141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013. Mig langar að gera að umtalsefni erindi Alþingis, löggjafarvaldsins, sem sent var fjárlaganefnd, beiðni um aukið fé á milli 1. og 2. umr. Meiri hluti fjárlaganefndar, hv. stjórnarliðar, ákvað að vísa þeirri beiðni til 3. umr., hafnaði því að taka tillögur Alþingis til skoðunar og umræðu á sama hátt og tillögur framkvæmdarvaldsins sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði að sínum og bætti um betur með eigin tillögum sem liggja nú fyrir við 2. umr.

Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að kalla þetta þjónkun við framkvæmdarvaldið og virðingarleysi við Alþingi. Þegar þær tillögur sem Alþingi leggur fram eru skoðaðar má sjá að sumar þeirra eru óhjákvæmilegar. Forseti Alþingis fer meðal annars fram á fjármuni vegna kosninganna sem fyrirhugaðar eru 27. apríl 2013. Ljóst er að æðimargir þingmenn hafa ákveðið að láta af þingstörfum. Þeir eiga rétt á biðlaunum og öðrum greiðslum en ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu. Forseti þingsins fer fram á að það verði gert en meiri hluta fjárlaganefndar þykir ekki ástæða til að taka afstöðu til þess.

Forseti Alþingis hefur óskað eftir því að fá aukna fjármuni til alþjóðastarfs og til öryggismála í þinginu. Forseti Alþingis hefur líka óskað eftir því að fá aukafjármagn til rannsóknarnefnda Alþingis sem Alþingi sjálft hefur ákveðið að setja á laggirnar til að skoða hin ýmsu mál. Við því gat meiri hluti fjárlaganefndar ekki orðið eða gert að sínu við 2. umr. Samt er það Alþingi sjálft sem hefur lagt til að þessar rannsóknarnefndir verði settar á laggirnar til að rannsaka einstök mál sem mörg hver eru þörf í sjálfu sér.

Hann hlýtur að vekja undrun, virðulegur forseti, þessi háttur hv. þingmanna í meiri hluta fjárlaganefndar, hvers vegna þeir ákveða að ganga fram með þessum hætti. Hvergi hefur komið fram, hvorki í fjárlaganefnd, hvað þá heldur hér í umræðunni, sem þeir hafa svo sem ekki tekið mikinn þátt í, hvers vegna þetta verklag er viðhaft.

Mig langar líka að gera tvær stofnanir sem heyra undir Alþingi að umtalsefni hér, þ.e. annars vegar umboðsmaður Alþingis og hins vegar Ríkisendurskoðun. Það er alveg ljóst að Alþingi þarf að velta fyrir sér og skoða hver framtíðarsýn embættis umboðsmanns Alþingis á að vera. Embættið verður 25 ára á næsta ári. Umfang þess hefur aukist gífurlega en embættið hefur, eins og aðrar stofnanir, ef við getum orðað það svo, þurft að sæta skerðingu. Á sama tíma og við aukum gífurlega fjármagn til umboðsmanns skuldara, sem er í sjálfu sér allt í lagi ef menn horfa þannig á verkefnið, er dregið úr en ekki aukið við til umboðsmanns Alþingis, sem er þó sá aðili sem á að verja borgarana gegn ofríki stjórnvalda. Þangað eiga almennir borgarar að geta leitað þegar þeir telja að stjórnvöld hafi brotið á sér. Ef við ætlum að veita borgurunum þá vernd að geta leitað til umboðsmanns Alþingis þegar þeir telja að á þeim sé brotið af hálfu stjórnvalda hljótum við að þurfa að gefa embætti umboðsmanns Alþingis þann sess í fjárlögum sem því ber. Ef það er minna virði fyrir borgarann að geta leitað til umboðsmanns Alþingis þegar hann telur að stjórnvöld hafi brotið á sér en að leita til umboðsmanns skuldara ef hann skuldar — ef það telst eðlilegra að veita fjármagn vegna skulda einstaklingsins en þegar brotið er á honum af hálfu stjórnvalda — held ég að forgangsröðunin í verkefnum sé orðin hálfsérkennileg.

