141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það líður að lokum 2. umr. fjárlaga og málið fer þá áfram til hinnar þriðju.

Við höfum í þeirri umræðu, sem staðið hefur þó nokkuð lengi, farið yfir nokkra lykilþætti sem við teljum að hafi verið mjög gagnrýnisverðir. Fyrst vil ég nefna málsmeðferðina alla, að málið skuli hafa verið tekið út úr fjárlaganefnd áður en tekjuhlið frumvarpsins var kynnt fyrir nefndinni er í raun og veru alveg ótrúlegt. Að tekjuhlið frumvarpsins skuli ekki liggja til grundvallar 2. umr. og afgreiðslu nefndarinnar er með ólíkindum. Við höfum farið yfir það.

Það hefur verið sagt í umræðunni undanfarna daga að af því að hún hafi staðið lengi væru jafnvel launagreiðslur opinberra starfsmanna í upphafi næsta árs í uppnámi. Auðvitað er það ekkert annað en ómerkilegur hræðsluáróður enda hefur 2. umr. á undanförnum árum oft á tíðum staðið yfir þegar lengra er liðið á desembermánuð. Það vildi ég segja um lengd umræðunnar og þá afgreiðslu sem málið hlaut í nefndinni. Auðvitað skiptir hin efnislega gagnrýni sem við höfum fengið tækifæri til að koma á framfæri í 2. umr. langmestu máli.

Þar ber að sjálfsögðu hæst að við teljum að gjöld ríkissjóðs séu vantalin eins og þau munu birtast á næsta ári og við höfum tiltekið nokkra stóra liði í því samhengi. Í fyrsta lagi er það staða Íbúðalánasjóðs. Það hefur síðan komið á daginn undanfarið að ríkisstjórnin hyggst leggja aukna fjármuni til Íbúðalánasjóðs til að byggja betur undir lágmarkseiginfjárgrunn sjóðsins. Vandi hans hefur hins vegar verið til umræðu meira eða minna allt þetta ár og hann hefur legið fyrir í allt haust. Þess vegna er með ólíkindum og mjög gagnrýnisvert að sá liður skyldi ekki hafa fylgt með í frumvarpinu frá upphafi.

Annað dæmi um vanreiknuð útgjöld ríkissjóðs eru ábendingar ríkisendurskoðanda sem komu fram fyrir örfáum dögum þar sem bent er á að áfallnar lífeyrisskuldbindingar vegna LSR séu að minnsta kosti 10 milljarðar og þeirra sé ekki heldur getið í fjárlagafrumvarpinu. Það er annar liður sem er gagnrýnisvert að ekki sé tekinn með. Ég gæti haldið áfram að telja upp liði og nefnt Landspítalann þar sem boðað er að ríkisstjórnin hyggist fara í einhverjar útgjaldafrekar framkvæmdir en það liggur ekki nákvæmlega fyrir á þessari stundu. Ég gæti nefnt löggæslumálin þar sem öllum ætti að vera ljóst að þurfi að koma til auknir fjármunir. Allt eru það dæmi um liði sem við höfum bent á í umræðunni að séu vantaldir. Þess vegna er heildarniðurstaðan í frumvarpinu að okkar áliti í besta falli óskhyggja. Hún er óraunsæ að okkar mati og engar líkur eru til þess að ríkissjóður verði rekinn með heildarjöfnuði sem verður einhvers staðar nálægt núllinu á næsta ári. Við teljum að líkurnar standi til að hið sama gerist á næsta ári og hefur gerst undanfarin ár, að stjórnvöld ofmeti stöðuna stórkostlega. Undanfarin ár hefur það ítrekað gerst að niðurstaðan hefur verið tugum milljarða verri en lagt var upp með í fjárlögum. Það mun endurtaka sig að okkar áliti.

