141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ísland fór ekki þá leið að skatta sig út úr vandanum. Ísland fór blandaða leið, annars vegar að auka tekjur ríkissjóðs og hins vegar að draga úr útgjöldum. Það var eina leiðin sem hægt var að fara þegar hallinn á ríkissjóði var yfir 2 millj. kr. á hvert einasta heimili í landinu. Það var ekki hægt að velja sér leið í þessum aðstæðum. Staðan var einfaldlega sú að það voru engir í heiminum tilbúnir til að fjármagna þann hallarekstur áfram, það var enginn tilbúinn til að lána fyrir honum áfram. Þess vegna varð að gera hvort tveggja, það varð að hækka skatta og draga úr útgjöldum. Sannarlega var það erfiður leiðangur en hann hefur skilað þeim ótrúlega árangri sem til að mynda skuldatryggingarálag Íslands endurspeglar.

Hv. þingmaður veit að skuldatryggingarálagið á ríkissjóði er gólfið sem allar fjárfestingar í landinu byggjast á. Það er rétt að hér féll öll fjárfesting niður strax eftir hrun. Það var auðvitað ekki síst vegna þess að það var útilokað að fá langtímafjármögnun á alþjóðlegum mörkuðum á nægilega hagstæðum kjörum til þess að það gæti staðið undir fjárfestingum. Þess vegna er það fyrsta verkefnið til að auka fjárfestingu í landinu að ná skuldatryggingarálaginu þangað niður sem það er komið og helst enn lengra niður til þess að gera það fýsilegt fyrir fyrirtæki að fara út og sækja lánsfé á þeim kjörum sem ríkissjóður hefur lagt grunn að með þeim erfiðu ákvörðunum sem hér hafa verið teknar í ríkisfjármálum og þannig verður fjárfesting tryggð.

Kúrfuna sem hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) þekki ég ágætlega og skal ræða hér um í síðara andsvari.