141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Alþingi hefur á undanförnum árum samþykkt mörg erfið fjárlög. Þau hafa verið brennimerkt því efnahagshruni sem varð hér haustið 2008, þau hafa kostað gríðarlega erfiðleika í samfélaginu bæði vegna niðurskurðar í útgjöldum, til allra útgjaldaliða ríkisins, sem og vegna þess að það hefur þurft að afla tekna fyrir þeim útgjöldum sem þó standa eftir.

Það fjárlagafrumvarp sem við greiðum atkvæði um í dag er annars eðlis. Það markar tímamót í þeirri uppbyggingu sem hefur staðið yfir frá sumrinu 2009. Það markar tímamót í því að útgjöld til velferðarmála eru aftur að byrja að aukast. Það markar tímamót í því að niðurskurðartímabilinu frá hruni er lokið.