141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það að stjórnarmeirihlutinn hafi ekki treyst sér til að kalla eftir utanaðkomandi hlutlægu áliti um fjárlagagerðina ætti að vera næg viðvörun fyrir þingið til að hafa fyrirvara á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Sporin hræða einnig og við sjáum ef við lítum til ríkisreikninga 2009, 2010 og 2011 að það er full ástæða til að setja fyrirvara á það orðaglamur sem stjórnarmeirihlutinn viðhefur oft á tyllidögum um hina auknu festu og hinn mikla aga sem nú ríki í fjármálum ríkissjóðs.

Því miður sér þessara fullyrðinga hvergi stað í því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu til 2. umr. mjög vanbúið, svo vanbúið að það er illt að gera á því nokkrar skynsamlegar breytingar af þeirri ástæðu einni að menn hafa enga heildarmynd fyrir sér (Forseti hringir.) í ljósi þeirra tillagna sem boðaðar eru af hálfu stjórnarmeirihlutans fyrir 3. umr.