141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðir punktar hjá hv. þingmanni. Í sinni einföldustu mynd er það þannig að ef maður tekur skatta af fyrirtækjum nota þau ekki þá fjármuni til að borga laun eða til að fjárfesta. Þetta er nákvæmlega dæmi um það. Að vísu hefur gengið ágætlega að undanförnu hjá ýmsum ferðaþjónustuaðilum en flestir eru litlir einyrkjar og sérstaklega hótelin hafa barist í bökkum. Við þekkjum það úti um landið og höfum séð tölur um að þetta hefur verið mjög erfitt. Það hefur hins vegar verið vonarglæta vegna þess að ferðamönnum hefur fjölgað. Það hefur ekki verið barlómur, menn hafa bjargað sér og sumir stækkað og eflst. En þetta er mikið flækjustig og kostar mikla fjármuni sem við eigum alveg eftir að fara yfir.

Þetta er líka alveg ótrúlega illa undirbúið. Skattalagabreytingar í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru skipulagðar langt fram í tímann. Við getum ekki komið með þetta strax um áramótin þó að menn ætli að hafa þetta í mars, apríl eða maí. Það er samt ekki aðalatriðið, aðalatriðið er að við erum ekki búin að búa greinina undir þetta, við höfum ekki unnið með þessum aðilum að skattalagabreytingum. Það er enginn vafi að það má laga margt í þessu og sumt getur skilað tekjum.

Virðisaukaskattur er tvenns konar, annars vegar á gistingu og hins vegar á morgunmat. Almenna reglan er að menn kaupa gistingu og morgunmat saman. Það er ekki greypt í stein hvert hlutfallið á að vera svo við bara tökum eitt dæmi um flækjustigið.

Við sjáum hér skatta sem hafa gert það að verkum að tekjur verða minni, eignarskatt og auðlegðarskatt. Við vitum að fólk hefur farið til útlanda og þá fáum við ekkert af sköttunum þess, það eru aðrar þjóðir sem fá skatta þess fólks.

Of hár fjármagnstekjuskattur gerir það að verkum að fólk tekur í stórum stíl inneignir sínar úr bönkunum eins og við höfum séð í svari við fyrirspurn í þinginu. Veiðigjaldið (Forseti hringir.) þýðir bara að fólk verður atvinnulaust þegar gengið er eins hart fram og raun ber vitni. Við höfum séð það (Forseti hringir.) í umræðu í þinginu í dag.