141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú ekki ástæða til að vera með svo mikla svartsýni í þessu sambandi, það er allt í lagi að stíga varlega til jarðar en áætlanir eru alltaf áætlanir hvort sem virðisaukaskatturinn er 14% eða 7% eða 25,5%. Menn hafa auðvitað ekkert í hendi í þessum geira fyrr en pantanir eru komnar og menn eru búnir að greiða fyrir þær. Menn áætla og þær áætlanir hafa gengið mjög misjafnlega eftir, eins og við þekkjum öll.

Ég held að greinin þurfi ekki að óttast framhaldið því að Ísland hefur upp á það mikið að bjóða. Það mun verða eftirspurn eftir því að koma til landsins og ferðir til Íslands eiga ekki að vera á neinum spottprís. Við sækjumst eftir því að fá hingað fólk sem vill koma hingað vegna þess að hér er falleg náttúra og margt að skoða og fólk vill borga (Forseti hringir.) fyrir það. Við fáum hingað fólk í framtíðinni. (Gripið fram í.)