141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru eiginlega tvö mál sem hv. þingmaður víkur að. Annars vegar er rétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað skaðlegt þegar ríkisvaldið tekur til sín mikið af aflafé atvinnulífsins og einstaklinganna. Það er auðvitað vont per se. Ég held að mikil og þung skattbyrði og mikil ríkisumsvif séu ekki til þess fallin að skapa mikla grósku eða verðmætasköpun í samfélaginu. Ég held að við getum verið nokkurn veginn sammála um það.

Það er alveg hárréttur punktur hjá hv. þingmanni að óvissan ein og sér um skattalegt umhverfi og rekstrarumhverfi að öðru leyti er líka skaðleg fyrir atvinnulífið. Það að ríkisstjórnin reki skattpíningarstefnu gagnvart bæði borgurum og atvinnulífi er slæmt, en það er kannski enn verra þegar fyrirtækin þurfa þar að auki að búa við þá óvissu sem fram hefur komið á síðustu árum þegar menn geta átt von á verulegum breytingum með litlum sem engum fyrirvara á því rekstrarumhverfi sem þeir búa við. Það hefur eðlilega áhrif á vilja og getu manna til að leggja í fjárfestingar, nýsköpun og alls konar starfsemi sem eðli málsins samkvæmt getur verið áhættusöm en verður enn þá áhættusamari og brothættari í því starfsumhverfi sem núverandi ríkisstjórn hefur boðið upp á.

Sennilega eru vinstri stjórnir illskárri ef Framsókn er með en samt er enginn gríðarlegur munur á svoleiðis þriggja flokka (Forseti hringir.) vinstri stjórnum og síðan vinstri stjórn af því tagi (Forseti hringir.) sem við búum við í dag.