur sem fyrirhugaðar eru á fjármálafyrirtækin í landinu. Hvar mun það koma fram? Það mun auðvitað lenda beint á neytendum. Það er alveg ljóst að það verða að lokum viðskiptavinir bankanna sem munu greiða þær álögur. Á einn eða annan hátt lendir það á þeim sem veikastir standa, kannski þeim sem skulda mest.

Það sama á við um vörugjaldahækkanir sem menn áttu alls ekki von á. Vörugjöld á matvæli sem nema hundruðum milljóna, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, munu auðvitað bara lenda á heimilunum í landinu. Það eru ekki fyrirtæki sem borga það. Það eru neytendur sem borga. Það eru neytendur sem borga og það hefur áhrif á kaupgetu heimilanna. Það verður dýrara að fara út í búð og kaupa í matinn og það hefur áhrif á skuldir heimilanna.

Það sama má segja ef tekin eru atriði eins og framlenging á raforkuskattinum. Árið 2009 var undirritað samkomulag milli stjórnvalda og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda raforku um fyrirframgreiðslu tekjuskatts og tímabundna álagningu orkuskatts sem félli niður að þremur árum liðnum. Nú er það einhliða framlengt. Hvaða áhrif hefur það að menn setjast ekki í það minnsta niður með þeim fyrirtækjum og reyna að semja um það til einhvers lengri tíma? Var það útilokað? Það var ekki reynt. Þetta er bara einhliða ákvörðun. Hvar mun það hitta? Þetta mun hitta fyrir hvatann í fjárfestingu sem er kallað svo mikið eftir og þeim fyrirtækjum sem hafa verið að skoða Ísland sem mögulega fjárfestingarkosti er sköpuð óvissa, sem veldur því enn frekar að sú fjárfesting sem er okkur svo nauðsynleg láti á sér standa.

Af því tilefni er áhugavert að rifja upp yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út og tengd kjarasamningum á vordögum 2011. Þar segir meðal annars að horfa verði til þess við ákvörðun atvinnutryggingagjalds að veruleg óvissa ríki um þróun atvinnuleysis á næstu árum. Gangi fyrirliggjandi spár um lækkun atvinnuleysis á samningstímanum eftir myndist svigrúm til að lækka tryggingagjaldið. Það lækkar ekki. Þarna eru enn ein svik ríkisstjórnarinnar við atvinnulífið þrátt fyrir að dregið hafi úr atvinnuleysi og menn geta svo sem deilt um hverjar ástæður þess eru. Ekki liggur það í fjölgun starfa í landinu vegna þess að ef þær tölur eru skoðaðar, sem er hinn eðlilegi mælikvarði, hefur störfum ekki fjölgað heldur hefur dregið úr atvinnuleysi út af öðrum atriðum, eins og til dæmis brottflutningi af landinu, fólk hefur farið í nám og fólki á vinnumarkaði hefur fækkað. Það hefur auðvitað mikil áhrif á þá kjarasamninga sem eru í landinu. Með þessu er verið að ráðast að forsendum þeirra og möguleikum fyrirtækjanna til að standa við þá án þess að hækka verðlag með einum eða öðrum hætti.

Það segir einnig í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 að markmiðum um auknar fjárfestingar á næstu árum verði ekki náð nema með verulegu átaki í fjárfestingu fyrirtækja. Það segir að stjórnvöld vilji greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum. Það sjá allir að hrópandi ósamræmi er í þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þeirri leið sem hún hefur valið til að takast á við efnahagsvanda þjóðarinnar. Vandræðin sem ríkisstjórnin er komin í endurspeglast núna í þeim fjárlögum sem við erum að ræða fyrir næsta ár þar sem skorturinn á aukinni tekjuöflun, aukinni fjárfestingu og verðmætasköpun er í raun grunnforsenda fyrir því að svo illa er komið fyrir okkur.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er líka komið inn á að lögð er áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tillit til umhverfisgæða. Þar segir líka að rammaáætlun verði lögð fram á næstu vikum, við erum að tala um vorið 2011, og hún verði afgreidd á haustþingi 2011. Nú erum við komin að árslokum 2012 og rammaáætlun í skötulíki er enn óafgreidd af þinginu. Hún getur engan veginn uppfyllt þær væntingar sem settar voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hvetja til aukinnar fjárfestingar, m.a. á orkusviðum. Það segir í þeirri yfirlýsingu að ljóst sé að áhugi erlendra aðila á nýfjárfestingum sem byggja á nýtingu innlendrar orku sé mikill. Landsvirkjun muni halda áfram umfangsmiklum rannsóknum í Þingeyjarsýslu og eigi þegar í viðræðum við nokkra aðila um fjárfestingar og orkukaup. Gangi þau áform öll eftir gæti verið um að ræða fjárfestingu upp á 70–80 milljarða kr., auk fjárfestingu orkukaupendanna.