Síðan höfum við tekið nokkra lykilþætti til sérstakrar umfjöllunar í umræðunni sem tilheyra henni ávallt þegar lögð eru fram fjárlög á Alþingi. Þar má nefna sem dæmi ábendingar sem hafa komið fram í umræðunni, eða í vinnu nefndarinnar, um að fjárlagafrumvarpið sé verðbólguhvetjandi og setji stöðuna á vinnumarkaði í visst uppnám. Ábendingar um það hafa til dæmis komið frá Samtökum atvinnulífsins. Nýleg vaxtahækkun Seðlabankans verður líka að koma inn í umræðuna. Menn verða að velta því fyrir sér hvort það sem er yfir höfuð verið að gera í opinberum fjármálum sé í einhverjum takti við það sem Seðlabankinn er að reyna að gera, að halda verðbólgunni niðri. Ákvörðun um vaxtahækkun hjá Seðlabankanum er til merkis um að menn nái ekki tökum á vandanum.

Frá því að þetta fjárlagafrumvarp var lagt fram hafa aðilar eins og ASÍ og Samtök atvinnulífsins bent á fjölmarga veikleika. Ég nefni sem dæmi þann samanburð sem gerður hefur verið af hálfu Samtaka atvinnulífsins á fjárlögum ársins 2009 og því sem hér er til umræðu, hvernig útgjaldaliðirnir og tekjuliðirnir hafa verið að breytast. Í mjög grófum dráttum má segja að sóttir hafa verið tæpir 90 milljarðar með nýjum sköttum, nýrri skattlagningu, ekki þeirri skattlagningu sem birtist bara í þessu frumvarpi heldur sem hefur komið fram ár eftir ár. Aðhaldshliðinni megi skipta í tvennt, annars vegar í samdrátt í opinberum fjárfestingum og hins vegar í aðhaldsaðgerðir sem hafa skilað sparnaði. Aðhaldsaðgerðirnar eru í mjög grófum dráttum: Samdráttur í opinberri fjárfestingu, u.þ.b. 30 milljarðar, og aðhaldsaðgerðir sem skila varanlegum sparnaði, aðrir 30 milljarðar. Það er allt aðhaldið, öll hagræðingin sem náðst hefur yfir allt það árabil samkvæmt því sem hefur komið fram í þeim umsögnum.

Við höfum vakið athygli á því í umræðunni að vöruskiptaafgangur eins og hann hefur verið að þróast á þessu ári er okkur mikið áhyggjuefni. 40% samdráttur í vöruskiptaafgangi fyrstu níu mánuði ársins er verulegt áhyggjuefni, ekki síst í því ljósi að við þurfum á komandi árum að stórauka útflutningstekjurnar til að geta afnumið höftin og hafið niðurgreiðslu skulda. Talandi um skuldir þá hafa vaxtagjöld ríkissjóðs farið vaxandi ár frá ári. Á árinu 2009 voru þau 84 milljarðar, þ.e. árið eftir fall bankanna. Þau lækkuðu niður í 68 árið 2010, svo voru þau 65 og byrjuðu síðan aftur að stíga upp í 76 milljarða í fyrra. Í þessu frumvarpi erum við aftur komin með vaxtagjöldin upp í 84 milljarða. Þannig hefur vaxtajöfnuðurinn, þ.e. vaxtagreiðslur okkar þar sem tekið hefur verið tillit til vaxtatekna, mismunur á vaxtatekjum og vaxtagjöldum verið að vaxa á undanförnum árum úr 46 milljörðum 2011, í 55 milljarða 2012 og í þessu frumvarpi greiðum við 63 milljarðar á ári í vexti umfram það sem við höfum í vaxtatekjur.

Það er tala sem verður einfaldlega að lækka á komandi árum. Það er bara ein leið til að lækka hana og það er með því að greiða niður skuldir. Liður í því er að sjálfsögðu að finna lausn á gjaldeyrishöftunum þannig að við séum ekki með óþarflega stóra sjóði að baki gjaldeyrisvaraforðanum sem við þurfum að greiða vexti af. Grundvallaratriðið er aðhald í ríkisfjármálunum og auknar útflutningstekjur.

