141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vandinn er einmitt sá, ef vanda skal kalla, að þessir aðilar eru vitanlega mjög ábyrgir. Þeir taka hækkunina inn í áætlanir sínar og geta þess vegna ekki haldið áfram framkvæmdum vegna þess að áætlunin sem þeir fóru með inn í fjármálastofnun segir að dæmið gangi ekki upp eftir breytinguna. Fyrir vikið verða þeir áfram með óhagkvæman rekstur með auknum kostnaði vegna þessarar breytingar. Í rauninni er verið að segja að þessir aðilar eigi bara að bíða þetta af sér.

Hvernig eiga þeir að geta beðið þetta af sér? Segjum bara að einhver vilji fara inn á rútumarkaðinn. Hvernig á hann að gera það ef hann er ekki með 60 rúm í boði? Þá er hann bara úti, það er staðreynd. Ef menn hafa ekki ákveðið svigrúm verða þeir að taka þær ákvarðanir sem hv. þingmaður talar um, að finna sér hreinlega eitthvað annað að gera, því að ekki gengur að reka fyrirtæki óhagkvæmt og tapa á rekstrinum. Það vill ekki nokkur maður vill gera.

Ég hef líka áhyggjur af því að breytingar varðandi bílaleiguna muni leiða til þess að okkar fagra og fína kjördæmi muni á endanum fara út af kortinu (Forseti hringir.) vegna hinnar gríðarlegu (Forseti hringir.) fjarlægðar frá borginni.