141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram umræðum við 2. umr. fjárlaga. Menn reyna nú að setja málin í línulegt samhengi og ég tek undir orð þingflokksformanns okkar sjálfstæðismanna að það skiptir í rauninni ekki máli hversu mikill tími settur er í umræðuna, það er innihaldið sem gildir. Ég fullyrði að við hefðum komist ansi langt með umræðuna í gær og jafnvel klárað hana ef ráðherrar í ríkisstjórn hefðu svarað einföldum spurningum sem tengjast fjárlagaumræðunni. Ég veit það núna að bæði hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. velferðarráðherra, sem ég kallaði mjög eftir í nótt, eru í húsi. Ég fór yfir statistík síðustu 20 ára í þessum efnum og það heyrir til algerrar undantekningar að ráðherrar tjái sig ekki við 2. umr. fjárlaga. Meira að segja hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki tjáð sig við 2. umr. fjárlaga. Ég held að það hafi bara aldrei gerst, alla vega ekki síðustu 20 árin.

Ég og aðrir sjálfstæðismenn höfum bent á þau miklu áhrif sem fjárlagafrumvarpið mun hafa á fyrirtækin í landinu með þeirri skattahækkunarstefnu sem ríkisstjórnin birtir í þar og líka í bandorminum sem við munum brátt ræða. Við höfum bent á hvaða áhrif þessi stefna mun hafa á hag heimilanna. Það var afar aumkunarvert að fylgjast með hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma áðan, í orðaskiptum við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, þar sem rætt var um auknar álögur á heimilin. Hér er ekki um að ræða einhver hundruð milljóna, hér er um milljarða að ræða sem verið er að leggja á heimilin og meira að segja forsætisráðherra áttar sig ekki á samhengi hlutanna hvað það varðar. Hún áttar sig ekki á því að verið er að stórauka álögur á heimilin í formi bensíngjalda. Það er líka hægt að tala um sykurskattinn svokallaða o.fl., allt kemur það frá sömu ríkisstjórninni sem hefur algjörlega mistekist að koma til móts við heimilin og leysa skuldavanda þeirra þó að hún hafi um tíma sýnt viðleitni í þá átt.

Hvað gerir ríkisstjórnin með þessu fjárlagafrumvarpi? Hún eykur skuldavanda heimilanna og það var eiginlega sorglegt að upplifa að hæstv. forsætisráðherra áttaði sig ekki á því að allar þessar hækkanir fara beint út í verðlagið, þ.e. hækkanir á áfengi og bensíni og svo öll gjöldin, ég talaði um sykurskattinn og fleiri gjöld, sem eru svo mörg að ég hef ekki tölu á þeim. Hvað þýðir það? Það þýðir að lán heimilanna vaxa þannig að ríkisstjórnin leysir ekki þann skuldavanda sem svo brýnt er að leysa með fjárlögunum og bandorminum. Og svo er verið að skamma okkur fyrir að ræða fjárlögin og benda á augljósar staðreyndir, m.a. á það sem forustumenn ASÍ hafa sagt um frumvarpið, og þeir eru nú ekki innmúraðir og innvígðir í Sjálfstæðisflokkinn. Þeir hafa sagt að eins og fjárlagafrumvarpið sé núna muni það setja kjarasamninga í uppnám. Það er eins og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar, sem hafa ekki talað einu sinni við 2. umr. fjárlaga, þeir ekki komið hingað og svarað spurningum, veiti því ekki athygli hvaða áhrif fjárlagafrumvarpið getur haft á kjarasamninga.

Við sjálfstæðismenn settum strax skýra stefnu í kjölfar hrunsins, við höfðum forustu um að setja neyðarlögin, sem núverandi ráðherrar í ríkisstjórn studdu ekki á sínum tíma. Við höfðum forustu um að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem forustumenn í núverandi ríkisstjórn studdu ekki, og síðustu 15–18 árin vorum við oft og tíðum gagnrýnd fyrir að greiða niður skuldir ríkissjóðs þannig að ríkissjóður var hallalaus þegar hrunið skall á. Þau þrjú atriði höfðu algjöra lykilþýðingu fyrir okkur til að bregðast við því neyðarástandi sem upp kom 2008 og 2009. Ekki er hægt að segja að núverandi stjórnarflokkar hafi fókuserað á þá þætti.

