141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í þessu fjárlagafrumvarpi birtist afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Vegna þess að hér hefur ekki orðið hagvöxtur neyðist ríkisstjórnin til að taka arð út úr ríkisfyrirtækjum og selja ríkiseignir til að standa undir rekstri í stað þess að borga niður skuldir eins og menn ættu að vera að gera. Á næstu fjórum árum fara 370 milljarðar í vaxtagreiðslur frá ríkinu. Í þessu frumvarpi eru gjöld hækkuð með áhrifum á verðbólguna og þar með á skuldir heimilanna.

Hér eru líka framkvæmd svik við atvinnulífið með því að tryggingagjaldið er ekki lækkað. Í þessu frumvarpi er enn einu sinni sópað undir teppið augljósum útgjöldum sem blasa við öllum, eins og vegna Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðakerfisins, og það er vegna þess að menn hafa ekki viljað horfast í augu við slíka útgjaldaliði. Síðustu tvö ár hefur verið farið 100 milljarða fram úr á ríkisreikningi borið saman við fjárlög. Árið 2010 fóru menn 43 milljarða fram úr á ríkisreikningi og 2011 53 milljarða þannig að nú er ástæða fyrir menn að spyrja sig: Hver trúir því í raun og veru að fjárlögin verði í jafnvægi (Forseti hringir.) á næsta ári í ljósi sögu þessarar stjórnar?