141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[21:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja orð mín svo að ég sé með einhverjum hætti að bera blak af því frumvarpi sem hér er til umræðu. En ég verð þó að segja að í tíð núverandi ríkisstjórnar hef ég í allmörgum tilvikum séð það svartara en núna. Það eru ekki meðmæli með þessu frumvarpi en þess eru dæmi frá allra síðustu árum um enn skyndilegri breytingar og skyndilegri viðsnúning í sambandi við skattalagabreytingar, skemmri fyrirvara og verri vinnubrögð, en í þessu tilviki. Hlutfallslega stendur þetta frumvarp, eins og ég segi, ekkert illa að vígi miðað við fyrri skattalagafrumvörp þessarar ríkisstjórnar en það er auðvitað langt frá því markmiði sem við hljótum að setja okkur um það hvernig vönduð og góð vinnubrögð eiga að vera í þessu sambandi.

Ég vildi líka nota tækifærið til að nefna það að frá því að núverandi ríkisstjórn hóf breytingar sínar á skattheimtu í landinu fyrir tæpum fjórum árum hefur því ítrekað verið lofað að efnt yrði til víðtæks samstarfs og samráðs, bæði við hagsmunaaðila og á hinum pólitíska vettvangi, um hinar breiðari línur í skattalagabreytingum, að mörkuð yrði langtímastefna um breytt skattkerfi o.s.frv. Við höfum yfirlýsingar frá fyrri árum frá fyrri fjármálaráðherrum eða aðallega þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, um slíkt. Einhvern tíma var kallað eftir mönnum úr þingflokkum til að setjast í einhverjar svoleiðis nefndir sem síðan voru sjaldan eða aldrei kallaðar saman þannig að það hefur ýmislegt gerst í þessu. Menn hafa haft uppi góð orð um að marka ætti einhverja langtímastefnu á þessu sviði en lítið hefur orðið úr efndunum. Þess í stað er verið að taka breytingarnar fyrir í smábútum, eins og verið er að gera í þessu frumvarpi, sem felur, þegar heildaráhrifin eru tekin, í sér skattahækkanir sem bætast ofan á skattahækkanir fyrri ára.