141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í frumvarpinu eru tillögur að breytingum á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2013, en einnig útgjaldahlið frumvarpsins í vissum tilvikum.

Breytingum frumvarpsins má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem ætlað er að skila ríkissjóði nýjum tekjum. Í öðru lagi eru í frumvarpinu breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka þær frá því sem er á þessu ári. Í þriðja lagi eru breytingar sem snúa að aðgerðum stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga. Í fjórða lagi eru tillögur um hækkun á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins auk smærri breytinga af ýmsu tagi.

Þarna er því um að ræða ýmsar hækkanir en einnig lækkanir og afnám ýmissa skatta. Breytingarnar í heild munu skila 600 millj. kr. í tekjur fyrir ríkissjóð umfram verðlag.

Fyrst mun ég fjalla um sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem ætlað er að skila ríkissjóði nýjum tekjum. Tekjuöflunaraðgerðirnar eru hvort tveggja í senn forsendur fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár og mikilvægur þáttur í stefnu stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum.

Lagt er til að skattþrep virðisaukaskatts á útleigu hótel- og gistiherbergja verði fært úr lægra skattþrepi virðisaukaskatts, þ.e. 7%, í nýtt 14% skattþrep. Gert er ráð fyrir að það skili 1,1 milljarði í ríkissjóð á næsta ári.

Gistiþjónusta hefur verið í lægra virðisaukaskattsþrepi ásamt matvælum, menningarefni og húshitun. Sú niðurstaða að leggja nú til 14% virðisaukaskatt á þá þjónustu byggir ekki síst á því að við höfum ríkan vilja til að koma til móts við þá gagnrýni og þau sjónarmið rekstraraðila að við verðum að vera samkeppnishæf gagnvart nágrannalöndum okkar. Því er fallið frá þeim forsendum sem lagt var upp með í forsendum fjárlagafrumvarpsins, að fara með skattinn í 25,5%, sem hefði skilað 2,6 milljörðum kr. Þær fyrirætlanir eru lækkaðar í 14% skattþrep sem er sama þrep og ferðaþjónustan var í til ársins 2007. Þar af leiðandi verður ríkissjóður af tekjum upp á 1,5 milljarða.

Ferðaþjónustan í heild samanstendur af fjölda greina sem samanlagt búa við mjög hagstætt og fyllilega samkeppnishæft umhverfi þegar litið er til nágrannaþjóða okkar. Það er afar öflug þjónustugrein og hefur náðst gríðarlegur árangur í því að efla ferðaþjónustuna með hinum ýmsu aðgerðum á undanförnum árum. Aðgerðir stjórnvalda með ferðaþjónustunni hafa skilað verulegum árangri og verulegri aukningu ferðamanna á undanförnum árum. Þar mætti helst að nefna markaðsátakið Ísland allt árið, sem við höfum ráðist í og erum enn að vinna að með ferðaþjónustunni til að tryggja að tekjur fáist af ferðaþjónustu og menn geti haft tekjur af ferðaþjónustunni allt árið allt nokkuð jafnar en verið hefur. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 750 milljónum til viðbótar á milli umræðna í uppbyggingu á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum en ferðaþjónustan hefur mikið kallað eftir því.

Jafnframt er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að fjármunir fari í hert skatteftirlit til að tryggja að gistiþjónustuseljendur á hótelunum séu ekki í samkeppni við þá sem ekki falla undir sambærilegt skattkerfi. Í það munum við ráðast samhliða.

Mikil fjölgun gistinátta hefur verið undanfarin ár. Gistinóttum fjölgaði um 13% á árinu 2011 og fyrstu sex mánuðina þessa árs hefur þeim fjölgað um 23% miðað við sama tíma árið áður. Með vísan til aukningar í sölu gistinátta er nú talið heppilegt að færa sölu gistinátta úr lægra þrepi virðisaukaskattsins í 14% þrepið þar sem hún var áður, í staðinn fyrir að færa söluna í almenna skattþrepið eins og gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins.

