141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum ráðstafanir í ríkisfjármálum eða leiðirnar sem nota á til að fjármagna hluta af tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Eins og títt er um bandorminn sem lagður er fram á hverju hausti kennir hér margra grasa. Þar sem þetta er 1. umr. ætla ég að fara yfir greinarnar lið fyrir lið og reyna að meta áhrifin af þeim, en fyllri greining bíður 2. umr. enda gefst þá betra tækifæri til að halda ræður með meiri undirbúningi.

1. gr. er hin umdeilda grein þar sem virðisaukaskattur á útleigu hótel- og gistiherbergja hækkar úr 7% í 14%. Áætlað er að breytingin muni skila ríkissjóði nálægt 1,5 milljörðum, þar af rúmlega 1 milljarði á næsta ári. Eins og oft þegar skattbreytingar verða sem hafa bein áhrif á verð er ég hræddur um að eftirspurnaráhrifin af þessari hækkun hafi ekki verið metin að fullu eða metin yfirleitt. Því er ekki ólíklegt að tekjurnar verði minni en hér er gefið til kynna.

Mikil óvissa er í heiminum í dag. Tekjur hafa dregist mjög mikið saman í löndunum í kringum okkur og í hjá þeim þjóðum sem ferðast mest til Íslands þannig að ekki er alveg víst að aukningin verði jafnmikil og hún hefur verið undanfarin ár og jafnvel áratugi vegna þess að ráðstöfunartekjur fara lækkandi. Allt sem verður til þess að kostnaður ferðamanna hækkar á Íslandi leiðir til þess að samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar versnar miðað við aðra áfangastaði.

Það snertir líka Íslendinga vegna þess að 0,3% af neyslu íslenskra heimila eru vegna kaupa á gistingu á gistihúsum og hótelum. Verðlagsáhrif verða af hækkuninni og miðað við að skatturinn hækki um 7 prósentustig og hlutdeild gistingar í neyslukörfu landsmanna sé í kringum 0,3% reiknast mér til að verðlag hækki þá um í kringum 0,02%. Það mun hækka skuldir heimilanna og auka verðbólgu og annað slíkt. Mér finnst vanta að verðlagsáhrifin séu metin hér. Ég tók mig til og fletti upp í tölvu í hliðarherberginu og gerði útreikninga sem ég ætla ekki að bera fullkomna ábyrgð á að séu réttir vegna þess að þeir voru gerðir í fljótheitum. En mér reiknast samt til og held að það sé rétt hjá mér að verðlagsáhrifin séu þessi.

2. gr. Ég verð að segja að ég get ekki annað en fallist á að það sé skynsamleg ráðstöfun að áfram að endurgreiða virðisaukaskatt vegna bygginga íbúða og frístundahúsnæðis. Varðandi tryggingagjaldið í 3. gr. eru góðar fréttir og slæmar frétti. Tryggingagjaldið sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs er lækkað úr 2,45% í 2,05%, sem er gott fyrir fyrirtækin í landinu vegna þess að það gjald er ekkert annað en skattur á laun, sem leiðir til þess að færri starfsmenn eru ráðnir en ella. Það sem er slæmt í 3. gr. er að almenna tryggingagjaldið, sem er liður í tekjuöflun ríkissjóðs og er m.a. notað til að vega upp á móti auknum útgjöldum í lífeyristryggingunum, hækkar um 0,3%. Það er varanlegri hækkun en atvinnuleysistryggingasjóðsgjaldið vegna þess að það hreyfist með atvinnuleysinu. Það eru ekki góðar fréttir.

Síðan eru afdráttarskattarnir svokölluðu afnumdir. Það hefur verið baráttumál mitt því að sá skattur er flókinn og hefur óæskilegar afleiðingar. Þess vegna fagna ég því að ríkisstjórnin snúi loksins frá villu síns vegar og afnemi skattinn með öllu. (Gripið fram í.)

5. gr. Hér er verið að auka skattheimtu. Ég hirði ekkert sérstaklega um greinarnar á eftir. Þar eru glaðningar fyrir barnafólk, barnabætur hækka o.s.frv.

Þá kem ég að 15. gr. Þar eru slæmar fréttir. Þar er verið að hækka fjársýsluskattinn svokallaða, sem er skattur á laun í fjármálafyrirtækjum. Sá skattur er hækkaður úr 5,45% í 6,75% og er áætlað að það muni skila um 800 milljónum þannig að launakostnaður fjármálastofnana hækkar um 800 milljónir. Sumum finnst það sjálfsagt því að bankakerfinu sé ekki of gott að greiða þann skatt. En þá ber að huga að því að þetta er skattur á laun, nákvæmlega eins og tryggingagjaldið, sem líklegt er að muni leiða til uppsagna í hagræðingarskyni og til að ná betur utan um launakostnað.

