141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins með vörugjöldin á bílana og virðisaukaskattinn að við erum að reyna að koma til móts við þessa aðila í frumvarpinu með því að falla frá því að lögfesta seinni hluta lækkunarinnar, þ.e. á afslættinum sem þeir eru að fá. Það er von mín að það dugi til þess að menn geti haldið sínum áformum. Hins vegar er þetta eitthvað sem menn munu fara yfir í nefndinni, en ég hef ekki þá trú að það að lögfesta breytingu á helmingnum, þ.e. falla frá helmingnum af afslættinum, hafi jafnafdrifaríkar afleiðingar og hv. þingmaður lýsti hér áðan.

Varðandi gistinguna ítreka ég enn og aftur að við teljum að hækkun úr 7% virðisaukaskatti upp í 14% muni ekki hafa áhrif á ferðaþjónustuna og uppbyggingu hennar vegna þess að hér hefur orðið gríðarleg fjölgun ferðamanna. Hér eru áætlanir um fjölgun ferðamanna á næstu árum. Það hefur verið stórt markaðsátak í gangi til að fjölga hér ferðamönnum allt árið þannig að fjárfestingar aðila í gistirými og öðru tengdu ferðaþjónustu (Forseti hringir.) nýtast betur og jafnar yfir allt árið og það er náttúrlega (Forseti hringir.) markmiðið með þessu. Þessi breyting á ekki að hafa áhrif (Forseti hringir.) á það.