141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni er matið það að þetta geti haft áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs um 0,2%. Á móti kemur að 2 milljarðar til viðbótar eru settir í vaxtabæturnar og 2,5 milljarðar til viðbótar í barnabótakerfið til að mæta þessu. Það er mat að í heildina muni þetta frumvarp fremur hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimila en hitt. Menn eru að reyna að taka mið af því að það komi ekki högg á heimilin í landinu. Það er þess vegna sem barnabótum og vaxtabótum er miðað inn á heimili sem eru í vanda vegna hárra skulda og líka á barnmörg heimili, sem hefur sýnt sig í öllum úttektum að þarf sérstaklega að huga að og það er gert í þessum bandormi.