141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[10:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla að ræða aðallega um það sem ekki er í fjárlögunum, í fyrsta lagi Sparisjóð Keflavíkur. Þar hurfu 20 milljarðar og þeir virðast hafa týnst í kerfinu. Síðan er það Íbúðalánasjóður, þar vantar 13–40 milljarða sem ekki er getið um. Þetta eru allt skuldbindingar ríkissjóðs. Síðan er A-deild LSR, þar vantar 57 milljarða og sú upphæð hefur hækkað um 10 milljarða á einu ári. Þeir milljarðar eru ekkert á förum og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra ætli að standa við kjarasamninga við opinbera starfsmenn.

Svo vantar inn í þetta B-deildina. Þar eru 400 milljarðar plús tugir milljarða sem nýlegur dómur sagði að Hafnarfjörður bæri ábyrgð á og sömuleiðis þá ríkið gagnvart LSR hjá þeim aðilum sem hefur verið leyft að borga þar inn.

Þessi fjárlög eru sýndarfjárlög og segja ekkert til um raunverulega stöðu.