Farið er fram á, virðulegur forseti, að embætti umboðsmanns Alþingis fái í það minnsta 20 milljóna hækkun á framlagi. Samhliða er lagt til að 30 milljónum verði varið í Þórshamar þangað sem fyrirhugað er að flytja embætti umboðsmanns Alþingis. Ég tel það afar mikilvægt að embætti umboðsmanns Alþingis sé hér í nágrenni Alþingis og fagna því að sú ákvörðun hefur verið tekin að embættið muni flytja í Þórshamar. En til þess að svo megi verða þarf að gera umbætur á því húsi.

Ég tel, virðulegur forseti, að Alþingi þurfi að sýna þeim stofnunum sem það ber ábyrgð á, umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun, þá tilhlýðilegu virðingu sem stofnununum ber, algjörlega óháð því hvað einstaka þingmönnum þykir um þá sem þar gegna embætti eða þar vinna. Það er algjörlega óháð því hvernig Alþingi á að líta til þessara stofnana. Ég mun því á milli 2. og 3. umr. leggja til að umboðsmanni Alþingis verði veitt ívið meira fjármagn en hér er lagt til. Ég mun ýta á eftir því að erindi forseta Alþingis verði afgreitt úr fjárlaganefnd. Mér telst til að beiðni hæstv. forseta Alþingis til fjárlaganefndar, um fjárveitingu á milli 1. og 2. umr., nemi um 500 milljónum. Til að engin útgjöld verði af þeirri beiðni má skera niður 500 milljónir til sýningar í Perlunni, sem einhverjir hér inni hafa stofnað til í samningum við einhverja aðra úti í bæ án þess að nokkuð liggi á blaði um hvað fyrirhugað er að gera. Enn hefur ekki verið ráðinn forstöðumaður Náttúruminjasafnsins til að hann geti í það minnsta verið með í ráðum um hvort þessi staður, eða það sem fyrirhugað er að gera í kerfinu, sé hentugur.

Sömu sögu er að segja um Ríkisendurskoðun. Hún er sú stofnun sem þarf að fylgja eftir æðimörgu og sýna jafnt frumkvæði sem og umboðsmaður Alþingis að sýna frumkvæðisskyldu sína hvenær sem er, taka af skarið og skoða ákveðin verkefni. Við þurfum að gera vel við Ríkisendurskoðun. Og þá ítreka ég aftur, virðulegur forseti, það er slétt sama hvað einstaka þingmönnum finnst um þá sem þar starfa.

Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til í forsætisráðuneytinu að 12 milljónum verði varið til umboðsmanns Alþingis til að semja fræðsluefni um stjórnsýsluna, eftir því sem maður best getur skilið. Kemur það einkanlega til af því að umboðsmaður Alþingis hefur verið gagnrýninn á stjórnsýsluna, þá sem þar starfa og hvernig stjórnsýslan vinnur. Það virðist nú stundum vera þannig, með fullri virðingu fyrir þeim sem þar vinna, að menn átta sig ekki alltaf á því að stjórnsýslan er til fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir fólkið sem vinnur í stjórnsýslunni. Við hér á Alþingi þurfum því að horfa til þessarar stofnunar, umboðsmanns Alþingis, og ræða það heiðarlega okkar á milli hvort við óskum þess að það embætti veiti borgurunum það skjól sem þeir eiga rétt á. Við þurfum líka að ræða hvort við viljum að Ríkisendurskoðunar geti veitt stofnunum ríkisins aðhald og gætt að því að fjárlögum sé fylgt. En þá þarf að fylgja því fjármagn til að hægt sé að sinna þessum verkefnum.

Virðulegi forseti. Það er mjög merkilegt að hér inni eru óskir frá forseta Alþingis, um tækjakaup vegna komandi kosninga og nýrra þingmanna, sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki enn séð sér fært að afgreiða. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki enn séð sér fært að afgreiða erindi frá forseta þingsins á sama hátt og gert var með tillögur framkvæmdarvaldsins, sem meiri hlutinn ákvað að gera að sínum. Ég segi enn og aftur: Þetta er þjónkun við framkvæmdarvaldið og virðingarleysi við Alþingi.