Það tengist efnahagsstefnu stjórnarinnar. Það sem hefur mistekist, eins og við höfum svo margoft bent á á þessu kjörtímabili og ítrekað í umræðunni, er vegna getuleysis ríkisstjórnarinnar til að skapa hvetjandi umhverfi fyrir nýjar fjárfestingar og hagvöxt sem drifinn er áfram af nýrri fjárfestingu í gjaldeyrisskapandi greinum. Þar er auðvitað nærtækt að benda á orkugeirann, á það ástand sem hefur verið viðvarandi í sjávarútvegi og það er að sjálfsögðu eðlilegt að taka líka með þær árásir sem birtast þetta haust gagnvart ferðaþjónustunni í landinu. Að lokum verðum við að gera miklu betur gagnvart skapandi greinum og alls kyns verk- og iðngreinum sem fela í sér gríðarlega mikil vaxtartækifæri en hefur alls ekki verið sinnt af núverandi ríkisstjórn. Allt eru það atriði sem hefur verið nauðsynlegt að taka með í umræðuna þegar fjárlagafrumvarpið er til 2. umr.

Við í Sjálfstæðisflokknum höfum í þeirri umræðu lagt til grundvallar nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar sem er ítarlegt. Þar er tekin saman heilmikil greinargerð þar sem öllum þeim sjónarmiðum sem ég hef rakið er komið á framfæri og mörgum fleiri. Þar er til dæmis færð fram gagnrýni á fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og ég hef í fyrri ræðu minni vakið athygli á því hversu miklar umbúðir eru þar utan um lítið innihald. Fjárfestingar stjórnarinnar á komandi árum stefna í að vera hinar minnstu í 70 ár en engu að síður er blásið til blaðamannafunda og tilkynningar sendar út eins og menn séu að ná einhverjum tímamótaárangri.

Það er mikið áhyggjuefni hversu mjög hefur dregið úr getu ríkisins til að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum samfélagsins. Eins og ég kom inn á rétt áðan er það að stórum hluta til vegna þess að mistekist hefur að koma af stað nýju hagvaxtarskeiði og menn hafa ekki gert nægilega mikið í því að draga úr varanlegum rekstrargjöldum og öðrum tilfærslum. Það er einfaldlega nauðsynlegt að ná betri árangri á því sviði þótt það geti verið erfitt viðfangsefni og flókið. Ég nefni í því samhengi þær hörmungar sem hafa í raun og veru dunið yfir einkageirann á Íslandi á undanförnum fjórum árum. Það hafa um það bil 15 þúsund störf tapast í einkageiranum á meðan tiltölulega fá hafa tapast í opinbera geiranum. Þegar ég segi tiltölulega fá er ég í raun og veru að tala um að nánast engin störf hafa tapast í opinbera geiranum í samanburði við það sem hefur gerst í einkageiranum. Það hlýtur að vera okkur mikið umhugsunarefni og mönnum tilefni til að velta því fyrir sér hvernig hægt er að fá meiri þjónustu fyrir minna framlag. Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki haldið áfram á þeirri braut að sífellt færri einstaklingar vinni í einkageiranum á móti hverju opinberu starfi. Það séu sífellt færri Íslendingar að vinna í verðmætaskapandi greinum á móti þeim sem starfa við að veita opinbera þjónustu. Það er þróun sem verður einfaldlega að vinda ofan af.

Við höfum líka tekið ýmis önnur atriði eins og einstaka liði fjárfestingaráætlunarinnar til umræðu. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa til þess sem áður hefur verð sagt og fram kemur í nefndarálitinu sem er ítarlegt að því leytinu til. Ég vil að öðru leyti þakka fyrir ágætlega málefnalega umræðu. Hún hefur á köflum farið aðeins út af sporinu vegna gagnrýni á lengd umræðunnar en það hafa ekki verið nokkrar einustu innstæður fyrir því að mínu áliti. Hér hefur einfaldlega átt sér stað umræða um fjárlög sem samkvæmt þingsköpum er ávallt með tvöföldum ræðutíma og þess vegna er ástæða til að gera ráð fyrir því að umræðan taki sinn tíma.