Í framhaldi af því lögðum við sjálfstæðismenn til að hagvaxtarleiðin yrði farin, en það var sú leið sem við töldum réttast að reyna að fara til að takast á við það gríðarlega verkefni að auka hagvöxt með því að skapa vinnu, auka verðmætasköpun, þá sæjum við fram á aukinn hagvöxt til lengri og skemmri tíma. Við lögðum áherslu á það í atvinnustefnu okkar að landið er ríkt af auðlindum og okkur bæri að nota þær í þágu núverandi kynslóðar og kynslóða framtíðarinnar, en við lögðum líka áherslu á að fara í uppstokkun á menntakerfinu sem allir stjórnmálaflokkar hafa staðið að, til að vinna gegn brottfalli. Brottfall hefur gríðarlegan kostnað í för með sér fyrir samfélagið allt. Við vildum í öðru lagi stuðla að framgangi iðn- og starfsnáms og í þriðja lagi vildum við stytta námstíma til stúdentsprófs. Það markmið var alveg skýrt af okkar hálfu því að með því að gera það mundum við stuðla að auknum hagvexti samhliða því að byggja upp og hlúa vel að rannsóknarsjóðum okkar Íslendinga. Það að eykur hagvöxt til lengri tíma.

Hvað gerði ríkisstjórnin? Hún frestaði því öllu. Hún frestaði því að byggja upp hagvöxtinn, sem þýðir að vandamál okkar í dag eru mun meiri en ef við hefðum farið þessa leið. Af því að ríkisstjórnin fór ekki svokallaða hagvaxtarleið er íslenska hagkerfið að minnsta kosti 100 milljónum kr. minna en það ætti að vera og afleiðingarnar eru öllum ljósar. Lífskjör almennings eru verri, tekjur ríkissjóðs eru miklu lægri og atvinnuleysi meira og skuldir hærri. Þetta er spurningin um stefnuna hverju sinni og ég hefði kosið að stefna okkar hefði verið valin.

Ég vík nú að þeim spurningum sem ég tel enn þá vera ósvarað, og ég bind vonir við að hæstv. ráðherrar birtist við 3. umr. fjárlaga. Þær tengjast framlögum til löggæslunnar, heilbrigðismála og menntamála. Ég vil sérstaklega nefna þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur sett fram og meiri hluti fjárlaganefndar gert að sínum. Vert er að vekja aftur athygli á því sem ég benti á í umræðum í nótt, að meiri hluti fjárlaganefndar tekur eingöngu tillögur ríkisstjórnarinnar, framkvæmdarvaldsins, eftir 1. umr. fjárlaga og forgangsraðar þeim í umræðunni á Alþingi en tillögur forsætisnefndar, með forseta Alþingis í broddi fylkingar, eru algjörlega látnar sitja á hakanum.

Ég spurði í nótt: Skyldi það vera vegna óvæginnar gagnrýni af hálfu umboðsmanns Alþingis en ekki síst af hálfu Ríkisendurskoðunar á ríkisstjórnina? Það verður forvitnilegt að fylgjast með því við 3. umr. fjárlaga hvernig meiri hluti fjárlaganefndar, með hv. þm. Björn Val Gíslason í broddi fylkingar, sem hefur verið mjög óvæginn og með mjög ósanngjarna gagnrýni á Ríkisendurskoðun, mun bregðast við tillögum forsætisnefndar varðandi framlög til Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Þeim hefur greinilega sviðið sú gagnrýni sem Ríkisendurskoðun setti fram á hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, þáverandi fjármálaráðherra. Hægt væri að nefna Árbótarmálið og ýmis önnur mál, stór sem smá, sem þau hafa verið gagnrýnd fyrir í gegnum tíðina af hálfu Ríkisendurskoðunar. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því.

Ég kem alltaf aftur að því sem ég hef miklar áhyggjur af, það eru löggæslumálin. Ég hef ekki fengið viðbrögð frá hæstv. innanríkisráðherra. Þegar maður fer yfir þær tillögur sem liggja fyrir núna eftir umfjöllun fjárlaganefndar sést að þar er ekki brýnustu þörfunum sinnt þegar kemur að fjárveitingum til löggæslunnar. Telur hæstv. innanríkisráðherra að hann sem ábyrgðarmaður og framkvæmdarvaldshafi, yfirmaður löggæslunnar, geti með staðið undir þeirri lögbundnu þjónustu sem löggæslan á að sinna alla jafna? Fólkið í landinu krefst þess að lögreglan sé sýnileg, að hún sinni því hlutverki sem ætlast er til að hún sinni. Lögreglan vill gera allt til þess að svo verði en hún hefur ekki fjármagn í það og hefur ekki haft það fram til þessa. Hver gesturinn á fætur öðrum hefur bent á það, ekki síst ráðuneytið, og þess vegna hefði verið forvitnilegt ef hæstv. innanríkisráðherra hefði tekið þátt í þeirri umræðu, þótt það hefði ekki verið nema í fimm mínútur, og svarað spurningum okkar sjálfstæðismanna um hvort nægilega sé að gert með þessum tillögum til að koma til móts við brýnan og erfiðan vanda löggæslunnar. Ekki fáum við neitt svar við því frekar en öðru.