141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram hjá aðilum í ferðaþjónustu að þessar breytingar, þ.e. hærri skattar, munu hafa áhrif á uppbyggingu í ferðamannaiðnaðinum í landinu. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið hefði tekið eitthvað slíkt saman og hvaða áhrif þessi hækkun mundi hafa á þá uppbyggingu, því að í sjálfu sér mundu miklar tekjur koma samfara slíkri uppbyggingu. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur um hvort slík úttekt hafi verið gerð í ráðuneytinu.

Ég vil spyrja um annan þátt sem tengist ferðamannaiðnaðinum en það snertir vörugjald á bílaleigubíla, þar sem hækka á álögur á þessa tegund atvinnu um 500 millj. kr. Það hefur komið fram að þá standi jafnvel til að menn fresti því að kaupa nýja bíla og þar af leiðandi eldist flotinn. Hefur verið gerð einhver úttekt á áhrifum þessarar hækkunar? Þá kannski ekki síst með (Forseti hringir.) tilliti til þess að þessi floti mun eldast, með aukinni slysahættu eins og (Forseti hringir.) við þekkjum.