Í yfirlýsingunni frá 5. maí 2011 segir að þess sé fastlega vænst að samningar takist fyrir lok þessa árs um í það minnsta tvö umtalsverð fjárfestingarverkefni sem ráðist verði í, m.a. á Norðausturlandi, og framkvæmdir geti hafist þar strax á næsta ári, sem er árið 2012. Nú er árið 2012 að verða liðið og hver er ástæðan fyrir því að þær hugmyndir ríkisstjórnarinnar hafa að engu orðið?

Það segir í yfirlýsingu frá 5. maí 2011 að mikilvægt sé að kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fjárfestingarkost með markvissum aðgerðum og stefnt sé að því að veita aukna fjármuni til markaðssóknar. Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar. Það er alveg eins og hægri höndin viti alls ekki hvað sú vinstri er að gera í ríkisstjórninni vegna þess að aðgerðum er ekkert stýrt í samræmi við þessar yfirlýsingar. Við sjáum það koma fram — í því óstöðuga umhverfi sem ríkisstjórnin hefur skapað fyrirtækjunum í landinu á sama tíma og sagt er ítrekað í yfirlýsingum og borið á borð fyrir þjóðina að hér eigi að efla fjárfestingu, auka svigrúm fyrirtækja og hvetja til aukinna fjárfestinga — að markmiðum um auknar fjárfestingar verði ekki náð nema með verulegu átaki í fjárfestingum fyrirtækja. Á sama tíma erum við að gera fyrirtækjunum enn erfiðara fyrir með sína starfsemi. Við erum að hækka gjöld, við lækkum ekki tryggingagjaldið, leggjum á aukna skatta og svo má telja áfram. Svona er sú hörmungarsaga.

Virðulegi forseti. Þarna liggur hundurinn grafinn þegar farið er yfir fjárlög ríkisins fyrir næsta ár, þ.e. hversu illa hefur tekist til við að standa við stöðugleikasáttmálann sem ríkisstjórnin gerði við atvinnulífið á sínum tíma. Hversu illa hefur tekist til við að fylgja eftir þeim yfirlýsingum sem hafa verið gefnar út og að sá hagvöxtur sem þær leiðir, ef þær hefðu verið farnar, hefðu skapað, þær hefðu gengið eftir. Sá hagvöxtur er grunnforsenda þess að við getum náð vopnum okkar.

Ég ætla að staldra aðeins lengur við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011. Það er nauðsynlegt að rifja hana upp þegar rætt er um fjárlög fyrir næsta ár og verið er að gera sér grein fyrir því hversu lítið hefur gengið eftir af markmiðum ríkisstjórnarinnar, fögrum fyrirheitum, sem hefðu getað breytt mjög miklu í forsendum við gerð fjárlaga.

Í yfirlýsingunni frá 5. maí 2011 er talað um að miklir sóknarmöguleikar séu í ferðaþjónustunni. Það sé verið að reyna að fara í sérstakt átak til að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann. Það verði sameiginlegt átak sveitarfélaga, ríkisins og ferðaþjónustunnar og fjölga megi ferðamönnum um allt að 50 þúsund yfir vetrartímann og skapa þannig um eitt þúsund störf. Það hefur farið ágætlega af stað en þá koma menn með gjaldtöku á greinina sem þeir sérfræðingar sem um það fjalla telja að muni hafa mjög neikvæð áhrif á þann vöxt. Til hvers erum við þá að henda hundruðum milljóna úr ríkissjóði í sameiginlegt átak með ferðaþjónustunni til að fara síðan í skattlagningu aftur? Af hverju létum við þá ekki bara ferðaþjónustuna eina um þetta? Létum hana í friði, leyfðum henni að vaxa í friði og reyndum að hvetja atvinnugreina áfram og láta hana þannig skila þjóðarbúinu miklu meiri tekjum heldur en nú blasir við að hún muni gera?

