141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Til þess að botna þá umræðu er það kannski rétt sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hvíslaði að mér áðan að Framsóknarflokkurinn væri bara eins og gott mýkingarefni. Ég held að það megi til sanns vegar færa að hlutirnir væru kannski með öðrum hætti, enda vita allir að þvotturinn er afskaplega þægilegur viðkomu ef mýkingarefnisins nýtur við. En það er önnur saga, kannski komin dálítið út fyrir efnið.

Aðeins að þessu máli hér aftur. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem hefur setið í nokkurn tíma hér á Alþingi og séð margar breytingar á skattkerfinu fara í gegn og á undraverðum hraða, að mínu viti, hjá þessari ríkisstjórn. Það er eins og það sé að verða einhver samkeppni hér að keyra skattalagabreytingar í gegn með eins litlum fyrirvara og á eins miklum hraða og mögulegt er. Nú erum við að ræða þetta málefni hér í 1. umr. 5. desember og það á að taka gildi 1. maí nk., nýtt virðisaukaskattsstig, þessi 14%, á gistingu. Þá spyr ég hv. þingmann hvort honum finnist slíkt vinnulag sæmandi Alþingi að við ætlum okkur einungis örfáa daga í að ræða þetta viðamikla frumvarp og einungis nokkra mánuði, eina fjóra, fimm mánuði, til að innleiða breytingar á hugbúnaði skattyfirvalda, á bókhaldskerfum fyrirtækja í landinu. Ég spyr hvort þetta sé það nýja Ísland sem menn hafi verið að kalla eftir. Að mínu viti er þetta allt of skammur fyrirvari og kemur fram með allt of bráðum hætti. Mér fyndist áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvort honum finnist það ekki út í hött að viðhafa vinnubrögð sem þessi. Fyrirvarinn er allt of skammur að mínu viti.