141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hversu mikið lánin muni hækka hjá almenningi í kjölfar þessara skatta- og gjaldahækkana. Það kom fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í dag, við tókum forskot á sæluna og ræddum þetta aðeins, að bara við hækkun á tóbaksgjaldinu er hækkunin 3 milljarðar kr. Síðan eru margar aðrar hækkanir þarna eins og áfengisgjaldið, eldsneytisgjaldið, vörugjald, útvegsgjald og annað slíkt. Ég þarf auðvitað ekki að fara yfir með hæstv. ráðherra hversu mikilvægt og stórt mál það er, skuldir heimilanna, og það er afskaplega mikilvægt að við vitum hvað við erum að ræða í þessu sambandi, hversu há upphæðin er, og síðan hvort ekki komi til greina að miða fjárlögin og þessar tekjur eða gjaldahækkanir út frá þeim verðtryggingarveruleika sem við erum í.