141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. tekjuöflunarhluta fjárlaganna, og ég verð að gera verulegar athugasemdir við það hvað þetta kemur seint fram. Samkvæmt nýjum þingsköpum á að leggja frumvarpið fram með fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram 11. september sl., fyrir 85 dögum.

Þetta frumvarp kom hins vegar fram 29. nóvember og það er í samræmi við bráðabirgðaákvæði í þingsköpunum að fyrir þetta ár þarf ekki að leggja það fram fyrr en seinna en mér finnst samt fulllangt gengið að leggja það fram þegar 2. umr. fjárlaga er í gangi og enginn tími vinnst til að skoða frumvarpið. Það er búið að liggja fyrir þinginu í sex daga. Meira að segja var bráðræðið slíkt að það var rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í morgun, með góðfúslegu leyfi stjórnarandstöðunnar sem ég fór fyrir, vegna þess að ég vildi liðka fyrir þessu máli þannig að ríkisstjórnin lenti ekki í algjörri hönk með það. Ég vonast til þess að menn haldi sig við þá reglu að tekjuöflunarfrumvörp fjárlaga verði lögð fram með fjárlagafrumvörpunum þannig að hægt sé að ræða frumvarp til fjárlaga í heild sinni.

Þetta er mjög viðamikið frumvarp upp á 40 greinar og tekur á óskaplega mörgum mismunandi lögum. Í fyrsta lagi má segja að það séu tekjuöflunaraðgerðir. Þær eru ýmsar og ég ætla að fara í gegnum þær á hundavaði.

Í fyrsta lagi er lagt til að tekið sé upp nýtt 14% þrep í virðisaukaskattskerfi sem er að mínu mati alveg nógu flókið fyrir. Virðisaukaskatturinn er í dag 25,5% sem er heimsmet í almennum virðisaukaskatti. Síðan er þarna komið nýtt þrep, 14% fyrir ferðaþjónustuna eingöngu, svo er 7% skattur sem er nokkuð víðtækur og svo er 0% skattur sem fáar vörutegundir falla þar undir. En svo eru líka stórir hlutar efnahagslífsins undanþegnir virðisaukaskatti, t.d. ferðafélög, laxveiðileyfi sem merkilegt nokk eru undanþegin virðisaukaskatti, heilbrigðisþjónustan eins og hún leggur sig og allt menntakerfið. Sú furðulega staða getur komið upp að hótel sem býður gistingu borgar fyrir hana 14% virðisaukaskatt, svo er það með mat sem er í 25,5% virðisaukaskattsþrepi, svo býður það fram námskeið um Ísland í borðsalnum og þar kemur starfsmaður sem kennir um Ísland og það er undanþegið virðisaukaskatti af því að það er innan menntakerfisins.

Þetta getur orðið mjög skrautlegt og menn geta nánast flutt kostnaðinn þangað sem þeir vilja. Þetta býður heim miklum möguleikum á undanskotum og rekst á síðasta þrepið í tekjuöfluninni sem var bætt skattskil. Það var rætt á fundinum í morgun hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd að bæði gestir frá ráðuneytinu og hagsmunaaðilar voru sammála um að nokkuð stór og vaxandi hluti í ferðaþjónustunni væri svört atvinnustarfsemi. Það helgast væntanlega af því að við erum með gjaldeyrishöft sem ýta undir svarta atvinnustarfsemi því að menn græða ekki bara skattinn heldur líka það að fá inn gjaldeyri á gengi Seðlabankans en aflandskrónugengið er töluvert lægra. Þeir hagnast sem sagt á því líka. Við búum við mjög slæma stöðu í þessu og hér er verið að flækja kerfið.

Það má segja að eftir að þessi ríkisstjórn tók við völdum fyrir þremur og hálfu ári hafi skattkerfið verið flækt alveg óhemjumikið. Menn hafa lagt sig í líma við að flækja umhverfi fyrirtækja þannig að þau hafi alveg nóg að gera.

