141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Skuldatryggingarálagið er vissulega góður mælikvarði á stöðu ríkissjóðs en engu að síður var ríkissjóður að bjóða út skuldabréf á almennum markaði erlendis, 1 milljarð dollara á 6% vöxtum — 6% vöxtum í dollurum — á sama tíma og húsnæðiskaupandi í New York gat tekið lán með töluvert mikið lægri vöxtum til jafnlangs tíma. Ríkissjóður Íslands var metinn verri kaupandi en íbúðarkaupandi, einstaklingur, í New York.

Ég held að hv. þingmaður sé dálítið blindur á það sem stendur honum fyrir hugskotssjónum, að árangurinn sé svo ótrúlegur og frábær að tekið sé eftir því um allan heim og að þetta hafi verið eina leiðin. Þetta var ekki eina leiðin. Við sjálfstæðismenn bentum á það að nota eign ríkisins í skattlagningu séreignarsjóðanna til að setja allt í gang á Íslandi. Það hefði eflaust tekist. Það er nefnilega þannig að þegar skattar eru lækkaðir á einstaklinga og fyrirtæki þá taka þau kipp við að framleiða og vinna meira.

Ég held því miður að það hafi verið stórkostleg mistök að fara leið skattlagningar og niðurskurðar. Það er allt í lagi að skera niður hjá ríkinu, ég er hlynntur því, en þá þarf að vera atvinna fyrir fólkið sem missir vinnuna, opinbera starfsmenn. Það hefur því miður ekki verið á Íslandi. Þess vegna hefur niðurskurðurinn orðið enn sársaukafyllri og fjöldi fólks hefur flutt úr landi. Við erum að missa mannauðinn til útlanda sem mér finnst mjög miður. Ég held að við höfum verið að gera mikil mistök og það verði erfitt að leiðrétta þau.