141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:10]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni varðandi hækkun á heiðurslistamannalaunum. Mig langar að heyra aðeins skoðun hennar á þeim. Jafnframt langar mig að benda á að það er ekki eingöngu hækkun tóbaksgjalds sem við ræðum hérna. Við ræðum líka sambærilegt gjald, áfengisgjaldið sem hækka mun umtalsvert um þessi áramót ef frumvarpið verður að lögum. Hvaða áhrif hefur hækkun á áfengisgjaldi haft? Nei, menn eru ekki hættir að drekka, eins og ríkisstjórnin var að vonast til. Bæði hefur markaðurinn færst út fyrir ríkið og nýleg könnun sýnir að ungt fólk og þeir efnaminni drekka nú frekar landa og heimabrugg í stað þess að versla í ríkinu. Sala á sterku víni í ríkinu hefur dregist saman um 40% og færst út á svarta markaðinn og fólk veit ekkert hvað það er að drekka. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af? (TÞH: Svaraðu nú.)