Sjávarútvegurinn er í alvarlegri stöðu eins og raun ber vitni. Það var farið yfir í ræðum áðan hvernig sú alvarlega staða sem þar er uppi birtist okkur. Við sjáum þær viðvaranir ganga algjörlega eftir sem margir af okkar helstu sérfræðingum og hagsmunaaðilum í greininni komu með þegar var verið að ræða um frumvarp til veiðigjalda og veiðiskatts og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar kom að því máli í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því 2011 sagði að þegar mundi liggja fyrir sú hagfræðilega greining sem unnin yrði vegna áhrifa fyrirhugaðra breytinga á rekstrarskilyrði og starfsumhverfi sjávarútvegsins. ASÍ og Samtök atvinnulífsins mundu tilnefna einn fulltrúa hvort ásamt fulltrúum stjórnarflokkanna til að fara yfir niðurstöðu greiningarinnar. Það yrði gert til að ná frekari sátt um þá útfærslu sem mætti tryggja sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði, samanber yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármálaráðherra frá því 28. október 2009.

Allt þetta kjörtímabil hefur sjávarútvegurinn verið í algerri óvissu. Mjög mismunandi hugmyndir hafa verið uppi innan stjórnarflokkanna um hversu langt ætti að ganga í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og í álagningu veiðigjalds. Við í stjórnarandstöðunni höfum talað um það nánast einum rómi, alla vega fulltrúar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, að fara verði varlega og vanda hvert skref vegna þess að í húfi eru miklir hagsmunir fyrir þjóðarbúið. Fylgdi hæstv. ríkisstjórn þeirri leið sem hún varðaði með yfirlýsingum sínum og því sem vitnað var til og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra? Nei, svo var ekki. Óvissan hélt áfram og þegar málin voru til umfjöllunar á síðasta vetri var ítrekað varað við þeim afleiðingum sem birtast okkur núna: Að það mundi verða samþjöppun í sjávarútvegi. Veiðiskatturinn sem lagður væri á útgerðirnar væri of hár og tæki ekki tillit til mismunandi rekstrarskilyrða fyrirtækja. Hann væri í raun ekki sniðinn eftir hverju fyrirtæki heldur tekinn þvert á alla greinina. Það gengur ekki upp. Við höfum sem betur fer átt mikilli velgengni að fagna í sjávarútvegi á undanförnum árum. Það má segja að við höfum frá hruni nánast unnið lottóvinning í því hversu vel okkur hefur gengið í sjávarútvegi. Þar ber auðvitað hæst uppsjávarveiðar okkar. Makríllinn hefur komið sem lottóvinningur til okkar og skapað miklar tekjur. Síldveiði hefur braggast ágætlega, við fengum fína loðnuvertíð í fyrra og það hafa verið góð verð á mörkuðum í bolfiski líka. Það allt saman hefur gert það að verkum að afkoman hefur verið góð og fjárfestingarþörfin er til staðar. Fjárfestingarnar hafa reyndar látið á sér standa. Það var talið að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútvegi á síðasta ári væri kannski í kringum 55 milljarðar kr., fjármagn sem var frekar notað í uppgræðslu skulda. Það er út af fyrir sig ágætt en miklu minna var farið í fjárfestingar en tilefni voru til með tilheyrandi afleiðingum sem mælast í atvinnuleysi. Við hefðum getað skapað fjölda starfa til viðbótar ef ramminn hefði verið ákveðinn og ef greinin hefði haft öryggi og staðið tiltölulega föstum fótum gagnvart framtíðinni.

Núna horfum við aftur á móti upp á kannski einhverja alvarlegustu stöðu í íslenskum sjávarútvegi sem við höfum séð lengi. Það eru ákveðnar greinar sem ganga þokkalega, kannski fyrst og fremst uppsjávargreinarnar. Sú óvissa sem enn þjakar greinina, veiðigjöldin sem eru ekkert annað en landsbyggðarskattur, og hefur verið rætt um, og sú alvarlega staða sem er að þróast á helstu mörkuðum okkar fyrir afurðirnar gera það að verkum að sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir mjög alvarlegri mynd.