Almennt tryggingagjald er hækkað um 0,3%. Sérstaka tryggingagjaldið lækkar af því að atvinnuleysið er að minnka og það minnkar vegna þess að margir eru fluttir til útlanda, margir komnir í nám og svo eru margir dottnir út úr bótakerfinu. Þar af leiðandi minnkar atvinnuleysið, gjöld ríkissjóðs minnka þarna megin og tryggingagjaldið er lækkað. Svo er það hins vegar hækkað hér um 0,3% þannig að samtals er þetta 0,1% lækkun á tryggingagjaldinu sem fyrirtækin borga. Það er það sem skiptir máli. En tryggingagjald er ekkert annað en skattur á atvinnu vegna þess að fyrirtæki sem ræður nýjan starfsmann þarf að borga þetta hátt gjald af launum starfsmannsins.

Svo er sérstök hækkun á tóbaksgjaldi sem á að gefa 1 milljarð. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en sagt er að það kunni að auka hættu á smygli, verðið er orðið svo hátt.

Almennur fjársýsluskattur er hækkaður líka og hann lendir á fjármálafyrirtækjunum. Mér skilst að lífeyrissjóðirnir séu undanþegnir en skattlagning á þá hefur mjög mikið verið gagnrýnd vegna þess að hún er í raun bara á almennu lífeyrissjóðina. Opinberu sjóðirnir eru með tryggð réttindi, opinberir starfsmenn hafa tryggð réttindi og ríkið borgar í rauninni allar álögur og allan halla á þeim sjóðum. Það hefur reyndar ekki gert það heldur er það bara falið. Sá halli er kominn í 57 milljarða í A-deildinni. Eins og ég nefndi í umræðunni í gær eru risastór göt í fjárlagafrumvarpinu sem ekki er tekið á. Þau stækka og stækka. Einhvern tíma falla þau til.

Síðan er vörugjald á bílaleigubíla fært nær almennu vörugjaldi á fólksbifreiðar og þetta er hin atlagan að ferðaþjónustunni. Þær eru tvær og það var bent á það í morgun að þetta kynni að stöðva innflutning á þessum bifreiðum í eitt ár, að menn nýti þá bifreiðarnar lengur af því að skatturinn hækkar. Þá missir ríkissjóður virðisaukaskatt af þeim bifreiðum. (BJJ: Nákvæmlega.) Það kom ekki fram hvað það væri mikið. Það getur vel verið að það slagi upp í þessa tekjuaukningu sem á að verða hérna en það þarf hv. nefnd að kanna.

Síðan er áframhaldandi úttekt á séreignarsparnaði sem grefur undan því að fólk eigi þann sparnað í framtíðinni. Það er sem sagt verið að nota séreignarsparnaðinn, þessi ríkisstjórn hefur gert það, og hann er borgaður út í svo smáum skömmtum að hann fer eiginlega beint í neyslu. Fólk fær 70 þús. kr. á mánuði og sú upphæð fer í það að draga fram lífið hjá fjölskyldunum sem eru illa settar, margar hverjar.

Samanlagt á þetta að gefa 8,4 milljarða.

Svo á að halda áfram með kolefnis- og raforkuskatt og gjald á sölu á heitu vatni. Ég hef bent á það áður að þetta er ótrúlegur fjöldi, margar milljónir færslna af pínulitlum gjöldum. Þetta eru kannski 180 kr. sem hver fjölskylda borgar í hverjum mánuði, 80 kr. fyrir heita vatnið og 100 kr. fyrir rafmagnið. Þetta eru mörg hundruð þúsund í gjöld í hverjum mánuði og erfitt að ganga úr skugga um hvort það sé rétt lagt á.

Svo eru ýmsar breytingar sem snúa að tengslum stjórnvalda við kjarasamninga sem menn voru ekki alveg sammála um að væru í samræmi við kjarasamninga. Það er lækkun atvinnuleysistryggingagjalds um 0,4%, svo er það hækkað hinum megin um 0,3% þannig að drottinn gaf og drottinn tók.

Afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila sem mikið hefur verið gagnrýnt er fellt niður og það er vel. Það lækkar tekjur ríkissjóðs þannig að samtals lækka tekjur ríkissjóðs um 6,1 milljarð en þetta eru ekki hrein útgjöld.

Svo er ýmislegt lagað eins og skattlagning á afleiðusamningum. Það kerfi er lagað og ég ætla ekki að fara nánar út í það enda er það ekki venjan við 1. umr. að fara nákvæmlega í einstaka liði. Heildartryggingagjaldið er núna 7,89% og lækkar úr 7,9% þannig að það lækkar eilítið, hefði átt að lækka miklu meira.

Það sem er jákvætt er töluvert mikil hækkun á barnabótum og það er haldið áfram með sérstöku vaxtabæturnar sem er líka jákvætt og hjálpar fólki nokkuð að ráða við húsnæðiskostnaðinn.

Ég er búinn að nefna sérstaka útgreiðslu á séreignarsparnaði. Ég held að það sé mjög varasöm aðgerð vegna þess að sá séreignarsparnaðar sem nú er greiddur út hefði seinna meir hjálpað fólki við að ráða við efri ár. Eins og í mörgu öðru í ráðstöfun ríkisstjórnar er á vissan hátt verið að kveikja í framtíðinni. Það er verið að taka sparnað sem á þá að koma til og minnka hann þannig að fólk verður þá frekar háð til dæmis Tryggingastofnun.

Svo er sagt að gjöld eigi að hækka í takt við almennar verðlagshækkanir fjárlaga sem eru 4,6%. Ég fór í gegnum það í andsvari að það er bara ekki rétt. Ég get að minnsta kosti ekki séð að það sé rétt reiknað og gerist það á mörgum sviðum. Ég benti sérstaklega á sóknargjöldin. Þau eiga samkvæmt þessu frumvarpi að hækka úr 701 kr. á mánuði, samkvæmt gildandi lögum, í 728 fyrir árið 2013 en ef farið hefði verið eftir verðlagsforsendum fjárlaga hefðu þau átt að hækka í 733. Þetta mun hv. nefnd eflaust fara í gegnum og ræða sín á milli því að það eru fleiri gjöld en þetta sem ég rakst á við fljóta yfirferð. Til dæmis er í 31. gr. sagt að efri mörkin í B-liðnum hefðu átt að hækka úr 49.229 í 51.565 en hefðu átt að vera 51.494, það er 71 kr. lægra. Allt er þetta til hækkunar fyrir greiðandann. Annað gjald sem var 77.495 er sagt eiga að hækka upp í 81 þús. en hefði átt að hækka um 117 kr. minna. Það kemur illa við skattgreiðandann en þá vel við ríkissjóð sem því nemur. Þetta hefði mátt vinna betur nema ég sé að gera einhverjar reiknivillur.

Frumvarpið í heild sinni er að mínu mati stórkostleg flæking á skattkerfinu. Það er verið að bæta við nýju skattþrepi. Ég hefði viljað sjá menn hækka 7% skattþrepið eilítið, kannski upp í 7,5%, og lækka eitthvað á móti þannig að ferðaþjónustan í heild sinni stæði jafnt sem og ríkissjóður. Ég held að menn ættu að skoða það í hv. nefnd að hverfa frá þessu flækjustigi. Hæstv. ríkisstjórn leikur sér að því að flækja skattkerfið og áttar sig ekki á því hvað aukin vinna hjá fyrirtækjunum kostar mikið. Þetta kostar allt. Hún áttar sig heldur ekki á því hvað undanskot verða miklu auðveldari og léttari þegar kerfið er flókið og eftirlitið verður nánast vonlaust eins og ég gat um áðan þegar erlendur ferðamaður bókar gistingu með morgunmat og námskeiði um íslenska náttúru og borgar einn reikning. Þá er þjónustan ýmist með 25,5% skatti, 14% skatti eða engum skatti. Menn geta spilað á þetta þannig að það er ekki gott að hafa svona flókið kerfi.