141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari ræðu minni ætla ég að tala um veiðigjald. Veiðigjald býr til hluta tekjuhliðarinnar í fjárlagafrumvarpinu. Ég vil halda því fram að veiðigjaldið sé óréttlátur skattur, það sé landsbyggðarskattur, það sé vanhugsaður skattur og að það geti, eins og það er útfært, leitt okkur Íslendinga í miklar ógöngur í framtíðinni. Ég ætla að taka einföld dæmi til að útskýra þetta betur.

Í Fjallabyggð er fyrirtæki sem heitir Rammi. Veiðigjaldið sem Rammi á að borga á þessu ári er rúmar 500 millj. kr. Þetta veiðigjald leiðir til þess að fyrirtækið mun geta staðið undir vöxtum á lánum sem hvíla á því en það mun ekki geta staðið undir afborgunum. Á næsta fiskveiðiári mun þetta gjald hjá Ramma hækka í 700 milljónir. Þá mun Rammi ekki geta borgað nema hluta af vöxtum af lánum en engar afborganir. Þarnæsta ár, þegar veiðigjaldið er komið að fullu inn, mun Rammi borga 900 millj. kr. og fyrirtækið mun ekki geta staðið undir vöxtum og ekki afborgunum og er mat forráðamanna fyrirtækisins að það muni fara á hausinn á fimm árum.

Rammi myndar grunnatvinnuveginn í Fjallabyggð, á Siglufirði. Hjá fyrirtækinu vinnur fjöldi fólks bæði í landi og á sjó og með veiðigjaldinu verður fótunum kippt undan fyrirtækinu. Fólkið mun missa vinnuna og Fjallabyggð verður næsta Raufarhöfn. Þetta eru afleiðingar gjörða stjórnmálamanna sem hafa ekki yfirsýn yfir hvað þeir eru að gera, en sumir stjórnmálamenn sem tilheyra stjórnarflokkunum vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera en þeim er sama, jafnvel þingmönnum kjördæmisins, vegna þess að það eru völdin sem skipta máli, ekki afkoma fólksins í byggðunum.

Ég ætla að taka annað dæmi. Í Grímsey búa 60 manns, hafa þar vetrarsetu. Í Grímsey er stundaður sjávarútvegur eins og í strandbyggðunum í kringum landið. Veiðigjaldið sem lagt var á Grímseyinga er rúmar 60 milljónir. Maður þarf ekki að vera góður í reikningi til að sjá að 60 deilt með 60 er 1 milljón á mann. Hver kona, hvert barn og hver maður þarf því að borga að meðaltali 1 milljón í veiðigjald þar.

Ég get tekið fleiri dæmi. Auðbjörg í Þorlákshöfn. Þar var veiðigjald hækkað. Áður en hækkunin varð borgaði það fyrirtæki 1 milljón á mánuði í veiðigjald en með breytingunum sem núverandi ríkisstjórn innleiddi greiðir það 1 milljón á mánuði. Í dag var tilkynnt að 27 manns hefði verið sagt upp til að fyrirtækið færi ekki lóðrétt á höfuðið.

Ég get tekið fleiri dæmi. Á Siglufirði gera menn út og eru með þó nokkuð af fólki í vinnu. Hjá Siglunesi hefur veiðigjaldið og reyndar samdráttur í afla leitt til þess að þar er búið að segja upp 35 manns.

Þetta er saga sjávarbyggðanna. Þetta eru afleiðingar veiðigjaldsins sem var lagt á og á að fjármagna fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem er kynnt í fjárlagafrumvarpinu, verkefni eins og grænkun íslenskra fyrirtækja, græn skref og græn innkaup hjá ríkisstofnunum. Það á að byggja hús íslenskra fræða fyrir þessa fjármuni. Með því er ég ekki að gera lítið úr húsi íslenskra fræða vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum verið algjörir stuðningsmenn þess húss, en það er ekki tímabært að fara í þá framkvæmd þegar ekki eru til peningar. Við viljum bíða með hana þar til fjárhagur ríkissjóðs leyfir. Við viljum ekki að fólki hjá Auðbjörgu, Siglunesi, Ramma, Grímsey og á sjávarstöðunum hringinn í kringum landið verði sagt upp til þess að hægt verði að byggja það hús — það viljum við ekki.

Tekjuhlið þessa frumvarps er vanhugsuð. Hún dregur máttinn úr fyrirtækjunum og leiðir til þess að minni fjárfesting verður í landinu en ella. Hún leiðir til þess að fyrirtæki segja upp fólki í þeirri von að þau geti einhvern veginn náð í gegnum brimskaflinn. Þetta er grafalvarlegt mál.

Það er brýnt að hér komist til valda stjórnmálamenn sem skilja á hverju lífið í landinu grundvallast, á hverju efnahagsleg velmegun okkar Íslendinga er byggð og að hér er ekki, eins og hæstv. forsætisráðherra hélt fram fyrr í dag, svo gríðarleg framlegð í sjávarútvegi að hægt sé að skattleggja greinina úr öllu hófi og það hafi engar afleiðingar.

Þetta kerfi er byggt upp þannig að miðað er við framlegð ársins á undan og það er skattstofninn sem er lagður á. Skattstofninn fyrir þetta ár er sem sagt árið í fyrra og á þessu ári eru gríðarlegar verðlækkanir á mörkuðum. Það eru að safnast upp birgðir og það er að verða slæmt ástand í sjávarútvegi, sérstaklega í bolfiskveiðum, sem mun leiða til þess að fæst fyrirtæki munu hafa afkomu eða framlegð sem er í nokkru samræmi við það sem hún var í fyrra. Þetta virðist hæstv. forsætisráðherra ekki taka með í reikninginn enda sjáum við afleiðingarnar af þessu háttalagi. Það er verið að segja upp fólki í sjávarbyggðunum í kringum landið. Fólk er að verða atvinnulaust vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar þar sem er sagt berum orðum að veiðigjöldin séu lögð á til þess að standa undir gæluverkefnum sem mun verða dreift af gullvagni ríkisstjórnarinnar þegar hann fer hringinn í kringum landið í þeirri von að hægt sé að glepja kjósendur til að kjósa aftur það fólk sem er búið að koma okkur í þær ógöngur sem við stöndum frammi fyrir núna. Þetta er hneyksli. (Gripið fram í: Hárrétt.)