Til að ræða þau mál óskaði ég eftir því að allir aðilar í sjávarútvegi yrðu boðaðir á fund atvinnuveganefndar til að fara yfir stöðuna sem við horfum núna fram á. Það var merkilegt að hlusta á viðbrögð stjórnarliða sem furðuðu sig á því að verið væri að óska eftir því að fá þá aðila á vettvang, á fund nefndarinnar, til að fara yfir stöðuna í sjávarútvegi. Staðan þar væri svo góð. Við fengum þá alla á okkar fund, alla hagsmunaaðila í sjávarútvegi, fulltrúa Landssambands smábátaeigenda, fiskvinnslustöðva, útgerða, sjómanna og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það má segja að samdómaálit allra hafi verið að staðan sé mjög alvarleg og fyrirtækin búi við mikla óvissu. Mjög aukin samþjöppun í þeirri mikilvægu grein sé örugglega í pípunum. Við sjáum það vera gerast núna. Það var farið yfir uppsagnir í Þorlákshöfn áðan, við sáum uppsagnir á Siglufirði í síðustu viku og hjá fyrirtækinu Ögurvík fyrir stuttu síðan og það er nákvæmlega í samræmi við það sem varað var við.

Fulltrúi Landssambands smábátaeigenda sagði á fundinum að á væri að bresta flótti úr greininni af hálfu þeirra sem hann er umbjóðandi fyrir. Það eru litlu útgerðirnar úti um allt land sem víðast hvar eru hryggjarstykkið í uppbyggingu og afkomu sveitarfélaga. Menn væru mjög uggandi um sinn hag og sæju í raun og veru ekki framtíðarmöguleika.

Það er líka mat manna að sú þróun sem hefur orðið í greininni geti haft veruleg áhrif á framboð á fiskmörkuðum sem getur komið sér illa fyrir þær fiskvinnslur sem ekki eru með sambönd við útgerðir eða byggja afkomu sína á því að kaupa fisk á markaði. Þarna verðum við að brjóta blað. Menn verða að horfa til þeirra alvarlegu aðstæðna sem eru komnar upp, standa við bakið á greininni og breyta forsendum í rekstrinum. Veiðigjaldið er auðvitað mjög stór þáttur í því og það er hægt að fara aðrar leiðir í því að innheimta veiðigjald, eða aukin gjöld af sjávarútvegi, þegar vel gengur. Ég held að allir séu sammála um að þegar vel gengur í sjávarútvegi sé eðlilegt að greinin og þau fyrirtæki sem best ganga borgi hærra gjald. Það þarf að leitast við að fara þá leið en ekki þá skelfilegu leið sem við erum að horfa á.

Það er allt saman hluti af því þegar við ræðum fjárlagafrumvarp næsta árs, að sá stórkostlegi vandi sem blasir við okkur er fyrst og fremst vegna þess að höfuðatvinnugreinum okkar hafa ekki verið skapaðar aðstæður til að eflast og dafna og auka fjárfestingu og verðmætasköpun sem mundi skila sér í auknum útflutningsverðmætum. Um það snýst það í grunninn, að skapa hér hagvöxt og eyða atvinnuleysi. Meðan við förum ekki þá leið verðum við í þeim miklu vandræðum sem við erum í með fjárlagagerðina eins og hún er. Minni fjárfesting, sú minnsta sennilega í áratugi á lýðveldistímanum, og einkaneysla dregst saman.

Annað stórt atriði í því er sú rammaáætlun sem liggur fyrir þinginu. Rammaáætlun sem var farið af stað með til að reyna að búa til sáttaleið, málamiðlun, á milli þjóðfélagshópa og festa inn til lengri tíma virkjunaráætlun, áætlun um það í hvaða skrefum og á hvaða stöðum við ætluðum að nýta orkuna í landinu til eflingar atvinnulífi og aukinna fjárfestinga og verðmætasköpunar. Þarna hefur ríkisstjórnin gengið algerlega í berhögg við fyrri yfirlýsingar sínar um að búa til umhverfi til að laða að aukna beina, erlenda fjárfestingu. Það eru allir sammála um að stóru tækifærin okkar liggja fyrst og fremst í orkufrekum iðnaði. Samkvæmt þeirri rammaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu, og er einhvers konar málamiðlun og afsprengi pólitískra samninga á milli stjórnarflokkanna og jafnvel innan þeirra, liggur það alveg fyrir að við stígum ekki nein skref í virkjunargerð á næstu árum. Þeir virkjunarkostir sem eru tilbúnir til að halda áfram með eru settir í biðflokk, eins og t.d. virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár. Það verður ekki farið af stað með neitt nýtt á þeim vettvangi umfram það sem þegar er komið af stað, Búðarhálsvirkjun sem er komin langt á veg og þær framkvæmdir sem við sjáum að eru í undirbúningi norður í Þingeyjarsýslu.