Verði frumvarpið að lögum mun tryggingagjaldið lækka um 0,1 prósentustig milli ára. Það er líka frávik til lækkunar miðað við það sem boðað var í forsendum fjárlagafrumvarpsins og í fjárlagafrumvarpinu, en þar var lagt upp með að gjaldið yrði óbreytt. Það er breytt í þessu frumvarpi þannig að það mun lækka um 0,1 prósentustig milli ára. Þar er annars vegar um að ræða að lögð er til 0,3 prósentustiga hækkun á almannatryggingagjaldinu. Hins vegar er lögð til 0,4 prósentustiga lækkun á atvinnutryggingagjaldinu. Hækkun almannatryggingagjaldsins er hugsuð til þess að mæta vaxandi útgjöldum í almannatryggingakerfinu. Útgjöld til lífeyristrygginga hafa aukist ár frá ári umfram það sem áætlanir hafa gert ráð fyrir. Stafar sú þróun einkum af lækkandi fjármagnstekjum bótaþega á síðustu árum. Nemur útgjaldaaukningin í fjárlagafrumvarpi ársins 2013 alls 2,5 milljörðum kr. að undanskildum verðlagshækkunum. Af þeirri fjárhæð er 1 milljarður til kominn vegna samkomulags um víxlverkun bóta og lífeyrissjóðsgreiðslna og hækkun frítekjumarks fjármagnstekna hjá ellilífeyrisþegum. Má þannig halda því fram að um 1,5 milljarðar kr. séu komnir til vegna fjölgunar bótaþega og endurmetinnar fjárþarfar lífeyristrygginga á árinu 2013.

Eins og fyrr segir kemur lækkun á atvinnutryggingahluta gjaldsins á móti vegna lægri framlaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sú lækkun þýðir að um 1 milljarður kemur þar til lækkunar í fjárlagafrumvarpinu sem þó nokkuð hefur hefur verið rætt um undanfarna viku.

Ofan á samanlagt atvinnutryggingagjald og almannatryggingagjald, þ.e. 7,34%, leggst markaðsgjald til Íslandsstofu, sem nemur 0,05% og gjald í Ábyrgðasjóð launa, sem nemur 0,3%. Heildargjaldið nemur þá 7,89% og lækkar þannig um 0,1 prósentustig milli ára. Varðandi markaðsgjaldið til Íslandsstofu er í frumvarpinu lagt til að svokölluðu bráðabirgðaákvæði vegna hennar verði haldið áfram og að í því verði ártölum bara breytt. Fyrir liggur á dagskrá fundarins frumvarp frá hæstv. utanríkisráðherra þar sem lagt er til að gengið verði lengra og legg ég til að það mál verði tekið fram fyrir þá tillögu sem kemur fram í bandorminum og að nefndin skoði það með jákvæðum huga að tillaga utanríkisráðherra verði ofan á.

Það breytir þó engu varðandi tölur, þar er eingöngu um formið á gjaldinu að ræða.

Lagt er til að tóbaksgjald hækki um 15% umfram verðlag, eða um það bil 20%, og lögð er til tvöföldun á gjaldi af neftóbaki. Þá er lagt til að skatthlutfall almenna fjársýsluskattsins hækki úr 5,45% í 6,75%. Það er nokkur breyting frá því sem kynnt var með fjárlagafrumvarpinu en þar var ætlunin að setja á tvö þrep, þ.e. eitt 10% þrep og eitt 20% þrep, í fjársýsluskattinn. Eins og fram kemur er fallið frá þeirri fyrirætlan. Við teljum að áhrifin á minni fjármálafyrirtækin af þeirri breytingu yrði of þung á þau fyrirtæki, þannig að lagt er til óbreytt fyrirkomulag frá þessu ári þar sem áfram er sérstakur skattur á hagnað umfram 1 milljarð. Síðan standi fjársýsluskatturinn bara í einni tölu og fari þá úr 5,45% í 6,75%.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að dregið verði úr þeim afslætti sem bílaleigur hafa notið af almennu vörugjaldi á ökutæki. Sú tillaga hefur verið umdeild og gagnrýnd af þeirra hálfu og því er lagt til í frumvarpinu, sem er breyting frá framlagningu fjárlagafrumvarpsins, að aðeins verði gengið hálfa leið og þannig komið til móts við þá gagnrýni, þ.e. að eingöngu fyrri hluti þessarar lækkunar verði lögfestur.

