141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist í frumvarpinu miðað við að þetta nýja þrep, 14% þrepið, eigi að taka gildi 1. maí á næsta ári og spyr í fyrsta lagi: Er þá ekki ljóst að ferðaþjónustan verður að miklu leyti sjálf að borga mismuninn, þ.e. hækkunina á virðisaukaskattinum úr 7% til 14%, vegna þess að nú þegar er búið að selja stóran hluta af gistingu næsta sumars? Einhver verður að greiða það og er ekki ljóst að ferðaþjónustan þarf að taka það á sig? Menn breyta ekki gerðum samningum við ferðamennina sem ætla að koma hingað næsta sumar. Þetta er fyrri spurningin.

Í öðru lagi: Hefur hv. þingmaður eitthvað hugsað um hvað það muni kosta skattyfirvöld að demba þessum breytingum á með svo skömmum fyrirvara? Það þarf væntanlega að fara í breytingar á einhverjum hugbúnaði og fleira. Hvað mun þetta kosta atvinnugreinina? Menn þurfa að fara í einhverjar breytingar á bókhaldskerfum og fleira mætti nefna í því efni.

Af því að hv. þingmaður er svo úrræðagóður og hugmyndaríkur þegar kemur að fjármálum og rekstri fyrirtækja spyr ég líka: Sér hann ekki einfaldlega margar leiðir sem menn geta farið í ljósi þess að það er verið að fjölga skattþrepum um eitt? Það getur leitt af sér að skattundanskot verði miklu meiri í þessu nýja kerfi sem verið er að mæla fyrir sem mun flækja virðisaukaskattskerfið til mikilla muna og mun þá leiða af sjálfu sér að tekjur ríkissjóðs munu lækka vegna þess að skattundanskot aukast.

Fyrsta spurningin var um hvað honum finnst um að innleiða þessar breytingar með svona skömmum fyrirvara og að þetta taki gildi á miðju ári, 1. maí.