141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Grískt ástand, sagði hv. þingmaður, hann getur bara flett því upp í ræðu sinni.

Ég held að við deilum ekki um það, ég og hv. þingmaður, að full ástæða getur verið til þess að grípa til ýmissa skattalegra ráðstafana til að örva fjárfestingu. Það getur líka verið full ástæða til þess að hækka tiltekna skatta ekki svo mikið að þeir dragi svo úr eftirspurninni þannig að af þeim skapist ekki nægilegar tekjur.

Staðreyndin er sú að skattar á Íslandi eru hinir lægstu á Norðurlöndum svo að verulegu munar. Ef það er metnaður Íslendinga að reka norrænt velferðarsamfélag, verandi með það skuldsetta þjóðarbú sem við höfum, þá er verkefnið í íslenskum stjórnmálum ekki að lækka skatta því að það að lækka skatta í landi þar sem skattar eru lægri en annars staðar á Norðurlöndum, þar sem þjóðarbúið er jafnframt jafnskuldsett og hér, er auðvitað ótvírætt um leið yfirlýsing um það að velferð á Íslandi eigi að vera minni en í nágrannalöndum okkar. Það er pólitík sem ég tel að sé ekki farsæl fyrir þessa þjóð að hafa í fyrirrúmi í landinu og þess vegna tel ég fulla ástæðu til að draga það sérstaklega fram að hinn nýi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík leggur á það höfuðáherslu að meginverkefnið í íslenskum stjórnmálum sé að lækka skatta í landi þar sem skattar eru lægstir á Norðurlöndum en skuldir sennilega mestar.