Einnig er gerð tillaga um að heimilt verði að sækja um að fá greiddan út séreignarsparnað upp að ákveðnu marki, samanlagt allt að 6.250.000 kr., á tímabilinu 1. janúar 2013 fram til 1. janúar 2014.

Þá er lagt til að fjármögnun lífeyrissjóða upp á 1,4 milljarða kr. af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu verði felld brott.

Þá eru uppi áform um að bæta sem kostur er skattskil, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja, með hertum aðgerðum skattyfirvalda og sér þess stað í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar milli umræðna sem ræddar hafa verið hér síðustu vikuna, með auknum framlögum til þar til bærra yfirvalda. Vonir standa til að þær aðgerðir skili tekjum inn í ríkissjóð á næsta ári. Þarna er jafnframt boðað, ekki síst að ósk ferðaþjónustunnar, hert skatteftirlit í ferðaþjónustu og einnig í gistingu sem ekki er hefðbundin hótelgisting.

Að auki verður við tekjuöflunaraðgerðir lagt fram sérfrumvarp til laga um vörugjald sem ætlað er líka að skila ríkissjóði viðbótartekjum á næsta ári. Það er á dagskrá á eftir þessu frumvarpi.

Þá mun ég fjalla um þær breytingar í frumvarpinu sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka þær frá því sem lagt er upp með á þessu ári. Þar er í fyrsta lagi um að ræða breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta. Lagt er til að gjaldtakan verði gerð varanleg hvað kolefnisgjald og gjald af sölu á heitu vatni varðar, en að raforkuskatturinn renni sitt skeið í núverandi mynd eftir þrjú ár.

Samtals er gjaldtökunni ætlað að skila ríkissjóði 5,9 milljörðum kr. á næsta ári. Þá er lagt til að gjald verði lagt á gas af jarðefnauppruna til viðbótar við þær tegundir eldsneytis sem bera kolefnisgjald í dag, en á hinn bóginn er fellt niður gjald af þotu- og flugvélaeldsneyti. Þá er lagt til að raforkuskatturinn hækki í takt við verðlag en kolefnisgjald og gjald af sölu á heitu vatni haldist óbreytt.

Í öðru lagi er lagt til að framlengd verði heimild til 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði um eitt ár sem lækkar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti um 1,5 milljarða kr. á ári. Þá er lagt til að gjald sem ætlað er að fjármagna hlut lífeyrissjóða í sérstakri tímabundinni vaxtaniðurgreiðslu, sem bókfæra hefði átt sem tekjur á næsta ári, verði fellt brott. Það hefði skilað ríkissjóði 1,6 milljörðum kr.

Í þriðja lagi er um að ræða breytingar sem hafa áhrif á útgjöld ríkisins. Þar má nefna sérstaka hækkun á barnabótum, í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um meiri og frekari stuðning við barnafjölskyldur í landinu, og sömuleiðis framlengingu á sérstakri 30% hækkun vaxtabóta um eitt ár til að mæta skuldugum heimilum. Þær lagabreytingar leiða til aukinna útgjalda hjá ríkissjóði. Hækkun barnabóta kostar ríkissjóð 2,5 milljarða kr. og óbreyttar vaxtabætur um 2 milljarða. Þá er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga þess efnis að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil út árið 2013, ella mundi hún falla niður í lok þessa árs.

Síðan eru það breytingar í frumvarpinu sem snúa að aðgerðum stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga. Ber fyrst að nefna lækkun tryggingagjaldsins um 0,1% sem ég hef farið yfir áður.

