141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að almennt eigi menn að fara varlega í uppbyggingu á fyrirtækjum hvort sem það er í ferðaþjónustu eða öðru. Og ef þeir sem hafa hug á því að reisa hótel og stækka gistirými telja að hækkunin geti sett strik í reikninginn í fjárfestingaráætlunum og viðskiptaáætlunum finnst mér bara mjög heilbrigt að þeir taki mál sín til endurskoðunar, skoði þau í því samhengi og setji þá breytu inn í viðskiptaáætlanir. Menn áætla auðvitað alltaf hve margar gistinætur verða á hótelum og annað því um líkt. Menn byggja það fyrst og fremst á áætlunum og ef þeir telja að breytingarnar geti ruggað svo bátnum er skynsamlegt að bíða. En ég held að almennt séð sé þetta ekki það sem menn þurfa að hafa áhyggjur af í þessari grein. En menn eiga alltaf að fara varlega í uppbyggingu (Forseti hringir.) og stórum fjárfestingum, jafnt í ferðaþjónustu sem annars staðar. Við brenndum okkur á því að gera það ekki.