141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega þannig að vítt og breitt um landið og jafnvel hér á höfuðborgarsvæðinu hefur þessi rekstur oft og tíðum verið í járnum. Það eru margir, sérstaklega smærri aðilar á þessum markaði, sem hafa þurft að hafa verulega fyrir hlutunum meira að segja frá því fyrir hrun. Þær tillögur sem hér er verið að ræða um vega náttúrlega að grundvelli margra fyrirtækja. Við erum ekki bara að tala um stórar hótelkeðjur. Við erum oft að tala um lítil fjölskyldufyrirtæki sem hafa sína afkomu af því að selja ferðamönnum greiða og gistingu eftir efnum. Þetta hefur haft mjög slæm áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og ég held það hafi verið hv. þingmaður sem nefndi, hvort það var hjá Icelandair-hótelum, að það væru 15% færri bókanir núna en fyrir ári síðan. Það er enginn smáviðsnúningur í rekstri, heil 15% á ekki lengri tíma.

Maður veltir fyrir sér: Hvaða áhrif hafa skilaboð frá ríkisstjórninni um að hér eigi að hækka skatta á ferðaþjónustuna haft á atvinnuuppbygginguna? Eins og hv. þingmaður nefndi þá er búið að slá hótelbyggingum í Borgarfirði og Skagafirði á frest. Þetta eru náttúrlega mjög slæm tíðindi og í raun og veru hefur þetta skapað ólgu og óstöðugleika í kringum þessa atvinnugrein. Eitt er ljóst, að fjölmörg fyrirtæki eru nú þegar búin að selja gistingu út næsta ár. Hvar á að taka þá peninga? Það er búið að selja þessar ferðir, það er búið að selja þessi herbergi á tilteknu verði. Hver á að borga mismuninn á þessari skattlagningu? Það verða að sjálfsögðu fyrirtækin sjálf, sem þýðir að þau hafa minni möguleika á að greiða hærri laun eða standa í öðrum fjárfestingum. Það hlýtur að vera.