141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi misst af einhverjum köflum í sögukennslu í skóla miðað við þessar yfirlýsingar. Ég hélt að þingmaðurinn væri mjög vel lesinn í pólitískri sögu og mikilvægi Framsóknarflokksins í vinstri og hægri stjórnum þannig að það sé sagt.

Mig langar í framhaldinu af þessari umræðu okkar hér að segja að draumur margra um að hægt sé að reka eitthvert þjóðfélag án skatta er mjög fjarlægur því að ríkið mun alltaf þurfa að standa undir ákveðnum útgjöldum og sinna þörfum samfélagsins. Til dæmis er fráleitt að ætla sér að selja Landsvirkjun eða einhverjar slíkar mikilvægar stofnanir í samfélaginu.

En mig langar að koma inn á annað. Við lásum í netmiðlum í morgun að í Þorlákshöfn var nýverið sagt upp 27 manns í sjávarútvegi — (Gripið fram í: Í morgun?) í morgun, já, við lásum frétt um þetta í morgun. Það er stór biti fyrir lítið samfélag. Ástæðan sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins eða einhver annar tengdur því gaf upp var að, ég ætla ekki að nota nákvæmt orðalag hans, ég fengi líklega vítur fyrir það, en hún tengist óvissu í sjávarútvegi og miklum hræringum með þessa atvinnugrein.

Þetta er ekki fyrsta fyrirtækið sem segir upp fólki vegna álagna á sjávarútveginn undanfarið, því miður hafa margir gripið til uppsagna og ég spyr: Segir það okkur ekki að þessi aukna skattheimta á sjávarútveginn og gjöld sem greinin þarf að reiða nú af hendi plús allt annað, því að það er ekki eins og sjávarútvegurinn borgi ekkert af sköttum eða gjöldum, sé of mikið? Er þetta ekki það sem koma mun ef við höldum áfram (Forseti hringir.) að skattpína fyrirtækin í botn?