Rammaáætlun gæti gefið okkur gríðarlegt tækifæri til sóknar og einmitt til að vinna bug á því vandamáli sem fjárlagagerðin er við þessar erfiðu aðstæður. Tækifæri til að auka og efla fjárfestingu í landinu. Það eru allir sammála um, eins og kom fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ég vitnaði til áðan, að tækifærin eru til staðar. Þeir sem fjalla um þau mál fyrir hönd ríkisins, t.d. á fjárfestingarsviði Íslandsstofu, hafa sagt okkur að á þessu kjörtímabili hafa sjaldan eða aldrei verið eins mörg fyrirtæki með fjölbreyttan rekstur sem hafa verið að leita hófanna hér og lýst áhuga á því að byggja upp atvinnustarfsemi á Íslandi. En menn hafa ekki getað gefið svör af því að rammaáætlun er ófrágengin og óvissan svona mikil. Síðan koma aðrir óvissuþættir inn í eins og hin pólitíska óvissa sem endurspeglast í því rekstrarumhverfi sem við sköpum fyrirtækjum í landinu. Nú eru aðstæður breyttar. Efnahagsumhverfið er erfitt í kringum okkur og við þyrftum að vanda okkur enn meira. Við þyrftum að vinna enn betur í því að laða fyrirtæki hingað svo þau fari ekki eitthvert annað. Það hefur ekki gengið eftir og er í raun ekkert annað en stórslys að svo skuli vera.

Við getum litið á fjárfestingaráætlun Landsvirkjunar sem lögð var fram á vordögum 2011, eða á svipuðum tíma og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin út í maí 2011. Samkvæmt þeirri fjárfestingaráætlun var í raun bara verið að taka tillit til virkjunarkosta og setja inn í framkvæmdaáætlun virkjunarkosti sem væru samkvæmt eðlilegri niðurstöðu í rammaáætlun til framkvæmda núna á næstu missirum. Sú áætlun tekur til ársins 2025 í virkjunarframkvæmdum og til ársins 2030 þegar metnar eru efnahagslegar afleiðingar slíkrar fjárfestingaráætlunar. Það er skemmst frá því að segja að ef ákvarðanir hefðu verið teknar fyrr á þessu kjörtímabili værum við núna með uppbyggingu í atvinnulífi og virkjunarframkvæmdir af fullum þunga inni í hagkerfinu, sem sköpuðu mikil verðmæti og fjölda starfa. Það væri komið af fullum þunga inn í íslenskt efnahagslíf á þessu ári og næsta samkvæmt fjárfestingaráætluninni. Það eru milljarðar í tekjur fyrir ríkissjóð, milljarðar í tekjur fyrir heimilin í landinu og er á endanum lykillinn að því að skapa meiri og verðmætari útflutning en við höfum í dag.

Í stað þess er fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sett fram við þau ömurlegu skilyrði sem við búum við þar sem við erum í raun bundin í báða skó og getum lítið gert. Við þær aðstæður verður auðvitað að vanda verulega þær leiðir sem eru farnar, hvernig við eyðum þeim litlu fjármunum sem við höfum úr að spila. Þá kemur ríkisstjórnin fram með fjárfestingaráætlun sína fyrir næstu þrjú ár, 2013, 2014 og 2015. Það er algerlega óskiljanlegt hverjum sem skoðar stöðu mála hvernig mönnum getur dottið í hug að setja fram tillögur á borð við þær sem birtast þar, og slíka forgangsröðun. Á sama tíma og við getum ekki fjárfest í grunnþáttum velferðarþjónustunnar, heilbrigðismálum, og löggæslumálum, það er búið að fara vel yfir þá alvarlegu stöðu sem er í þeim málaflokkum, setur ríkisstjórnin fram fjárfestingaráætlun sem meðal annars tekur til þess að setja á 1.000 milljónir í fangelsi á Hólmsheiði á næsta ári. Hefði nú ekki verið skynsamlegra að byggja bara við fangelsið austur á Litla-Hrauni þar sem allir innviðir eru til staðar og hægt væri að byggja við með miklu minni tilkostnaði? Það hefur verið gagnrýnt hversu mikill kostnaðurinn er við að flytja gæsluvarðhaldsfanga austur að Litla-Hrauni. Ég átti fund með fulltrúum úr lögreglunni þar sem við fórum yfir þær hugmyndir að aðstaða til að geyma gæsluvarðhaldsfanga yrði gerð á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Það er hægt að búa þannig um hnútana með tiltölulega litlum tilkostnaði. Þá eru gæsluvarðhaldsfangarnir allir á staðnum, þarf ekkert að vera að flytja þá og er náttúrlega mikil sparnaður fyrir rekstur lögreglunnar. Nei, þá er þetta skref stigið.