Þá er í frumvarpinu að finna tillögu um brottfall afdráttarskatts af vöxtum sem aðilar með skattalegt heimilisfesti erlendis hafa af íslenskum innstæðum eða verðbréfum. Sú breyting er talin rýra tekjur ríkissjóðs um 2,2 milljarða kr. á árinu 2013. Á það hefur verið bent og ástæðan fyrir því að það er gert er sú að skattlagning vaxtatekna erlendra aðila hér á landi væri, vegna staðlaðra ákvæða í alþjóðlegum lánasamningum, til þess fallin að hafa veruleg neikvæð áhrif á lánamöguleika íslenskra fyrirtækja. Skatturinn hefur í raun fyrst og fremst lagst á íslenska aðila þrátt fyrir að taka að efninu til til tekna erlendra aðila en kostnaði lánveitanda, líkt og afdráttarskatti á vaxtagreiðslur, hefur verið velt yfir á lántakann.

Jafnframt eru reglur um skattlagningu launþega sem starfa erlendis á vegum íslenskra vinnuveitenda rýmkaðar tímabundið og lögð er til sú breyting á gildandi lagaákvæðum skattalaga að litið verði á tekjur af afleiðusamningum sem söluhagnað í stað vaxta.

Þá hefur frumvarpið einnig að geyma tillögur um 4,6% hækkun á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Lagt er til að felld verði brott í áföngum heimild til 85% endurgreiðslu olíugjalds vegna almenningsvagna í áætlunarferðum, sem er hluti af samningi ríkis og sveitarfélaga frá fyrra vori. Mun ríkissjóður verja árlega 1 milljarði kr. til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í staðinn.

Aðrar breytingar í frumvarpinu eru tillögur um að tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds við skilmálabreytingar verði framlengdar um eitt ár, þ.e. til ársloka 2013. Framlengingin nær einnig til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda við skilmálabreytingar bílalána.

Þá er lagt til að sóknargjöld hækki og að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2013 gagnvart þjóðkirkjunni, samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, muni hækka um 79 milljónir. Einnig er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 0,9 milljónir á árinu samkvæmt sérstöku samkomulagi ríkis og kirkju.

Að lokum eru í frumvarpinu tillögur um að lagagrunnur að baki hlutverki tollstjóra sem samræmingar- og eftirlitsaðila gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs verði styrktur til að auka líkur á því að settum markmiðum við bætt skattskil, þar með talið greiðslu skatta, verði náð.

Virðulegi forseti. Það er erfitt að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir, eins og ráðstöfunartekjur heimila, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna, sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála og þar með tekjur ríkissjóðs, enda eru aðgerðirnar margvíslegar. Þá eru áhrif þeirra bæði bein og óbein sem koma ekki einungis fram á árinu 2013, heldur á næstu árum.

Nettólækkun tryggingagjaldsins ætti að hafa jákvæð áhrif þar sem hún leiðir til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja sem gerir þau betur í stakk búin til að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum. Hið sama má segja um hærri barnabætur og frekari útgreiðslur séreignarsparnaðar, framlengingu hækkunar á vaxtabótum og 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu vegna íbúðarhúsnæðis. Þegar allt er lagt saman ættu þær breytingar sem kynntar eru í þessu frumvarpi að hafa fremur jákvæð áhrif á árinu 2013 á ráðstöfunartekjur heimilanna og þar með eftirspurnina í hagkerfinu.

Áhrif hækkana á krónutölugjöld og gjaldskrár koma fyrst og fremst fram í hærra verðlagi. Hið sama gildir um hækkun tóbaksgjalds. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Gangi það mat eftir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna minnka samsvarandi, þ.e. um 0,2%. Á móti þessu vega hins vegar aðrar breytingar sem ég hef áður farið yfir.

Rétt er að hafa í huga að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu og breytingar á vörugjöldum bílaleigubifreiða hafa óveruleg áhrif á vísitölu neysluverðs.

Heildaráhrif frumvarpsins á einstaklinga og fyrirtæki ættu því að vera fremur jákvæð en hitt og eru þau tiltölulega almenn.

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að árétta að frumvarpið og breytingarnar í heild skila 600 milljónum í ríkissjóð umfram verðlag, en í allri umræðunni hefur eingöngu verið talað um hækkanirnar. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og síðan til 2. umr.