141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við skulum bíða og sjá hvað gerist á milli umræðna, hvaða stóru útgjaldaliðir eiga eftir að koma inn í þetta frumvarp og sjá þá hver niðurstaðan verður. Það liggur fyrir að þær skattahækkanir og gjaldahækkanir sem boðaðar eru í þessu frumvarpi munu valda því að verðbólgan eykst, lán heimilanna hækka og kjörin rýrna. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa varað við því að með þessu frumvarpi sé kjarasamningum stefnt í hættu. Það er ástæða til að hlusta á þær aðvaranir og það er ástæða til að bregðast við.

Það er ekki ástæða til að hlusta á glamuryrði um að nú stöndum við svo vel að þessi þáttaskil hafi orðið vegna þess að sagan sýnir annað og við eigum eftir að sjá koma inn í þingið útgjaldaliði (Forseti hringir.) sem munu breyta þeirri mynd sem hæstv. atvinnuvegaráðherra gumaði af í ræðu sinni. (Gripið fram í: Hvar eru breytingartillögurnar?)