Við sjáum líka að setja á 800 milljónir á næsta ári í hús íslenskra fræða. Verkefni sem er okkur öllum hugleikið, það þarf auðvitað að búa vel um menningararf okkar sem liggur í fornbókmenntum og sögu þjóðarinnar. En höfum við efni á því núna við þessar erfiðu aðstæður að fara að setja 800 milljónir í þann verkþátt?

Náttúruminjasafn eða sýning. Það virðist vera hluti af einhverju samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og ríkisstjórnarinnar þar sem á að setja í það 500 milljónir á næsta ári. Í raun og veru er Reykjavíkurborg að kaupa Perluna af sjálfri sér og grundvöllurinn er langtímaleigusamningur við ríkið. Það á að setja 500 milljónir í það á næsta ári. Með fullri virðingu fyrir þeim verkefnum get ég líka nefnt þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri sem á að setja í 290 milljónir. Staðan austur á Kirkjubæjarklaustri er mjög alvarleg í atvinnulegu tilliti. Það hefur verið fækkun í sveitarfélaginu og þeir kalla mjög eftir því að fá aukin verkefni og fjárfestingu á svæðið. Við í atvinnuveganefnd áttum fund með því fólki um daginn og samúð manns er öll með því í þeim efnum en það er líka verið að setja mjög vænlega virkjunarkosti á það svæði sem mundi hafa í för með sér mikla atvinnusköpun, verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið og tekjupósta fyrir sveitarfélagið. Það er verið að setja það á ís, verkefni sem væri hæglegast að halda áfram með og öll rök benda til þess.

Það á að setja 200 milljónir í friðuð og friðlýst hús og mannvirki og þá komum við að uppáhaldinu hjá hæstv. ríkisstjórn sem er græna hagkerfið. Þar á að stofna grænan fjárfestingarsjóð sem á að setja í 500 milljónir. Ég hef í sjálfu sér ekki séð neitt um til hvaða verkefna sá sjóður á að horfa en setja á 500 milljónir í hann á næsta ári. Það á að setja 280 milljónir í grænkun fyrirtækja. Ég hef heldur ekki séð neitt um hvað felst í því að grænka fyrirtæki. 150 milljónir eiga að fara í græn skref og vistvæn innkaup. Samtals eiga að fara á annan milljarð í græna hagkerfið á næsta ári, samkvæmt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Síðan á að auka framlög til Kvikmyndasjóðs um 470 milljónir á sama tíma og kannski væri tilefni til að draga úr framlögum til hans einfaldlega vegna þess að gróska í kvikmyndagerð hér á landi hefur aldrei verið meiri, eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum. Með þeirri skattahagræðingu sem við höfum innleitt varðandi framleiðslu erlendra kvikmynda á landinu er sú atvinnugrein á mikilli ferð sem betur fer. Hún skapar mörg hundruð störf og miklar tekjur. Væri ekki ástæða til að draga aðeins úr annarri framleiðslu á móti? Nei, þá á að fara að auka framlög til Kvikmyndasjóðs á sama tíma og greinin er á blússandi ferð. Sennilega þýðir það aukin tækjainnkaup og aukna fjárfestingu í greininni sem síðan á einhverjum tímum getur orðið offjárfesting.

Netríkið Ísland á að fá 200 milljónir og verkefnasjóðir skapandi greina 250 milljónir. Þetta eru allt saman þættir sem eru taldir upp í þessari fjárhagsáætlun og eru upp á 10.300 milljónir sem maður hefði sagt að mætti bíða, með fullri virðingu fyrir þessum verkefnum. Á sama tíma og við búum við þessar erfiðu aðstæður og grunnþættir í samfélagi okkar eru við það að bresta, svo aftur sé nefnt heilbrigðiskerfið okkar, löggæsla og fleira má telja upp, getum við ekki leyft okkur að halda áfram á sömu nótum og ríkisstjórnin hefur verið að gera. Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að það verður að horfa til þess að auka hér fjárfestingu, skapa störf og verðmæti þannig að við getum farið að búa sæmilega að því að gera mannsæmandi fjárlög fyrir landið.