141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í raun og veru kemur mér á óvart hversu mörgum spurningum er ósvarað. Ráðuneytið getur ekki lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þingsins eitthvert yfirlit um það hvaða áhrif þessar breytingar hafa á skuldastöðu heimilanna. Hv. þingmaður nefndi hér að breytingin á tóbakinu muni ein og sér hækka lánastabba heimilanna um 3 milljarða. Nú á ég ekki lengur sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og verð því að spyrja: Gat ráðuneytið virkilega ekki komið með það sundurliðað hvaða áhrif þetta frumvarp mun hafa á skuldastöðu heimilanna? Við höfum flest talað um aðgerðir í þá veru að lækka skuldir heimilanna en ekki hækka. Þetta er fyrri spurningin.

Seinni spurningin snýr að ferðaþjónustunni. Við höfum séð gríðarleg mótmæli hjá mörgum sveitarfélögum í landinu, frá talsmönnum bílaleigufyrirtækja sem hafa tekið svo stórt upp í sig að segja að verði þessar breytingar festar í lög muni þetta hreinlega rústa þeim anga ferðaþjónustunnar sem snertir bílaleigubíla. Hefur eitthvað nýtt komið fram í þeim efnum?

Ég spyr hv. þingmann vegna þess hvernig hæstv. ráðherra leggur mál sitt fram. Þó að við getum bent á mikla fjölgun ferðamanna á undangengnum tveimur árum hlýtur maður að spyrja hvort það sé einhver ávísun á það að við getum gengið út frá því að sama fjölgun muni eiga sér stað á næstu árum. Hér er í grundvallaratriðum verið að breyta forsendum í þeirri atvinnugrein sem við ræðum mikið hér, sem er ferðaþjónustan. Telur hv. þingmaður að það standist einhverja skoðun að leggja hlutina svona út?