Ég ætla ekki að tala um umhverfis- og auðlindaskattinn í bili en 17. gr. fjallar um skatt af raforku sem settur var á og að hann verði hækkaður um 6 aura. Það er slæmt, það eru verðlagsáhrif af því þannig að sú hækkun bítur í skottið á sér og leiðir til þess að verðlag hækkar, þ.e. verðbólga eykst og lán heimilanna hækka.

Vörugjald af ökutækjum og eldsneyti er hækkað og bensín- og olíugjöld eru hækkuð. Það er mjög slæmt, það fer beint út í verðlagið og hækkar verð á bensíni og olíum. Sérstaklega er það slæmt fyrir þá sem þurfa að nota bíla mikið starfsins vegna eða vegna búsetu. Það er sérstaklega slæmt fyrir þá sem búa í hinum dreifðu byggðum, í sveitum landsins og á stöðum þar sem aka þarf um langan veg til að sækja vinnu. Það eru því slæmar fréttir að hér eigi að fara að hækka vörugjöld af ökutækjum og eldsneyti og einnig bensín- og olíugjöld.

Jafnframt kom fram í efnahags- og viðskiptanefnd í dag að gjald á áfengi og tóbak, sem áætlað er að muni skila ríkissjóði um 1 milljarði í auknar tekjur á næsta ári, mun leiða til þess að skuldir heimilanna munu hækka um 3 milljarða vegna verðlagsáhrifa, sem er náttúrlega slæmt.

Séreignarsparnaðurinn. Enn er höggvið í sama knérunn. Halda á uppi einkaneyslu með því að gera fólki kleift að leysa út sparnað sinn. Við munum því væntanlega sjá áframhaldandi froðuhagvöxt á næsta ári.

Olíugjald og kílómetragjald er hækkað. Það er slæmt, það fer út í verðlagið, það hækkar kostnað þeirra sem þurfa að nota bíl og mun hækka skuldir heimilanna. Jafnframt er almenna kílómetragjaldið og sérstaka kílómetragjaldið líka hækkað. Bifreiðagjaldið er hækkað. Svo er sú sérstaka ráðstöfun í 35. gr. að allir Íslendingar þurfa að borga fasta upphæð til Ríkisútvarpsins, eða RÚV eins og útvarpsstjóri vill kalla það. Það er hækkað um 900 kr. þannig að gjaldið verður þá 19.700 á hverju ári. Fólk er mishrifið af þeim fjölmiðli sem Ríkisútvarpið er (Gripið fram í: ÍNN er verra.) og það er ótrúlega gamaldags að maður sé skattlagður með þessum hætti, að nefskattur sé um 19.700 kr. fyrir ameríska framhaldsþætti. Það er eiginlega alveg ótrúlegt. Þá gæti einhver talað um almannavarnahlutverk Ríkisútvarpsins en oft eru einkamiðlarnir mun fljótari með fréttirnar en Ríkisútvarpið þannig að ég gef ekki mikið fyrir það.

En það er eitt hlutverk sem Ríkisútvarpið hefur sem ég ætla ekki að gera lítið úr, það er hið menningarlega hlutverk sem Rás 1 hefur. En það þarf ekki að skattleggja hvern íbúa á Íslandi um 19.700 kr. til að viðhalda því hlutverki, það kostar miklu minna. Þar er ekki verið að borga fyrir ameríska framhaldsþætti og (GBS: Rúmenskar heimildarmyndir.) rúmenskar heimildarmyndir, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson bendir á. Það á sem sagt að höggva í sama knérunn. Til að borga fyrir þætti eins og Silfur Egils eigum við að greiða 900 kr. í viðbót. Það finnst mér ekki skynsamleg ráðstöfun og hefði haldið að taka ætti Ríkisútvarpið til gagngerrar endurskoðunar á þeim tímum sem við lifum á. Ég hefði viljað halda í Rás 1 en annað má missa sín fyrir mér.

Þegar allt er lesið yfir blasa við þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á okkur núna til að fjármagna m.a. fjárfestingaráætlun sína þar sem kennir margra grasa og í eru margir pakkar. Ætlunin er að keyra í kringum landið á gullvagninum og henda út pökkunum á ýmsum stöðum til að reyna að laða kjósendur að stjórnarflokkunum í komandi kosningum. (Gripið fram í.) En eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson bendir á mun það ekki takast. En það verður dýr tilraun sem skattgreiðendur munu þurfa að greiða fyrir. Það er furðulegt að mönnum skuli detta í hug að fara svona með skattfé almennings, ráðstöfunartekjur hins vinnandi fólks, og dreifa þeim í óskiljanlega hluti.